KA sigraði Fylki í dag örugglega 4 - 0 í Lengjubikarnum í dag.
KA 4 - 0 Fylkir
1-0 Ævar Ingi Jóhannesson ('2) Stoðsending: Grímsi
2-0 Hallgrímur Mar Steingrímsson ('4) (Vítaspyrna) Stoðsending: Ævar
3-0 Hallgrímur Mar Steingrímsson ('34) Stoðsending: Hrannar
4-0 Hrannar Björn Steingrímson ('72)
Leikurinn hófst heldur betur fjörlega en eftir einungis tveggja mínútna leik átti Hrannar mjög góða sendingu inn fyrir á bróður sinn Hallgrím sem renndi boltanum á Ævar Inga sem skoraði í tómt markið.
Aðeins mínútu síðar komust KA í eina af sínum mörgu hættulegu skyndisóknum í leiknum og var það Ævar sem slapp einn í gegn og var felldur niður af varnarmanni Fylkis og vítaspyrna réttilega dæmd. Hallgrímur Mar steig á punktinn og var öryggið uppmála og sendi markvörðinn í vitlaust horn. Staðan því 2-0 fyrir KA eftir aðeins fjögra mínútna leik.
Á 34. mínútu áttu Fylkismenn hornspyrnu sem KA náði bægja frá marki og barst boltinn til Hrannars sem gaf á Hallgrím sem tók langan sprett upp völlinn og gaf síðan aftur Hrannar sem lék boltanum aftur til Hallgríms sem skaut föstu skoti frá teigslínu sem markvörðu Fylkis varði inn. Hreint út sagt frábært spil hjá þeim bræðrum sem áttu þetta mark frá A-Ö. Staðan því 3-0 KA í vil í hálfleik.
Fylkismenn hófu síðari hálfleikinn af miklum krafti og sóttu stíft að marki KA en án árangurs. KA-menn voru gríðarlega hættulegir í skyndisóknum sínum og hefðu hæglega getað bætt við forystuna. Það var síðan á 72. mínútu sem Hallgrímur tók aukaspyrnu á miðjum velli og varnarmenn Fylkis skölluðu boltann út fyrir teig en beint á Hrannar Björn sem tók boltann lystilega á lofti og hitti hann frábærlega og endaði boltinn í bláhorninu. Frábært mark hjá Hrannari sem innsiglaði glæsilegan 4-0 sigur KA sem voru með mikla yfirburði í leiknum í dag og léku á alls oddi.
Næst á dagskrá hjá liðinu er æfingarferð til Spánar sem liðið fer í næstu viku.