Flýtilyklar
Þór/KA Íslandsmeistari sumarið 2017
Þór/KA varð Íslandsmeistari í knattspyrnu kvenna sumarið 2017 og var það í annað skiptið sem liðið hampaði þeim stóra. Það má með sanni segja að sigur liðsins hafi komið mörgum á óvart en þegar spáð var í spilin fyrir sumarið virtust flestir reikna með hörkukeppni Vals, Breiðabliks og Stjörnunnar um Íslandsmeistaratitilinn.
En nýráðinn þjálfari liðsins, Halldór Jón Sigurðsson (Donni), var staðráðinn frá fyrsta degi að sækja Íslandsmeistaratitilinn og fékk stelpurnar með sér í þá trú. Úr varð geysilega öflug liðsheild og 3-4-3 leikaðferð liðsins svínvirkaði þegar alvara sumarsins hófst. Liðið varð þó fyrir miklu áfalli þegar fyrirliðinn Sandra María Jessen sleit krossband öðru sinni í landsliðsverkefni í mars.
Markasyrpa er Þór/KA tryggði sér sinn annan Íslandsmeistaratitil
Opnunarleikur deildarinnar var heimaleikur gegn Val í lok apríl og var þetta í fyrsta sinn sem leikur á Íslandsmóti fór fram svo snemma og var leikið í Boganum. Sandra Mayor skoraði strax á níundu mínútu eftir góða sendingu innfyrir vörn Vals frá Biöncu Sierra. Eftir þunga pressu gestanna tókst stelpunum að landa 1-0 sigri og frábær byrjun á sumrinu staðreynd.
Aftur var leikið í Boganum og aftur var um stórlið að ræða, nú var það Breiðablik sem mætti norður. Aftur skoraði liðið snemma en í þetta skiptið var það Hulda Ósk Jónsdóttir sem kom boltanum yfir marklínuna eftir að Sandra Mayor hafði leikið vörn Blika grátt og rennt boltanum innað marki. Leikurinn var opinn og mörg færi á báða bóga en fleiri urðu mörkin ekki og annar sætur 1-0 sigur staðreynd.
Þessi byrjun á sumrinu vakti mikla athygli og strax fór pressan á liðinu að byggjast upp. En stelpurnar héldu áfram sigurgöngu sinni og unnu Fylki 1-4 í Árbænum. Margrét Árnadóttir gerði fyrsta markið áður en Fylkiskonur jöfnuðu metin. Andrea Mist Pálsdóttir og Hulda Björg Hannesdóttir skoruðu hinsvegar skömmu fyrir hlé og loks var það Hulda Ósk Jónsdóttir sem innsiglaði sigurinn með marki í upphafi síðari hálfleiks.
Donni gerði liðið að Íslandsmeisturum á sínu fyrsta tímabili. Smelltu á myndina til að skoða fleiri myndir Sævars Geirs frá sigurathöfninni
Stelpurnar voru nú einar á toppi deildarinnar og héldu áfram sigurhrinu sinni með 2-0 sigri á botnliði Hauka. Liðið þurfti að hafa mikið fyrir sigrinum en Hulda Björg Hannesdóttir braut loks ísinn um miðjan síðari hálfleik eftir sendingu frá Andreu Mist Pálsdóttur og að lokum krækti Sandra Mayor í vítaspyrnu sem hún skoraði sjálf úr. Þá vakti athygli að Sandra María Jessen kom inná sem varamaður og hafði hún sýnt gífurlegan karakter í endurhæfingu sinni og tilbúin í slaginn mun fyrr en áætlað var.
Aftur þurfti liðið að hafa mikið fyrir því að vinna lið í neðri hlutanum, nú vannst 0-2 sigur á KR í Vesturbænum. Eftir þunga pressu náði Anna Rakel Pétursdóttir að brjóta ísinn eftir hornspyrnu á 72. mínútu og Sandra Mayor innsiglaði sigurinn eftir sendingu frá Söndru Maríu Jessen. Sjötti sigurinn leit dagsins ljós á heimavelli gegn ÍBV í hörkuleik. Hulda Ósk Jónsdóttir kom Þór/KA yfir en gestirnir jöfnuðu fyrir hlé. Sandra Mayor skoraði loks á 81. mínútu áður en Sandra María kláraði dæmið með þriðja markinu.
Þá var komið að leiknum sem allir höfðu beðið eftir. Uppgjör toppliðanna er stelpurnar sóttu Íslandsmeistara Stjörnunnar heim. Stjarnan var tveimur stigum á eftir í öðru sæti og gat því með sigri hrifsað toppsætið. Ekki var byrjunin gæfurík því Agla María Albertsdóttir kom Garðbæingum yfir á 3. mínútu en mörk frá Söndru Mayor og Nataliu Gómez sáu til þess að staðan var 1-2 í hléinu. Hulda Ósk Jónsdóttir gerði þriðja markið eftir sláarskot frá Nataliu og Þór/KA þar með komið með fimm stiga forskot á toppnum.
Ekki duttu stelpurnar í lukkupottin þegar dregið var í bikarkeppninni en þær fengu útileik gegn Breiðablik. En áfram hélt sigurganga liðsins því Sandra Mayor skoraði tvívegis í fyrri hálfleik og staðan því 0-2. Blikar minnkuðu muninn í upphafi síðari hálfleiks en Sandra Mayor innsiglaði þrennu sína er tæpar tuttugu mínútur lifðu leiks og stelpurnar fóru því áfram í bikarnum og öflugt lið Blika úr leik.
Næst var komið að stórsigri á liði Grindavíkur þar sem Sandra María Jessen skoraði þrennu auk þess að leggja upp mark fyrir nöfnu sína Mayor. Hulda Björg Hannesdóttir lagði upp tvö mörk en gestirnir gerðu sjálfsmark undir lok leiksins. Með sigrinum fór forskot liðsins upp í sex stig á toppnum.
Karen María var hetjan í Kaplakrika
En liðið lenti í miklum vandræðum með að innbyrða níunda sigurinn þegar lið FH var sótt heim. Allt stefndi í markalaust jafntefli í Kaplakrika en á 89. mínútu skoraði hin 15 ára gamla Karen María Sigurgeirsdóttir sigurmarkið með skalla eftir fyrirgjöf Huldu Bjargar en Karen hafði komið inná sem varamaður. Þór/KA náði því hinu magnaða afreki að vinna alla leiki sína í fyrri hluta deildarinnar.
Aftur fengu stelpurnar erfiðan útileik í bikarnum og í þetta skiptið sóttu þær Stjörnuna heim. Kristrún Kristjánsdóttir kom Garðbæingum yfir strax á þriðju mínútu en Söndrurnar þær Mayor og María Jessen svöruðu og leiddi því Þór/KA 1-2 í hléinu. En Stjörnuliðið jafnaði í upphafi síðari hálfleiks með marki Öglu Maríu Albertsdóttur og eftir mikla dramatík var það Harpa Þorsteinsdóttir sem sá til þess að bikardraumar okkar urðu að engu með marki á 85. mínútu.
Valur varð hinsvegar fyrsta liðið til að ná stigum af stelpunum í deildinni er liðin skildu jöfn á Hlíðarenda, 1-1. Valskonur sóttu meira en skyndisóknir Þórs/KA voru hættulegar og úr einni slíkri skoraði Sandra Mayor á 21. mínútu er hún lyfti boltanum yfir Söndru Sigurðardóttur í markinu og boltinn fór í stöng og inn. En Vesna Elísa Smiljkovic jafnaði metin um miðbik síðari hálfleiks og þar við sat.
Í millitíðinni minnkaði Breiðablik forskotið á toppnum niður í fjögur stig og því var mikið undir er liðin mættust á Kópavogsvelli í 11. umferð deildarinnar. Blikar hófu leikinn af krafti og höfðu verið ágengari þegar Sandra Mayor slapp í gegnum vörn þeirra eftir sendingu frá Huldu Ósk Jónsdóttur og kom Þór/KA yfir seint í fyrri hálfleik. Rakel Hönnudóttir jafnaði snemma í síðari hálfleik með skalla eftir hornspyrnu. Skömmu fyrir leikslok skaut Fanndís Friðriksdóttir í stöngina á marki Þórs/KA en rétt á eftir fékk okkar lið aukaspyrnu og úr henni skoraði Sandra Mayor sigurmarkið með fallegu skoti í stöng og inn.
Mexíkóarnir þrír fóru mikinn í leik liðsins
Stelpurnar voru því aftur komnar með sex stiga forskot á toppnum og voru sjö stigum á undan Breiðablik í þriðja sætinu. En óvænt úrslit urðu í næsta leik en lið Fylkis mætti norður með fjóra nýja leikmenn og Hermann Hreiðarsson sem nýjan þjálfara. Sandra Mayor skoraði á 42. mínútu úr vítaspyrnu en tvö mörk fyrir hlé sáu til þess að Fylkir leiddi 1-2. Í upphafi síðari hálfleiks var staðan orðin 1-3 og útlitið heldur svart því þannig hélst staðan uns fimm mínútur lifðu leiks. Þá minnkaði Sandra María Jessen muninn og Sandra Mayor forðaði liðinu frá fyrsta ósigrinum með jöfnunarmarki á lokamínútunni.
Forskotið á toppnum fór upp í átta stig eftir að liðið vann 1-4 sigur á Haukum á Ásvöllum í 13. umferð. Haukar komust yfir en Bianca Sierra jafnaði fyrir hlé áður en Sandra Mayor gerði þrennu í þeim síðari sem tryggði öll stigin. Liðið tók svo stórt skref í næsta leik með sannfærandi 3-0 sigri á KR. Liðið hafði yfirburði lengst af en Sandra Mayor skoraði snemma leiks og þær Hulda Ósk Jónsdóttir og Bianca Sierra bættu við skallamörkum í síðari hálfleiknum eftir fyrirgjafir Önnu Rakelar Pétursdóttur og Huldu Bjargar Hannesdóttur.
Fjórar umferðir eftir og staðan ansi góð en þá kom fyrsta tapið og það þrátt fyrir að Þór/KA hefði leitt 0-2 í hálfleik í Vestmannaeyjum. Forystan var verðskulduð með mörkum frá Söndru Mayor og Huldu Ósk Jónsdóttur en allt annað var uppi á teningunum í þeim síðari. Cloé Lacasse lagði upp mark fyrir Kristínu Ernu Sigurlásdóttur á fyrstu mínútu seinni hálfleiks og jafnaði síðan sjálf kortéri síðar. Aðeins tveimur mínútum síðar gerðu stelpurnar sjálfsmark og þar við sat. 3-2 tap gegn ÍBV og forskotið fór niður í fimm stig.
Framundan var erfiður leikur gegn Íslandsmeisturum Stjörnunnar fyrir norðan. Stjarnan var heldur sterkari í fyrri hálfleik en Þór/KA nýtti færin. Sandra María Jessen skoraði snemma eftir sendingu frá Söndru Mayor sem bætti sjálf við marki fyrir hlé með skoti frá vítateig eftir aukaspyrnu. Gestirnir sóttu af krafti framan af seinni hálfleik en stelpurnar stóðust pressuna og innsigluðu sigurinn rétt fyrir leikslok þegar Hulda Ósk Jónsdóttir skoraði með stórglæsilegu skoti.
Anna Rakel Pétursdóttir lagði upp 7 mörk í deildinni
Tvær umferðir eftir og stelpurnar með pálmann í höndunum. En Grindavík kom gríðarlega á óvart með því að vinna leik liðanna 3-2 í roki og rigningu á Grindavíkurvelli og kom í veg fyrir að Þór/KA fagnaði Íslandsmeistaratitlinum í leikslok. Grindvíkingar komust yfir þrívegis en Sandra María Jessen og Sandra Mayor jöfnuðu tvívegis fyrir okkar lið. Á sama tíma vann Breiðablik sigur á Stjörnunni og forskotið á toppnum því aðeins tvö stig fyrir lokaumferðina.
Það var því heldur betur spenna í loftinu í lokaumferðinni því það var ljóst að okkar lið þyrfti á sigri að halda á heimavelli gegn FH til að hampa titlinum. Breiðablik var með betri markatölu og myndi því hrifsa titilinn af stelpunum ef þær myndu misstíga sig. Um 1.400 manns lögðu leið sína á völlinn og sýndu okkar liði frábæran stuðning í leiknum mikilvæga.
Leikurinn var hinn mesti barningur, FH spilaði sterkan varnarleik og skapaði sér því lítið af marktækifærum. Er komið var framyfir 70. mínútu var staðan enn markalaus og því útlit fyrir að Breiðablik myndi stela titlinum. En á 74. mínútu sendi Anna Rakel Pétursdóttir boltann fyrir markið og Sandra María Jessen náði að teygja sig í boltann og senda hann í hægra hornið, 1-0. Gríðarleg fagnaðarlæti brutust út og aðeins fjórum mínútum síðar skoraði Sandra Mayor laglegt mark þar sem hún lék eins síns liðs framhjá vörn FH og afgreiddi leikinn.
Íslandsmeistarar árið 2017!
Þar með var meistaratitillinn í höfn og fögnuðurinn í stúkunni magnþrunginn. Íslandsbikarinn fór því á loft og Þór/KA Íslandsmeistari öðru sinni í sögunni. Styrkur liðsins í leikjunum við hin toppliðin lék þar lykilhlutverk en stelpurnar fengu 16 stig af 18 mögulegum gegn Breiðabliki, Stjörnunni og Val. Samspil þeirra Söndru Maríu og Söndru Mayor var burðarliður sóknarleiksins en Mayor lagði meðal annars upp fimm af þeim átta mörkum sem Sandra María skoraði yfir sumarið.
Sandra Mayor varð markadrottning með 19 mörk í leikjunum 18 og var í kjölfarið kosin besti leikmaður Íslandsmótsins í árlegu kjöri leikmanna en auk þess átti hún flestar stoðsendingar í deildinni ásamt Svövu Rós Guðmundsdóttur í Breiðablik.
Þá voru alls fimm leikmenn liðsins valdir í úrvalslið deildarinnar af fotbolti.net. Þetta voru þær Sandra Mayor, Natalia Gomez, Anna Rakel Pétursdóttir, Lillý Rut Hlynsdóttir og Hulda Björg Hannesdóttir. Donni var valinn sem þjálfari liðsins auk þess sem þær Sandra María Jessen og Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir voru valdar á bekkinn.