Flýtilyklar
Útileikur gegn Keflavík í bikarnum
Dregið var í 16-liða úrslit Mjólkurbikars karla í dag og var KA í pottinum eftir dramatískan 1-2 útisigur á Stjörnunni á dögunum. Aftur varð niðurstaðan útileikur og aftur gegn andstæðing úr efstu deild en að þessu sinni sækja strákarnir Keflvíkinga heim.
Leikur liðanna fer fram 11. eða 12. ágúst næstkomandi og ljóst að um hörkuleik verður að ræða. Þetta er fyrsti bikarslagur KA og Keflavíkur frá því að liðin mættust í úrslitaleik keppninnar sumarið 2004. KA liðið náði sér ekki á strik í úrslitaleiknum sem tapaðist 0-3.
Liðin hafa mæst alls fjórum sinnum í bikarnum en sumarið 2001 vann KA góðan 2-1 sigur á Akureyri með mörkum frá þeim Elmari Dan Sigþórssyni og Þorvaldi Makan Sigbjörnssyni. KA fór alla leið í úrslitaleik keppninnar það sumarið og sló einnig út B-lið Keflavíkur í leið sinni í úrslitin.