30 ár frá fyrsta sigri KA á N1-mótinu

N1-mót KA hefst á þriðjudaginn og er mótið í ár það 32. í röðinni en fyrsta mótið var haldið árið 1987. Mótið er í dag orðið gríðarlega stórt og taka þátt alls 188 lið í ár og eru leiknir samtals 840 leikir frá miðvikudegi til laugardags. Mótið hefur stækkað frá ári til árs og er eitt af aðalsmerkjum félagsins.

Nú í ár eru 30 ár liðin frá fyrsta sigri KA á mótinu en það árið tóku 20 lið þátt og komu þau víðsvegar að frá landinu. Keppt var í A og B liða keppni, mótið stóð yfir í 3 daga og var ávallt leikið á tveimur völlum samtímis.

Á myndinni hér fyrir ofan má sjá sigurlið KA en strákarnir eru eftirfarandi:
Efri röð vinstri: Gauti Laxdal þjálfari, Heimir Haraldsson, Gauti Reynisson og Matthías Stefánsson.
Neðri frá vinstri: Óli Björn Ólafsson, Orri Einarsson, Sigurður Bjarni Jónsson, Bjarni Bjarnason, Óskar Bragason og Ragnar Þorgrímsson.

KA fór í úrslitariðil í A liðakeppninni og mætti þar Þór, Stjörnunni og Aftureldingu. KA liðið vann 2-1 sigur á Þór og svo 7-0 stórsigur á Aftureldingu. Í lokaleiknum mætti liðið Stjörnunni og dugði jafntefli til að tryggja sigur á mótinu. Garðbæingar komust yfir snemma leiks en KA strákarnir jöfnuðu fyrir hálfleik. Það gekk svo á ýmsu í þeim síðari en strákarnir héldu út og tryggðu sér sigur á mótinu.

Að móti loknu var Matthías Stefánsson fyrirliði KA liðsins gripinn í viðtal, "Ég átti ekki von á að við myndum vinna þetta mót og því kom sigurinn skemmtilega á óvart og ég er ánægður"