4-2 tap gegn BÍ/Bolungarvík

Mynd/Þórir Tryggva.
Mynd/Þórir Tryggva.

BÍ/Bolungarvík sigruðu í dag okkar menn í afar kaflaskiptum leik 4-2. Fyrri hálfleikur var markalaus og tíðindalítill en í þeim síðari voru skoruð sex mörk. Mörk okkar í leiknum skoruðu Ivan og Bjarki eftir stoðsendingar frá Brian Gilmour. Eftir leikinn er KA í 9. sæti með 23 stig en BÍ/Bolungarvík í því fjórða með 33 stig.

BÍ/Bolungarvík 4 - 2 KA 

1-0 Theodore Furness ('55)

1-1 Ivan Dragicevic ('59) Stoðsending: Brian Gilmour.

1-2 Bjarki Baldvinsson ('64) Stoðsending: Brian Gilmour.

2-2 Dennis Rasmussen ('67)

3-2 Theodore Furness ('77)

4-2 Ben Everson ('85)

Lið KA í dag: Sandor Matus, Ómar Friðriksson, Atli Sveinn Þórarinsson, Ivan Dragicevic, Darren Lough, Gunnar Valur Gunnarsson (Andrés 86.mín), Brian Gilmour, (Davíð Rúnar 82.mín) Orri Gústafsson (Jakob 71.mín), Ævar Ingi Jóhannesson, Bjarki Baldvinsson og Gunnar Örvar Stefánsson.

Bekkur: Fannar Hafsteinsson, Andrés Vilhjámsson,  Davíð Rúnar Bjarnason, Jón Heiðar Magnússon og Jakob Hafsteinsson.

Bjarni Jóhannsson gerði tvær breytingar á liðinu frá tapinu gegn Haukum í síðustu umferð. Inn í liðið komu Gunnar Valur og Gunnar Örvar í staðinn fyrir Davíð Rúnar og Carsten sem var ekki með í dag vegna meiðsla.

Fyrri hálfleikur leiksins fer seint í sögubækurnar fyrir skemmtanagildi. Liðini skiptust á að sækja og var mikið jafnræði allann hálfleikinn og var lítið sem ekkert um marktækifæri. Djúpmenn voru þó ívið hættulegri og áttu þeir besta færi fyrri hálfleiksins þegar að Ben Everson fékk boltann í teignum og snéri baki í markið og náði að snúa sér að markinu og ná hörkuskoti að marki sem fór rétt framhjá.

Eins leiðinlegur á fyrri hálfleikurinn var þá var sá síðari mikil skemmtun og leikurinn mjög opinn. Djúpmenn byrjuðu síðari hálfleikinn af krafti og var það Theodore Furness sem átti góðan sprett upp völlinn á 55.mínútu sem lauk með þvi að hann skaut föstu skoti að marki þegar að hann kom inn í teig og skoraði framhjá Sandor. Góð skyndisókn hjá heimamönnum sem beittu þó nokkrum slíkum í þessum leik og reyndust þeim vel. 

Eftir að Djúpmenn komust yfir vöknuðu okkar menn heldur betur til lífsins. Stuttu eftir markið átti Bjarki góða sendingu fyrir markið þar sem Ævar kom á fjærstöngina og skaut að marki en Alejandro Munoz í marki BÍ/Bolungarvíkur varði í horn. Hornspyrnuna tók Brian Gilmour. Spyrnan var mjög góð og datt boltinn fyrir fætur Ivan Dragicevic inn í markteig og kom hann boltanum í netið af harðfylgni og jafnaði metin fyrir KA.

Jöfnunarmarkið gaf KA liðinu aukið sjálfstraust og tók KA öll völd á vellinum. Rúmum tíu mínútum eftir jöfnunarmarkið fékk Brian boltann rétt fyrir utan teig og gerði sig líklegan til að skjóta að marki en ákvað þess í stað að senda boltann á fjærstöngina þar sem Bjarki Baldvins kom askvaðandi og renndi sér í boltann og skoraði sitt annað mark í síðustu tveimur leikjum. Góð sending frá Brian og góð afgreiðsla hjá Bjarka og KA skyndilega komnir yfir.

Það tók heimamenn hinsvegar ekki langan tíma að jafna. Aðeins þremur mínútum eftir að Bjarki kom KA yfir skoraði varnarmaðurinn Dennis Rassmussen fyrir Djúpmenn eftir að Sandor hafði mistekist að slá boltann frá markinu eftir hornspyrnu heimamanna. Dennis var fljótur að átta sig þegar að boltinn lenti fyrir framan fætur hans í markteignum og staðan því jöfn en á ný.

Síðustu tuttugu mínútur leiksins voru síðan algjör eign heimamanna í BÍ/Bolungarvík. Á 77. mínútu tapaði Brian boltanum á framarlega á vellinum þegar að KA voru í skyndisókn og Theodore Furness geystist upp vinstri kantinn og KA fáliðaðir til baka og það nýtti Furness sér lék á einn varnarmann og klíndi svo boltanum upp í hægra hornið óverjandi fyrir Sandor og Djúpmenn því komnir yfir á ný.

Það var svo á 85. mínútu sem Ben Everson innsiglaði sigur Djúpmanna en þá komst hann inn í sendingu frá Davíð Rúnari á miðjum vellinum slapp einn í gegn og lék framhjá Sandor og lagði boltann í tómt markið. Afar klaufalegt mark og eftir þetta fjaraði leikurinn út og heimamenn tryggðu sér stigin þrjú og eru í dauðafæri að komast upp um deild á meðan KA liðið er í slæmum málum í 9. sæti deildarinnar með 23 stig.

KA-maður leiksins: Ivan Dragicevic ( Átti góðan leik í dag. Var fastur fyrir í vörninni eins og vanalega og skoraði auk þess mark)

Næsti leikur er á fimmtudaginn næsta á heimavelli gegn Tindastól og hefst sá leikur klukkan 18.00.