Aðalfundur knattspyrnudeildar í gær

Tæplega 700 þús. kr. halli varð á rekstri knattspyrnudeildar KA rekstrarárið 2012. Velta deildarinnar á starfsárinu var um 91 milljón króna. Þetta kom m.a. fram á aðalfundi deildarinnar, sem haldinn var í gær.

Gunnar Níelsson, formaður knattspyrnudeildar, bauð gesti velkomna á fundinn og stakk upp á Agli Ármanni Kristinssyni sem fundarstjóra og Óskari Þór Halldórssyni sem fundarritara. Egill Ármann tók síðan við fundarstjórn og fór yfir dagskrá fundarins og gaf að því búnu orðið til Gunnars Níelssonar, formanns stjórnar, sem flutti skýrslu stjórnar knattspyrnudeildar fyrir liðið ár. 

Skýrsla stjórnar 
Gunnar Níelsson fór vítt og breitt yfir sviðið hjá knattspyrnudeild á liðnu starfsári. Hann rifjaði upp að ólíkt árinu á undan hafi vellir á KA-svæðinu komið vel undan vetri og því hafi mfl. kk. getað hafið þar æfingar í maí. „En eins og menn hins vegar vita og sjá eru í dag verulegar blikur á lofti með ástand grasvalla okkar og lítið annað hægt að gera en vona það besta, en á sama tíma rétt að reikna með hinu versta,“ bætti Gunnar við. Gunnar sagði að gengi mfl. kk hafi verið brösótt framan af Íslandsmóti. „Liðið hóf keppni rólega og má segja að strax um miðjan júni hafið ,,fjallið“ sem við okkur blasti verið orðið ansi hátt. Liðið vann sig þó hægt og rólega inn í mótið aftur og vissulega áttum við möguleika á að fara upp um deild, en tap á heimavelli gegn Víkingi Ólafsvík í næst síðustu umferð gerði þá von að engu. Niðurstaðan því fjórða sæti á markahlutfalli og 33 stig eða 9 stigum minna en lið Víkings frá Ólafsvík sem vann sér keppnsirétt í Pespideild. Liðið okkar lék þegar líða tók á mótið oft mjög vel. Í Borgunarbikar KSÍ tókum við þátt og komst liðið í 32ja liða úrslit en féll úr leik eftir hörkuleik gegn Grindavík á Akureyrarvelli. 
Meiðsli settu vissulega strik í okkar reikning og má nefna að á líklega tíu dögum fengu fjórir leikmenn okkar heilahristing og voru fyrir vikið frá leik um langan tíma. Þórður Arnar neyddist til að hætta vegna höfuðmeiðsla, Túfa lagði einnig skóna á hilluna vegna meiðsla og Elmar Dan sleit krossbönd. Jóhann Helgason var einnig lengi frá vegna meiðsla sem og Ævar Ingi. Okkar leikmenn voru lítið í því að togna smávægilega sl. sumar, meiðsli þeirra voru því miður yfirleitt meiri. Sandor Matus lék á sl. ári sinn 200. meistaraflokksleik fyrir KA og fékk hann úr að gjöf frá kanttspyrnudeild.“ 
Gunnar sagði ánægjulegt að 2. fl. kk hafi haldð sér uppi í B-deildinni, enda framtíðin í flokknum björt og trúilega aldrei í sögu KA verið jafn margir piltar í 2. flokki við æfingar hjá félaginu og einmitt í vetur. 
„Við áttum á sl. ári fimm fulltrúa í yngri landsliðum Íslands, þau Fannar Hafsteinsson, Ævar Inga Jóhanneson, Gauta Gautason, Lára Einarsdóttur og Helenu Jónsdóttur.“ 
Gunnar sagði að sem fyrr væri N1-mótið stærsta verkefni knattspyrnudeildar og það yrði það áfram. Sem fyrr væri ávallt markmiðið að gera betur á næsta móti en því síðasta. Með það að leiðarljósi væri unnt að halda mótinu á því háa þrepi sem það hefði verið. „Við megum alls ekki slaka á klónni með N1-mótið, miklu frekar þurfum við að bæta þar í,“ sagði Gunnar. 
„Síðastliðið haust ákvað stjórn knattspyrnudeildar í samráði við Gunnlaug Jónsson að leiðir myndu sklija, eftir tveggja ára störf Gulla fyrir félagið, einnig lét Ingvar Már af störfum sem aðstoðarþjálfari. Þeim félögum þökkum við innilega fyrir gott starf fyrir KA. Við réðum á haustdögum Bjarna Jóhannsson í starf þjálfara, honum til aðstoðar er Túfa. KA-fólk hlakkar til samstarfsins og er óhætt að segja að við væntum mikils af þeirra vinnu. Einnig gekk Atli Sveinn Þórarinsson aftur til lið við KA og mun hann leika í þeim gula og bláa næstu tvö ár að minsta kosti. Míló og Steingrímur Eiðsson munu áfram sjá um þjálfun 2. flokks. 
Óskar Þór, ötull framkvæmdastjóri kanttspyrnudeildar, sagði upp starfi sínu í desember sl. og lætur því af stöfum hjá okkur bráðlega. Það er mikill missir og vil ég þakka honum af heilum hug fyrir mikið og gott starf fyrir KA. Óskar hefur þó sagt mér að við getum leitað til hans með viðvik, hann er sko ekki að hætta í KA! Við starfi framkvæmdastjóra tekur Gunnar ,,Gassi“ Gunnarsson, sem þekkir það út og inn frá fyrri tíð, og mun hann hefja störf í áliðnum mars.“ 
Gunnar sagði rekstur knattspyrnudeildar KA óhugsandi ef ekki kæmu til öflugir samstarfsaðilar, bæði fjölmörg fyrirtæki og einstaklingar – með bæði fjárframlögum og ómældu vinnuframlagi árið um kring, ekki síst á N1-mótinu. „Án ykkar væir ekki hægt að halda úti fótbolta í KA, svo einfalt er það,“ sagði Gunnar. 
Hann sagði að átak hafi verið gert í Getraunum – þ.e. tippinu – sem tekist hafi mjög vel og skili knattspyrnudeild umtalsverðum fjárhæðum. „Gott er að félagsmenn hafi í huga að það að tippa í KA- heimilinu á laugardögum og fá sér mjólkurgraut hjá Óla Páls, Ragga og Sverri færir knattspyrnudeild 26% í sölulaun fremur en að tippa úti í bæ en þá fær KA bara 10%. Eiga þeir tippbræður mikinn heiður og þakkir fyrir að ganga í þetta verk og rífa upp.“ 
Gunnar sagði að gervigrasvöllurinn væntanlegi muni efla starfið í KA. „Ljóst er að þegar þessi völlur verður klár mun starf á svæðinu breytast mjög. Það er mín trú að við munum eftir ekki langan tíma með nýja völlinn í notkun velta fyrir okkur hvernig við fórum að áður. Loksins munu iðkendur í fótbólta geta nýtt félagsheimilið og aðstöðuna þar lengur en sem nemur venjulegri sumarnotkun. Persónulega get ég varla beðið efir því að sjá svæðið iða í október, jafnvel nóvember, en augljóslega í mars. Það eru spennandi tímar framundan, er mér óhætt að fullyrða. 
Að endingu vil ég ítreka þakkir mínar til allra þeira sem komu á liðnu starfsári að starfi kanttspyrnudeildar KA, ég vil þakka öllum sjálfboðaliðum, þjálfurum, starfsfólki KA-svæðisins og Akureyrarvallar, dómurum sem dæma fyrir félagið, formanni KA, en við Hrefnu á deildin afar gott samstarf, og Sævari, framkvæmdastjóra aðalstjórnar. Meðstjórnendum mínum þakka ég líka fyrir ánægjulegt samstarf í hvívetna. Áfram KA.“

Reikningar 
Bjarni Áskelsson, gjaldkeri stjórnar, fór yfir reikninga knattspyrnudeildar fyrir liðið starfsár. Fram kom hjá honum að velta knattspyrnudeildar í heild sinni, annars vegar mfl. kk og 2. fl. kk og hins vegar yngri flokka, nam um 91 milljón króna, þar af var velta mfl. og 2. fl. kk um 55 milljónir á síðasta rekstrári, sem er því sem næst óbreytt tala frá fyrra ári. Yngriflokkastarfið velti um 36 milljónum króna. Útgjöld námu um 91,3 milljónum og fjármagnsliðir voru neikvæðir um 300 þúsund krónur. Tap deildarinnar var því tæplega 700 þúsund kr. Sé rekstrarstaðan sundurliðuð var tap á rekstri mfl. og 2. fl. kk en hagnaður á yngriflokkastarfinu. Árið 2011 var lítilsháttar hagnaður hjá bæði mfl. og 2. fl. kk og yngriflokkastarfinu. 

Stjórnarkjör 
Stjórn knattspyrnudeildar er óbreytt frá liðnu starfsári að því frátöldu að Bjarni Áskelsson, gjaldkeri, gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Í hans stað var kjörinn í stjórn Jóhann Rúnar Sigurðsson. Stjórn mun skipta með sér verkum á fyrsta fundi hennar, en hana skipa auk Jóhanns Rúnars þeir Gunnar Níelsson, Hjörvar Maronsson, Halldór Aðalsteinsson, Páll Jónsson, Eggert H. Sigmundsson og Sævar Helgason.

Yngriflokkastarf 
Unnur Sigurðardóttir, formaður yngriflokkaráðs, fór yfir starf ráðsins á liðnu starfsári. Í stórum dráttum sagði hún að starfið hafi gengið vel. Auk hins hefðbundna starfs árið um kring hefðu aðrir viðburðir – s.s. Greifamót og Arsenalskóli – gengið vel. Unnur gat þess að gerð hafi verið tilraun með nýtt Greifamót í nóvember fyrir 3. og 4. fl. kvk og sú tilraun hefði gengið ljómandi vel. Unnur gat þess að ráðist hafi verið í kaup á KA-vindjökkum fyrir alla iðkendur og með dyggum stuðningi nokkurra fyrirtækja hafi verið mögulegt að gefa iðkendum jakkana. Fyrir stuðning þessara fyrirtækja þakkaði Unnur af heilum hug. Í yngriflokkaráði eru Unnur Sigurðardóttir, Erna Hrönn Magnúsdóttir, Vaka Óttarsdóttir, Anna Klara Hilmarsdóttir, Anna Birna Sæmundsdóttir, Ólafur Örn Torfason, Arnar Gauti Finnsson og Bergvin Fannar Gunnarsson. Í kjölfar þess að Óskar Þór Halldórsson mun láta af störfum um næstu mánaðamót, en hann hefur starfað fyrir alla knattspyrnudeildina, jafnt mfl. og 2. fl. sem yngriflokkastarfið, upplýsti Unnur að yngriflokkaráð hafi ráðið Egil Ármann Kristinsson, þjálfara, í hlutastarf til þess að sinna ýmsum verkefnum fyrir yngriflokkastarfið í vetur og næsta sumar. 

Önnur mál 
Enginn kvaddi sér hljóðs undir liðnum önnur mál og var fundinum slitið eftir 37 mínútur.