Ferðin suður og fyrsti dagur á Spáni
Haldið var suður fyrir hádegi á mánudegi enda leikur við Fylki um kvöldið. Komið var í borgina um kl. 16:30 og ekki seinna vænna, enda leikurinn settur á klukkan 19:00. Þetta var fyrsta stopp áður en menn héldu út í hitann og sólina (sem hefur reyndar verið í feluleik við okkur, en við finnum hana)
Leikurinn hófst ágætlega þar sem Hallgrímur átti þrumufleyg langt fyrir utan teig sem söng í netinu, 0-1 fyrir okkur. Ekki var Adam lengi í paradís og á 10 mín kafla tók Fylkir sig til og skoraði 3 mörk, bættu Fylkismenn svo við einu áður en Hallgrímur skoraði sitt annað mark og náði að minnka muninn í 4-2 en þar við sat.
Næst var ferðinni heitið á BK Kjúkling þar sem drengirnir nærðu sig aðeins fyrir ferðina til Keflavíkur en gamla varnarsvæðið var heimsótt og þar gist, enda mæting á Keflavíkurvöll um kl. 6:00 og ekkert vit í öðru en að gista nálægt vellinum.
Þegar innritun var lokið og menn komnir til sinnar koju voru aðeins nokkrir tímar í ræs, það voru því mishressir menn sem mættu í morgunmat daginn eftir um kl. 05:00.
Flugið út var gott og lítið um ókyrrð en það var svo sem bara fréttastjórinn sem hafði stressað sig á því en hann hafði hent í sig tveimur sobril og var nokkuð slakur allt flugið, sem betur fer :)
Þegar lent var á Alicante var um 18 stiga hiti og skýjað. Á Spáni erum við tveimur tímum á undan klukkunni heima og því lent um 15:00 á staðartíma. Við vorum komnir af stað um 15:30 með rútu á hótelið og menn fóru aðeins niður á æfingasvæði og tóku létta æfingu til að hreyfa stirða leggi eftir fjögurra tíma flug og næstum klukkustund í rútu.
Eitthvað voru menn svangir þegar matsalurinn var opnaður og kláraðist maturinn. Starfsfólk hótelsins vissi ekkert hvaðan á sig stóð veðrið. Vonandi verður nóg til að borða á morgun enda svangir fótboltamenn sem eiga hér við sögu. Það þarf að næra þessa skrokka vel.
Eftir mat var ákveðið að skella sér út á næsta sportpub en 8-liða úrslit meistaradeildinnar voru að spilast í kvöld og vildu menn ekki missa af Barcelona Atletico Madrid.
Fundum við okkur sæti á einhverri írskri knæpu hérna nálægt hótelinu og fylgdumst með Barca vinna Atletico 2-1.
Þar sem Túfa hafði sett fyrirmæli um að allir væru komnir í koju klukkan 23:00 var það einfaldlega næst á dagskrá að leik loknum.
Undirritaður getur vel viðurkennt að það að fara að sofa klukkan 21:00 að íslenskum tíma er ekki eitthvað sem hann er vanur og því erfitt að leggjast á koddann. Sem betur fer var herbergisfélaginn á sama máli og því aðeins spjallað áður en haldið var í heimsókn til Óla Lokbrá.
Annað kvöld mun svo birtast frétt um dag 2 og á facebook munu koma myndir. Endilega fylgist með.
Facebook síða: https://www.facebook.com/aframka
Snapchat aðgangur sem hægt verður að fylgjast með strákunum: Schiottararnir