Þegar KA lagði CSKA Sofia

Fótbolti
Þegar KA lagði CSKA Sofia
Hafsteinn Jakobsson gerði sigurmark KA í leiknum

KA lék í fyrsta skiptið í Evrópukeppni í knattspyrnu sumarið 1990 þegar liðið tók þátt í Evrópukeppni meistaraliða eftir að hafa hampað Íslandsmeistaratitlinum sumarið 1989. KA liðið fékk ansi erfitt verkefni en andstæðingar liðsins voru hinir margföldu búlgörsku meistarar CSKA Sofia. Það áttu því ekki margir von á að KA ætti möguleika í einvíginu.

Fyrri leikurinn fór fram á Akureyrarvelli þann 19. september og var þetta í fyrsta skiptið sem leikur í Evrópukeppni fór þar fram.

KA - CSKA Sofia


KA-menn komu hinsvegar svo sannarlega á óvart og 
verðskulduðu sigurinn fyllilega og hefðu hæglega unnið með meiri mun. Strax á þriðju mínútu þrumaði Jón Grétar Jónsson boltanum í þverslána á marki CSKA. Markið kom síðan á 16. mínútu – Ormarr Örlygsson braust þá af miklu harðfylgi að endamörkum hægra megin og sendi boltann út á Hafstein Jakobsson sem skoraði með góðu skoti, 1-0.

Kjartan Einarsson var síðan tvívegis nálægt því að skora í fyrri hálfleiknum, skaut rétt framhjá, og síðan varði búlgarski markvörðurinn frá honum á snilldarlegan hátt.

CSKA var nálægt því að jafna snemma í síðari hálfleik, en þá átti liðið sláarskot og tvö önnur ágæt færi. En KA-menn, sem áttu sinn besta leik á keppnistímabilinu, fóru aftur í gang og Árni Hermannsson skaut í stöng, og varnarmaður bjargaði þegar boltinn stefndi í netið eftir skot Jóns Grétars.

Útlitið fyrir leikinn var ekki gott því tvo síðustu dagana á undan snjóaði á Akureyri, og spáð hafði verið leiðinlegu veðri, en þegar til kom var leikið á auðum velli og í ágætu veðri.

Hafsteinn Jakobsson gegn CSKA
Hafsteinn Jakobsson, sem skoraði sigurmark KA í fyrri leiknum, á hér í höggi við einn búlgörsku leikmannanna á Akureyrarvellinum

Lið KA í leiknum:

Haukur Bragason, Steingrímur Birgisson, Halldór Halldórsson, Halldór Kristinsson, Ormarr Örlygsson, Bjarni Jónsson (Árni Hermannsson 67.), Gauti Laxdal, Heimir Guðjónsson, Hafsteinn Jakobsson, Jón Grétar Jónsson, Kjartan Einarsson (Þórður Guðjónsson 73.)

Áhorfendur: 1.208

Umfjöllun Morgunblaðsins

Umfjöllun MBL

Umfjöllun MBL

Umfjöllun DV

Umfjöllun DV

Umfjöllun Dags

Umfjöllun Dags

Umfjöllun Dags


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband