Flýtilyklar
Upplýsingar fyrir fyrsta leik sumarsins
Fyrsti leikur sumarsins hjá KA er á sunnudaginn er strákarnir sækja ÍA heim upp á Skipaskaga. Það má með sanni segja að mikil spenna sé í loftinu og vitum við af ansi mörgum stuðningsmönnum KA sem ætla að gera sér ferð á leikinn og styðja strákana til sigurs.
Stuðningsmenn KA verða í hólfum 1 og 2 í stúkunni á Akranesvelli en hólf 1 er fyrir þá sem vilja halda tveggja metra reglunni. Alls er pláss fyrir 400 fullorðna einstaklinga í þessum hólfum.
Brotna línan rauða sýnir aðkomuleiðina í stúkuna í KA hólfin fyrir stuðningsfólk félagsins.
Stuðningsfólk KA sem notar Stubb miðasöluappið til að kaupa miða fer beint í KA-hólfin í stúkunni og fylgir rauðu línunni skv. skýringarmynd. Rétt að hvetja fólk til að nota Stubb appið.
Þeir stuðningsmenn KA sem ætla að kaupa miða á staðnum þurfa fyrst að fara í miðasöluna sem er merkt M á skýringarmyndinni hér að ofan. Stuðningsmenn KA sem kaupa þar miða fara ekki inn í gegnum aðalinnganginn heldur ganga þeir hinumegin við íþróttahúsið og fylgja rauðu línunni í hólf KA í stúkunni.