Tilnefningar til Böggubikars stúlkna 2024

Almennt | Fótbolti | Handbolti | Júdó | Blak | Lyftingar

Böggubikarinn verður afhendur í ellefta skiptið í ár en hann er veittur bæði dreng og stúlku sem þykja efnileg í sinni grein en eru ekki síður sterk félagslega. Böggubikarinn verður afhentur á 97 ára afmælishátíð KA sunnudaginn 12. janúar klukkan 17:00.

Böggubikarinn er farandbikar sem veittur er einstaklingum, pilti og stúlku, á aldrinum 16-19 ára sem þykja efnileg í sinni grein en ekki síður mjög sterk félagslega. Einstaklingum sem eru til fyrirmyndar á æfingum og í keppnum og eru bæði jákvæð og hvetjandi. Böggubikarinn er veittur í minningu Sigurbjargar Níelsdóttur, Böggu, sem fædd var þann 16. júlí 1958 og lést þann 25. september 2011. Bróðir Böggu, Gunnar Níelsson, er verndari verðlaunanna en þau voru fyrst afhend árið 2015 á 87 ára afmæli KA.

Að þessu sinni eru fimm fyrirmyndar stúlkur tilnefndar af deildum KA til Böggubikarsins fyrir árið 2024.

Aníta Rún Bech Kajudóttir stimplaði sig rækilega inn sem öflug kraflyftingakona á árinu, bæði í kraftlyftingum í búnaði og án búnaðar og þrátt fyrir að vera aðeins 19 ára þá hefur hún keppti í flokki fullorðna á árinu með góðum árangri.

Í maí keppti hún á sínu fyrsta móti á íslandsmeistaramóti unglinga og sigraði hún þar -63kg flokk með því að lyfta 240kg í samanlögðu. Í ágúst keppti hún í bikarmótinu í búnaði í fullorðins flokki og varð þar bikarmeistari í -63kg flokki þar sem hún lyfti 322.5kg í samanlögðu.

Að lokum keppti hún á íslandsmeistara móti fullorðinna í klassískum kraftlyftingum og varð þar íslandsmeistari í sínum flokk með 255kg í samanlögðu. Aníta er gríðarlega dugleg og vinnusöm á æfingum og hefur alla burði til að verða ein fremsta kraftlyftingakona landsins ef hún heldur áfram eins hún hefur gert

Auður hefur bætir stöðugt getu sína sem leikmaður og sýnir leiðtogahæfileika jafnt innan vallar sem utan með einstakri ástundun, ábyrgð og aga. Hún spilar stöðu miðju og hefur þrátt fyrir ungan aldur komið gríðarlega sterkt inn í meistaraflokkslið KA sem eins og margir vita varð Íslands- og Deildarmeistari auk þess að vinna Meistari meistaranna eftir magnaða síðustu leiktíð.

Hún var valin efnilegasti leikmaðurinn í úrvalsdeildinni eftir síðasta tímabil. Þá var Auður valin í U17 og U19 landsliðin og stóð sig gífurlega vel með þeim liðum á NEVZA mótunum síðastliðið haust en hún var að auki fyrirliði U17 liðsins. Auður var einnig í landsliði yngri leikmanna í strandblaki sem tók þátt í NEVZA móti í sumar. Auður er yngri iðkendum félagsins góð fyrirmynd og verður gaman að fylgjast með henni í framtíðinni.

Bergrós Ásta er gríðarlega efnilegur leikstjórnandi, tekur mikið til sín í leikjum, er gríðarlega sterk maður á móti manni og hefur gott auga fyrir línusendingum. Með dugnaði og vinnusemi þá hefur hún tekið gríðarlega miklum framförum.

Þrátt fyrir ungan aldur er hún nú þegar orðin ein af máttarstólpum í meistaraflokksliði KA/Þórs. Hún var einnig hluti af U-18 landsliðinu sem gerði góða hluti á HM í Kína í sumar. Bergrós er einstaklega metnaðarfull og ábyrgur einstaklingur utan vallar einnig. Hún gefur mikið af sér til liðsins og félagsins og er alltaf tilbúin að aðstoða félagið sitt.

Bríet hefur bætt sig mikið undanfarin ár og hefur mikil vinna hennar, einbeiting og metnaður spilað þar stórt hlutverk. Hún er eldsnögg, sterk og hæfileikarík sem hefur hjálpað henni mikið í að komast þangað sem hún stefnir. Verðskuldað val í landslið leikmanna 19 ára og yngri er enn ein varðan á leið hennar að settu marki.

Bríet spilar sífellt stærra hlutverk í liði Þórs/KA og hefur verið að auka fjölbreytni sína sem leikmaður og leysir nú fleiri en eina stöðu í liðinu. Bríet hefur gott hugarfar, er góður persónuleiki og mikilvægur stuðningur fyrir liðsfélagana bæði innan vallar sem utan.

Kristjana Ómarsdóttir varð á árinu Evrópumeistari í hópfimleikum blandað lið unglinga 2024, keppnin fór fram í Baku Aserbaísjaní október síðastliðnum. Kristjana hefur æft fimleika frá 3 ára aldri og þrátt fyrir ungan aldur 15 , (16 ára nú í janúar) hefur hún keppt “uppfyrir” sig síðastliðinn ár með Fimak (nú Fimleikadeild KA).

Haustið 2023 gat deildin ekki haldið úti meistarflokki vegna þjálfarleysis en Kristjana hélt áfram æfingum með jafnöldrum sínum. Hún var þá byrjuð að mæta á hæfileikamótunaræfingar og úrvalsæfingar fyrir sunnan. Síðastliðið sumar var hún valin í landslið unglinga til að taka þátt í Evrópumótinu.

Krístjana “flutti” tímabundið suður til að geta mætt á landsliðsæfingar og stundaði nám sitt við Síðuskóla í fjarnámi. Kristjana er ekki bara frábær íþróttakona og fyrirmynd yngri iðkenda. Hún vill standa sig vel í öllu sem hún tekur sér fyrir hendur. Hörku námsmaður og sinnir félagslífi skólans af eins miklum krafti og henni er unnt


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband