Fotbolti.net velur ávallt besta leikmann í hverri umferð í Inkasso deildinni og að þessu sinni er það Aleksandar Trninic leikmaður KA sem varð fyrir valinu. Aleksandar sýndi mjög góðan leik í 4-0 sigri KA á Leikni frá Fáskrúðsfirði, við á heimasíðu KA hjálpuðum til og gripum kappann í viðtal fyrir Fotbolti.net sem við birtum hér.
Að auki er Aleksandar í liði umferðarinnar ásamt Hrannari Birni Steingrímssyni og óskum við þeim félögum til hamingju með valið. Við minnum svo á einn mikilvægasta leik tímabilins þegar KA sækir Keflavík heim í kvöld klukkan 18:30, ef þið komist ekki suður með sjó þá verður leikurinn sýndur á Stöð 2 Sport, áfram KA!
Serbinn Aleksandar Trninic skoraði tvívegis þegar KA vann Leikni Fáskrúðsfirði 4-0 í 15. umferð Inkasso-deildarinnar. Seinna mark hans var hreint út sagt magnað en það gerði hann með ótrúlegri þrusuneglu.
Trninic er leikmaður umferðarinnar í Inkasso-deildinni en KA-menn tóku skemmtilegt viðtal við hann í tilefni þess. Viðtalið má sjá í sjónvarpinu hér að ofan ásamt markinu magnaða.
Við lékum virkilega vel og það var ánægjulegt að ná þessum mörkum eftir að hafa farið illa með færin í leiknum á undan," segir Trninic.
Athyglisvert er að eftir að hafa spilað með Nike bolta í sumar þá voru Select boltar í þessum leik en Trninic segir þá henta sér sér betur.
Fyrir tímabilið var ég spurður að því hvor týpan mér líkaði betur og ég sagði Select en fleiri í liðinu völdu Nike. Þegar ég heyrði að í þessum leik yrði leikið með Select var ég ánægður og sagði: Treystu mér, ég er 100% að fara að skora."
Hvernig hefur verið að aðlagast lífinu á Íslandi?
Fyrir mig hefur þetta verið fullkomið. Þetta er mjög rólegt og frábært fyrir mig og mína fjölskyldu eftir að hafa verið í Belgrad þar sem allt er svo stórt. Við höfum allt til alls hérna," segir Trninic sem hefur spilað betur og betur eftir því sem liðið hefur á tímabilið.
Minn leikstíll er aðeins öðruvísi en er spilaður hérna. Ég átti í smá vandræðum í byrjun að finna jafnvægið en síðustu fimm til sex leikir hafa gengið vel og ég spila alltaf betur og betur. Nú er komið að því að halda áfram á sömu braut."
KA er á toppi Inkasso-deildarinnar en liðið mætir Keflavík á útivelli í kvöld.