Þá er það dagur 2 sem er að lokum kominn og því upplagt að rita hérna aðeins niður hvað gekk á hjá okkur í dag.
Mjög hefðbundin byrjun var á deginum þegar allir mættu í morgunmat kl. 8:00 - Einhverjir eflaust að venjast því að klukkan hérna sé tveimur tímum á undan og því flestir að vakna fyrir kl. 6:00 miðað við Íslenskan tíma. Þetta hafðist þó allt og enginn fékk sekt fyrir að mæta of seint.
"Váv Óskar, geturru kennt mér að halda svona á lofti?" - Árni Björn
Þegar frá morgunmatnum var horfið var æfing næst á dagskrá, en morgunæfingarnar eru frá 10:00 - 11:30. Eftir æfingu fóru einhverjir á sundlaugarbakkann enda sólin hægt og rólega byrjuð að rífa sig í gegnum skýin. Eftir hádegismatin sem er kl. 13:00 voru menn snöggir aftur á bakkann, en nokkrir skelltu sér þó í mollið og reyndu að finna eitthvað handa fólkinu sínu heima.
Næsta æfing dagsins var kl. 16:00 og stóð yfir í um 90 mínútur. Eftir sturtuna tóku menn því rólega fram að kvöldmat þar sem strákarnir fengu köku frá Túfa og Ragga, sem eiga báðir afmæli 6. apríl.
Um kvöldið, eftir að Túfa hafði haldið fund með mönnum þar sem skipt var upp í varnarmenn, miðjumenn og sóknarmenn og farið yfir hina ýmsu þætti fóru einhverjir og horfðu á meistaradeildina en aðrir skelltu sér í mollið til að versla og einhverjir hvíldu sig eftir langan dag.
Hápunktur dagsins var svo auðvitað þegar Hrannar lét vaða á Önnu Birnu í skallatennis svo hún flaug á hausinn. Engum varð þó meint af en það var mikið hlegið.
Það var svo ákveðið að fara á leik á sunnudaginn og sjá Valencia spila gegn Villareal. Eitthvað verður fjörið þar.
(Myndir og fleira mun koma inn á facebook eftir ferðina líklegast, netið hér ber það ekki að fara uploada fleiri fleiri hundruð myndum)
Þar til síðar...