Flýtilyklar
Sverre Jakobsson nýjasti liðsmaður Akureyrar
Nú er orðið ljóst að Sverre Andreas Jakobsson er á leiðinni til Akureyrar og verður leikmaður og í þjálfararteymi Akureyrar Handboltafélags á næstu leiktíð. Sverre var í viðtali við heimasíðu Akureyrar Handboltafélags í tilefni breytinganna en að sjálfsögðu er gagnkvæm tilhlökkun og spenningur fyrir verkefninu.
Jæja Sverre hvernig leggst það í þig að vera á leiðinni aftur heim á æskuslóðirnar?
Mér líst bara vel á það. Ég hef í raun lítið verið fyrir norðan síðustu sextán árin og það verður gott að koma heim á ný. Þetta var ekki einföld ákvörðun en ég er mjög sáttur við hana og hlakka mikið til að takast á við ný verkefni og aðstæður.
Nú lékst þú upp alla yngri flokkana og upp í meistaraflokk hjá KA, varst t.d. í bikarmeistaraliðinu 1995 og Íslandsmeistaraliðinu 1997 hverjir eru eftirminnilegustu þjálfarar sem þú hafðir á þessum árum og hvers vegna?
Allir þeir þjálfarar sem ég hafði í gegnum yngri flokkana kenndu mér eitthvað sem hefur síðar nýst mér við mismunandi aðstæður í boltanum. Ég verð þó að nefna tvo sem hvað mest áhrif höfðu.
Árni Stefánsson kenndi mér í 4. flokki að hafa trú á eigin getu og hræðast ekki það að setja sér háleit markmið. Eftir þennan vetur áttaði ég mig á því hvað hugarfarið getur gert.
Alfreð Gíslason hefur þó haft hvað mest áhrif á mig sem handboltamann. Hann tók mig inn í meistaraflokk 16 ára gamlan og hafði strax trú á mér. Hann tók mig inn í landsliðið 2006 á ný eftir 7 ára fjarveru sem var gagnrýnt. Þá sýndi hann mér mikið traust þegar hann náði í mig til Gummersbach.
Og á sama hátt eru ekki einhverjir eftirminnilegir leikmenn sem voru samferða þér á þessum árum?
Ég hef verið einstaklega heppinn með liðsfélaga í gegnum tíðina. Hef aldrei verið í hóp þar sem ég hef ekki verið sáttur eða liðið vel. Ég vil helst ekki nefna marga, ég er svo hræddur um að gleyma einhverjum sem eiga rétt á að vera hérna líka. Ég verð þó að nefna Erling Kristjánsson. Ég bar alltaf mikla virðingu fyrir honum og geri klárlega enn. Hann kenndi mér mikið þann tíma sem við spiluðum saman og örugglega meira en hann gerir sér grein fyrir og ég líka á þeim tíma. Fyrirmyndar persóna og leikmaður.
Sverre, þriðji frá hægri í aftari röð, fagnar bikarmeistaratitlinum 1995
Eins og áður kom fram þá spilaðir þú með KA, seinna fórstu í Aftureldingu og síðast munum við eftir þér hér í Íþróttahöllinni í HK búningi. Með hvaða félagsliðum hefur þú leikið til þessa?
Ég lék með KA til 1998 þá flutti ég suður og spilaði með HK í tvö ár. Því næst lék ég með UMFA. Þegar þeim tíma lauk þá var ég kominn með leiða á handbolta sem má rekja til meiðsla og annarra þátta. Ég ákvað því að taka mér frí og jafnvel hætta á þessum tímapunkti.
Ég fór í framhaldsnám til Danmerkur í tvö ár sem gerði mér mjög gott. Þetta átti bara að vera eins árs frí en þar sem ég fékk svo grænt ljóst á skiptinám frá Danmörku til Bandaríkjanna í hálf ár, því varð pásan lengri, í heildina 2 og hálft ár. Ég spilaði með liði í Boston, sem hét þá New England Freeze, tel það varla með því lítil alvara var á bak við það. Æft var einu sinni í viku í c.a. tvo tíma svo var farið á stað sem selur „orkudrykki“ og setið þar og spjallað í fjóra tíma.
Eftir námið kom ég heim og ákvað Fram að taka sénsinn að fá mig til liðs við sig. Ég var klárlega ekki í nægilega góðu formi þá en ég ákvað að taka slaginn og leggja allt undir á ný fyrir boltann. Það gekk hrikalega vel svo áhuginn kom um leið. Eftir ár í Safamýrinni fór ég til VLF Gummersbach og spilaði þar í tvö ár. Kom svo heim til að missa ekki af hruninu, spilaði þá með HK.
Eftir eitt tímabil þar á bæ, fór ég svo til TV Grosswallstadt, þar sem ég hef verið núna í 5 ár. Næsta stoppustöð er svo Akureyri Handboltafélag.
Sverre og Fannar Friðgeirsson í baráttunni með Grosswallstadt í vetur
Nú eins og stundum áður er uppistaðan í Akureyrarliðinu ungir og sprækir strákar sem þú hefur sennilega ekki kynnst mikið inni á vellinum. Hefurðu náð að fylgjast eitthvað með liðinu eða mannskapnum í vetur?
Til að vera alveg hreinskilinn þá nei, alltof lítið. Hef séð tvo leiki og er að greina þá svolítið en ég þarf að fá fleiri hjá Heimi á næstu dögum og þá fæ ég betri tilfinningu fyrir hópnum. Svo kemur þetta smátt og smátt. Hlakka mikið til að kynnast strákunum.
Það fer ekki á milli mála að þú ert kjölfestan í varnarleik íslenska landsliðsins og ljóst að það fer ekki hver sem er í skóna þína þar. Hverju þakkarðu helst þann árangur sem þú hefur náð í faginu?
Ég hef gríðarlegan metnað og vilja til að gera vel. Ég tek aldrei neinu sem sjálfsögðum hlut og er gagnrýninn á sjálfan mig. Ég legg mikið á mig og er endalaust að setja mér ný markmið. Metnaður, vilji og markmiðasetning hefur skilað mér þeim árangri sem ég hef náð.
Er Aron landsliðsþjálfari ekki örugglega áfram með símanúmerið þitt?
Ég hef verið í góðu sambandi við Aron og eftir gott samtal við hann ákvað ég að slá til og spila eitt ár enn. Svo er það mitt að standa mig til að fá símtalið sem ég vonast eftir m.a. í janúar.
Sverre og Sigfús Sigurðsson fagna sigurleik á Ólympíuleikunum í Peking
Nú er frágengið að þú kemur inn í þjálfarateymið hjá Akureyri ásamt því að leika með liðinu. Ef okkur misminnir ekki þá þjálfaðir þú unga pilta hjá KA fyrir rúmum fimmtán árum með afbragðsárangri. Nú hefur náttúrlega safnast gríðarlega í reynslubankann hjá þér síðan en með hvaða hætti hefurðu undirbúið þig fyrir að takast á við nýtt hlutverk við þjálfun?
Reynsla er mikilvæg og maður hefur lært heilmikið á þeim sjö árum sem ég hef spilað í atvinnumennsku. Ég hef spilað í toppbáráttu og í botnbaráttu. Verið í Champions league og farið í gegnum það að falla. Svo maður hefur farið í gegnum alla flóruna. Þetta hefur gefið manni reynslu sem ég ég get nýtt mér án nokkurs vafa í þjálfun. Ég hef smátt og smátt síðustu ár verið að búa mig meira og meira undir það að prófa þjálfun á einhverjum tímapunkti. Nú fer það að detta í gegn og ég hlakka mikið til. Verður gaman að gera þetta með Heimi og ég er viss um að við munum ná vel saman á næstu árum.
Það hefur verið fín stemming og flott umgjörð í kringum heimaleikina hjá Akureyri undanfarin ár, ertu með einhver skilaboð til stuðningsmanna liðsins?
Akureyri á flotta stuðningsmenn og hefur Akureyri alltaf verið erfiður heimavöllur heim að sækja. Því verðum við að viðhalda. Það er samt þannig að áhugi verður aldrei meiri en spilamennska liðsins eða sú útgeislun sem frá liðinu kemur.
Það er á ábyrgð okkar leikmanna að sýna stuðningsmönnum okkar það sem þeir vilja sjá. Ef varan er góð þá verður hún vinsæl. Þetta snýst ekki bara um að vinna - heldur sýna sínum áhangendum ákveðin karaktereinkenni á vellinum.
Nú ert þú fjölskyldumaður með þrjú börn ekki satt, hvernig er stemmingin hjá fjölskyldumeðlimum að breyta til og flytjast hingað norður?
Mjög góð. Ég og konan mín erum jú bæði að norðan svo við erum með sterkt net þar af fjölskyldu og vinum. Börnin hafa ekki kynnst því að hafa ömmur og afa hjá sér né aðra ættingja í raun allt sitt líf svo þetta verður breyting fyrir þau til hins betra.
Okkur hefur samt alltaf liðið afskaplega vel úti og höfum verið einstaklega heppin með allt og því var það ekki alveg sjálfsagt að flytja heim.
Barnakarlinn Sverre
Hvenær megum við svo eiga von á að þið flytjist í bæinn?
Það fer svolítið eftir skólamálum hjá stráknum og öðrum þáttum, en ég býst við að koma í þriðju viku júlí mánaðar. Svo er bara að koma sér sem fyrst fyrir heima og koma öllum í sína rútínu.
Við þökkum Sverre kærlega fyrir spjallið og óskum honum og fjölskyldunni alls hins besta á komandi mánuðum.