Sannfærandi sigur á Þrótturum

Fannar stóð í markinu í dag
Fannar stóð í markinu í dag

Í dag mættust KA og Þróttur R. í 21. umferð 1. deildar karla. Leiknum lauk með sannfærandi 3-1 sigri okkar manna þar sem Ævar Ingi Jóhannesson, Atli Sveinn Þórarinsson og Hallgrímur Mar Steingrímsson skoruðu mörk KA. Eftir leikinn er KA í 6. sæti 32 stig þegar að það er ein umferð eftir.

KA 3 - 1 Þróttur R.

1-0 Ævar Ingi Jóhannesson ('11) Stoðsending: Darren Lough

1-1 Andri Björn Sigurðsson ('48)

2-1 Atli Sveinn Þórarinsson ('66) Stoðsending: Hallgrímur Mar Steingrímsson

3-1 Hallgrímur Mar Steingrímsson ('91) Stoðsending: Carsten Pedersen

Lið KA í dag: Fannar Hafsteinsson, Ómar Friðriksson, Atli Sveinn Þórarinsson, Ivan Dragicevic, Darren Lough, Gunnar Valur Gunnarsson (Davíð Rúnar 57.mín), Brian Gilmour, Ævar Ingi Jóhannesson (Gunnar Örvar 91.mín), Hallgrímur Mar Steingrímsson, Bjarki Baldvinsson (Orri 80.mín) og Carsten Pedersen.

Bekkur: Sandor Matus, Orri Gústafsson, Bessi Víðisson, Davíð Rúnar Bjarnason, Jón Heiðar Magnússon, Gunnar Örvar Stefánsson og Jakob Hafsteinsson.

Tvær breytingar voru gerðar á KA liðinu frá síðasta leik. Inn í liðið komu Fannar Hafsteinsson í markið í sínum fyrsta leik fyrir KA í sumar og Hallgrímur Mar. Á bekkinn komu Sandor Matus og Gunnar Örvar. Fyrir leikinn voru Þróttarar en í fallhættu en úrslit annarra leikja urðu þeim hagstæð svo þessi leikur var jafn þýðingarlítill fyrir bæði lið og einungis spilað upp á stoltið.

Leikurinn hófst fjörlega og strax 7. mínútu fengu okkar menn hornspyrnu sem Brian Gilmour tók og endaði boltinn hjá Ivan Dragicevic sem náði að koma skoti að marki en varnarmaður Þróttara náði að komast fyrir boltann á línunni og bjarga marki. Stálheppnir Þróttarar að lenda ekki undir en pressunni frá KA átti ekki eftir linna.

Nokkrum mínútum síðar kom löng sending upp í horn á Darren og svo virtist sem boltinn væri á leið út af en Darren náði að koma háum bolta fyrir á Ævar Ingi sem var einn og óvaldur inn í vítateig gestanna og skallaði boltann að marki og Trausti Sigurbjörnsson markvörður Þróttara lenti í vandræðum með að verja boltann og inn fyrir línuna fór boltinn og KA því komnir yfir verðskuldað eftir að 11 mínútna leik. Ævar Ingi kominn með fjögur mörk í síðustu leikjum og hreinlega óstöðvandi upp á síðkastið.

Eftir markið jókst sóknarþungi KA en meira án þess þó að skila sér í miklum færum. Á 30. mínútu kom Vilhjálmur Pálmasson leikmaður Þróttar á fleygiferð upp kantinn og hafnaði fyrirgjöf hans ofan á markslánni. Þetta var í raun eina hættulega færi Þróttara í fyrri hálfleik. Tíu mínútum síðar átti Hallgrímur Mar ágætis tilraun þegar að boltinn barst til hans rétt fyrir utan teig og hann tók boltann á lofti og náði hörkuskoti rétt yfir markið. Eftir þetta fjaraði fyrri hálfleikurinn út.

Gestirnir í Þrótti byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og eftir aðeins þriggja mínútna leik nýttu Þróttarar sér mistök KA á miðjum vellinum og Andri Björn Sigurðsson fékk sendingu inn fyrir vörnina og var einn á móti Fannari og kláraði færið einkar vel og jafnaði leikinn fyrir gestina.

Svo virtist sem jöfnunarmarkið hafi slegið okkar menn eilítið út af laginu. En á 66.mínútu átti Hallgrímur góðan sprett upp vinstri vænginn og var að lokum feldur af varnarmanni Þróttara rétt við vítateigshornið. Hallgrímur tók sjálfur spyrnuna og rataði hún beint á kollinn á Atla Svein sem var aleinn inn í vítateig Þróttara og skallaði boltann framhjá markverði Þróttara og kom KA yfir á ný.

Líkt og í fyrr hálfleik virkaði mark frá KA sem vítamínsprauta á liðið og í kjölfarið fylgdu tvö dauðafæri. Fyrst fékk Ómar sendingu inn fyrir frá Grímsa en skaut föstu skoti með jörðinni hárfínt framhjá markinu. Stuttu seinna kom önnu frábær sending frá Hallgrími inn fyrir á Carsten sem var kominn einn í gegn en fór illa með gott færi og skaut framhjá. Nokkrum mínútum síðar slapp Arnþór Ari Atlasson einn í gegn en Fannar varði frábærlega og bjargaði því að gestirnir jöfnuðu metin.

Það var svo á 91. mínútu sem Hallgrímur fékk sendingu inn fyrir vörn Þróttara og var kominn við endalínuna og lék boltanum inn að miðju og gaf boltann á Carsten sem gaf aftur á Hallgrím sem var þá kominn í ákjósanlega stöðu inn í vítateignum og þrumaði boltanum á nærstöngina og framhjá Trausta í marki Þóttar og innsiglaði sigur KA.

KA er því í 6.sæti deildarinnar með 32 stig fyrir lokaumferðina sem leikinn verður á laugardaginn næsta. Á síðasta keppnistímabili lauk KA keppni með 33 stig og því tækifæri í leiknum í Grindavík að bæta þann stigafjölda og gera betur en í fyrra.

KA-maður leiksins: Atli Sveinn Þórarinsson ( Var ótrúlega öflugur í vörninni í dag og tapaði ekki skallabolta. Auk þess að skora gott skallamark á mikilvægum tímapunkti) Einnig var Hallgrímur Mar frábær í leiknum og gerði tilkall til manns leiksins ásamt því að Ævar Ingi átti mjög góðan leik.

Næsti leikur KA og jafnframt síðasti leikur tímabilsins er laugardaginn 21. september gegn Grindvíkingum á útivelli. Leikurinn hefst kl. 14.00.