Jæja.. þá fer að styttast í þessu hjá okkur.
Þegar hérna kemur við sögu er mánudagurinn 11. apríl. Dagurinn byrjaði eins og þið öll eruð farinn að þekkja; á morgunmat og svo morgunæfingu klukkan 10:00.
Í ljósi þess að þetta var síðasti æfingadagurinn var þessi æfing notuð í leik, ungir gegn gömlum.
Með titil að verja frá síðustu æfingaferð að þá ætluðu ungir svo sannarlega ekki að gefa neitt eftir. Yfirlýsingarnar voru látnar fljúga fyrir leik og ætluðu menn ekki að gefa tommu eftir.
Oft hefur verið sagt að það sé vörnin sem vinnur leiki og á það vel við um þennan leik þar sem aftasta línan hjá gömlum var eins og klettur og skóp sigurinn þennan daginn. Ekki verður sagt að ungir hafi verið sáttir, en það er þá bara að bíða fram á nýtt ár til að reyna að ná titlinum til baka.
- Sigurmyndin af gamla liðinu -
- Orri var öflugur í leiknum fyrir gamla og Elfar Árni ákvað að skella í létt viðtal við drenginn -
Næst á dagskrá var skotkeppni á milli sömu liða. Má segja að Orri Gústafs hafi stolið senunni þar og gert nokkur gullfallega mörk. Bók um viðstöðulaus skot er á næsta leiti, bíðið spennt.
Af virðingu fyrir ungum og þeirri staðreynd að maður á að vera kurteis bæði í sigri og tapi og ekki gera lítið úr andstæðingnum munum við láta staðar numið hérna og fjalla ekki meira um þessar keppnir. Allavega þar til á næsta ári þegar ungir fá aftur möguleikann á að sækja sigur.
En næst var auðvitað það sem allir hafa beðið eftir að fá fréttir af, enda hefur Sævar P framkvæmdastjóri verið æstur að upplýsa um gang mála í skallatennisleikjunum.
En þegar hérna kemur við sögu er staðan 1-1 í leikjum og allt undir. Túfa og Óskar, eða Túskar (vinstra megin á myndbandinu) gegn Eggerti og Sævar, sem vildu láta kalla sig Sæggert.
Má með sanni segja að undirritaður hafi aldrei áður verið viðstaddur jafn spennuþrunginn leik en það var allt undir hérna. Bæði lið áttu sigurinn skilinn en það lið sem vann var...
Næst á dagskrá var hádegismatur og mollið góða, en afkomuviðvörun hefur verið gefin út eftir að KA liðið fór til síns heima. Vonandi hafa verslunarmennirnir þetta þó af.
Ákveðið var svo að hittast á sundlaugarbakkanum um kl. 17 sama dag og skella sér í smá leiki og taka góða stund saman áður en haldið yrði út að borða. Þegar flestir voru komnir í sín fínustu klæði skellti hópurinn sér á matsölustað rétt hjá hótelinu. Var það stórkostlega valið ef svo má að orði komast en undirritaður var gríðarlega sáttur með matinn (og ekki hatar hann að borða) sem og allir aðrir sem rætt var við. Eitthvað hefur heyrst jafnvel að menn hafi fundið nýja köllun í lífinu og sé nú Hrannar Björn að skrá sig í kokkanám við VMA ... eða svo segja sögur.
Út í þessa kvöldstund ætlum við ekkert að fara ítarlega að öðru en að gleðin var við völd og var hún frábær endahnykkur á magnaðri ferð.
Eftir að einhverjir höfðu snætt morgunmat ákvað Túfa að hafa smá skemmtiæfingu fyrir þá sem vildu og eftir það var snemmbúinn hádegismatur áður en haldið var upp í rútu. Þegar á flugvöllinn var komið tók skemmtilega langur tími til að skrá sig inn en um tvo tíma tók að skrá sig í flugið fyrir liðið og því aðeins beint upp í vél eftir innritun.
Sökum flughræðslu ætlar undirritaður ekkert að fjalla mikið um ferðina heim nema þá að um kl. 01:00 í nótt (miðvikudagur) blasti við þessi óstjórnlega fallega sjón, sem KA heimilið er, og menn því komnir á leiðarenda í þessu frábæra ferðalagi.
Takk fyrir mig,
Ragnar Heiðar Sigtryggsson
OOOOOOG KA!!!!!!!!!!!!!! - Síðasta æfingin endaði á góðum hring með öllum ferðalöngum.