Ungmennalið Akureyrar með heimaleik á sunnudag

Almennt

Þó að keppni í Olís deild karla sé í dvala í janúar þá er ekki þar með sagt að enginn handbolti sé spilaður í bænum. Ungmennalið Akureyrar stendur í ströngu og leikur fjóra leiki í 1. deild karla í mánuðinum. Fyrsti leikurinn er núna á sunnudaginn (8. janúar) klukkan 13:30 í Íþróttahöllinni en þá taka strákarnir á móti Ungmennaliði Stjörnunnar.

Liðin eru á svipuðum stað í deildinni, Stjörnuliðið er með níu stig eftir tólf leiki en Akureyrarliðið með átta stig eftir ellefu leiki. Þannig að með sigri Akureyrarliðsins myndu liðin hafa sætaskipti í deildinni.

Við hvetjum alla áhugamenn um handboltann til að fjölmenna í Íþróttahöllina á sunnudaginn og styðja strákana okkar í baráttunni en þeir hafa sýnt frábæra frammistöðu í deildinni.

Alls eru fjögur ungmennalið í deildinni, auk Akureyrar eru Valur, Stjarnan og ÍBV með slík lið. Af þeim hefur Akureyrarliðið einungis mætt Val, raunar tvívegis og vann báða leikina. Það er því sérstaklega forvitnilegt að sjá hvernig þessi leikur innbyrðis ungmennaleikur fer.

Strákarnir eiga svo útileiki næstu tvær helgar. Um næstu helgi heldur Ungmennalið Akureyrar suður og spilar þá tvo leiki gegn Ungmennaliði ÍBV. Liðin komust að samkomulagi um að mætast „miðsvæðis“ og spila báða innbyrðisleikina þar.

Um þar næstu helgi fara strákarnir aftur suður og spila þá útileik gegn Þrótti.

Það væri frábært að skella sér í Íþróttahöllina á sunnudaginn!
Leikmenn og stjórn Akureyrar Handboltafélags.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband