Sumarið eftirminnilega árið 2001

Fótbolti
Sumarið eftirminnilega árið 2001
Toddi var tolleraður á Þróttaravellinum (mynd: DV)

Sumarið 2001 verður lengi í minnum haft hjá þeim sem koma að Knattspyrnufélagi Akureyrar. Eftir fall úr efstu deild sumarið 1992 hafði KA verið fast í næst efstu deild og það með misjöfnum árangri. Litlu munaði sumarið áður en núna var hinsvegar komið að því, liðið ætlaði sér upp og sýna og sanna að félagið ætti heima í efstu deild. Þó var búist við mikilli spennu eins og ávallt í deildinni en þetta árið voru 6 lið af 10 af Norðurlandi.

Liðinu barst nokkur liðsstyrkur þegar Kristján Örn Sigurðsson gekk til liðs við liðið á nýjan leik eftir þriggja ára dvöl með Stoke í Englandi. Steinn Viðar Gunnarsson og Hlynur Jóhannsson gengu einnig til liðs við KA fyrir sumarið en báðir komu þeir frá Leiftri.

Fyrsti leikur sumarsins var gegn Dalvíkingum við erfiðar aðstæður á æfingasvæði Dalvíkinga í norðanstrekkingi og snjókomu. Þrátt fyrir erfiðar aðstæður var sigur okkar manna aldrei í hættu og var 0-4 sigur KA síst of stór. Þorvaldur Makan skoraði tvö mörk og Hreinn Hringsson og Sverrir Jónsson sitt markið hvor. Hreinn Hringsson fór svo á kostum í öðrum leik sumarsins þegar Tindastóll mætti á KA-svæðið. Hreinn skoraði öll fjögur mörk liðsins í öruggum 4-0 sigri og KA með fullt hús og markatöluna 8-0 eftir tvo leiki.


Markasyrpa með mörkum KA liðsins á heimavelli á leið sinni í Símadeildina. Myndbandið var unnið af Aksjón og hafði Elmar Bergþórsson umsjón með vinnslunni.

Því næst tók við erfiður leikur gegn Stjörnunni í Garðabæ, heimamenn voru sterkari aðilinn en ódýrt mark af hálfu Hreins Hringssonar skildi liðin lengi að áður en Adolf Sveinsson jafnaði metin en lengra komust þeir bláklæddu ekki og voru lokatölur því 1-1. KA var ekki lengi að koma sér aftur á sigurbraut en liðið sótti KS heim til Siglufjarðar. Heimamenn komust reyndar yfir snemma leiks en mörk frá Hreini, Þorvaldi Makan og Sverri Jónssyni á 12 mínútna kafla gerðu útum leikinn. Dean Martin fór á kostum í leiknum og lagði upp tvö markanna.

Ásgeir Már Ásgeirsson skoraði bæði mörk KA þegar Víkingar komu norður á Akureyrarvöll. Sigurinn var mjög verðskuldaður en Þorvaldur Makan misnotaði vítaspyrnu áður en Haukur Úlfarsson minnkaði muninn á lokamínútunum. KA slapp síðan með skrekkinn á Ólafsfirði þegar Kristján Örn jafnaði metin stuttu fyrir leikslok og tryggði 1-1 jafntefli gegn heimamönnum í Leiftri sem þurftu að leika manni færri síðustu 20 mínútur leiksins.

ÍR-ingar komu svo í heimsókn og sáu aldrei til sólar, lokatölur 6-0 þar sem Hreinn Hringsson skoraði þrennu og lagði upp tvö mörk, Sverrir Jónsson, Kristján Örn og Dean Martin skoruðu hin mörk KA í leiknum. KA nýtti sér þar með að nágrannar okkar í Þór höfðu tapað gegn Stjörnunni og fóru í efsta sæti deildarinnar.

Sæti í 8-liða úrslitum bikarkeppninnar var tryggt á endanum með tveimur mörkum frá Þorvaldi Makan í framlengingu gegn Víði. KA sótti linnulaust í leiknum en inn vildi boltinn ekki í venjulegum leiktíma. Áður höfðu okkar menn slegið út U-23 lið Keflavíkur með 0-3 sigri í Keflavík, Þorvaldur Makan skoraði tvö mörk og Hreinn Hringsson skoraði eitt.

Fyrsta tap sumarsins kom svo í 8. umferð 1. deildarinnar þegar Þórsarar yfirspiluðu okkar menn sem virtust ekki klárir í slaginn fyrr en leiknum var í raun lokið. Þorvaldur Makan skoraði þegar 20 mínútur lifðu leiks en það var of lítið enda höfðu Þórsarar skorað fjögur mörk þar áður og lokatölur urðu 4-1 fyrir Þór. KA endurheimti þó efsta sætið í næstu umferð með sterkum sigri á Þrótturum þar sem Ásgeir Már skoraði eina mark leiksins á 79. mínútu en KA hafði stýrt leiknum lengst af og átti sigurinn skilið.

Róbert Skarphéðinsson gekk á ný til liðs við KA á miðju sumri en hann hafði farið til Breiðabliks fyrir sumarið. Næsti leikur var gegn Dalvíkingum á Akureyrarvelli og varð úr hinn mesti spennuleikur. Gestirnir komust yfir snemma í fyrri hálfleik áður en Þorvaldur Örlygsson jafnaði metin fyrir hálfleik. Illa gekk að brjóta niður vörn Dalvíkinga og koma boltanum framhjá Sævari Eysteinssyni í marki þeirra en það tókst loksins 10 mínútum fyrir leikslok þegar Steingrímur Eiðsson skoraði og örstuttu síðar innsiglaði Þorvaldur Makan sigurinn með góðu marki, 3-1 sigur staðreynd.

KA-menn sýndu svo styrk sinn með sannfærandi sigri á Keflvíkingum í bikarkeppninni. KA, án Þorvaldar Örlygssonar þjálfara sem var í leikbanni, var betri aðilinn, sérstaklega í síðari hálfleiknum, en lenti þó undir 12 mínútum fyrir leikslok þegar Haukur Ingi slapp inn í vítateig KA og skoraði. En okkar menn voru fljótir að svara fyrir sig og Elmar jafnaði þegar hann fylgdi eftir þrumuskoti Hreins Hringssonar sem Gunnleifur markvörður Keflavíkur varði. Þorvaldur Makan skoraði síðan sigurmark KA með föstu skoti af markteig eftir fyrirgjöf Ásgeirs Más skömmu fyrir leikslok og KA því komið í undanúrslit bikarkeppninnar.

Við tók svo torsóttur 0-1 sigur á Sauðárkróki en Þorvaldur Makan tryggði sigurinn með marki mínútu fyrir leikslok. Fyrir leikinn hafði Ívar Bjarklind snúið aftur til liðs við KA eftir 7 ára fjarveru. Stjörnumenn mættu í næsta leik norður og aftur urðu lokatölur 1-1 hjá liðunum. Hreinn Hringsson hafði komið KA yfir snemma leiks en gestirnir jöfnuðu stuttu fyrir hálfleik og þar við sat. Sex umferðir eftir og KA enn í efsta sæti deildarinnar.

Aftur fóru KS menn illa útúr viðureign sinni við KA en leik liðanna á Akureyrarvelli lauk með 5-1 sigri KA þar sem Þorvaldur Makan skoraði tvö mörk og þeir Steingrímur Eiðsson, Þorvaldur Örlygsson og Hreinn Hringsson skoruðu sitt markið hver. Næsti leikur var útileikur gegn Víkingum sem leiddu 1-0 í hálfleik. Hreinn Hringsson sneri leiknum við í síðari hálfleik með tveimur mörkum, því síðara úr vítaspyrnu eftir að hann var felldur sjálfur. Sverrir Jónsson fékk síðan rautt spjald en engu að síður bætti Þorvaldur Örlygsson við marki og 1-3 sigur staðreynd.

KA-menn stigu svo skrefi nær úrvalsdeildinni með sanngjörnum sigri á Leiftri sem þó komst 2-1 yfir með tveimur mörkum í fyrri hálfleik. KA átti fimm skot í stangir og þverslá og Chris Porter varði mark Leifturs mjög vel. Þorvaldur Makan Sigbjörnsson skoraði umdeilt sigurmark þar sem aðstoðardómari úrskurðaði að boltinn hefði farið innfyrir marklínu. Slobodan Milisic fékk svo rauða spjaldið undir lok leiks. KA var því í lykilstöðu er 3 leikir voru eftir af deildinni, með 4 stiga forskot á Þór í 2. sæti og 8 stig á Þróttara.

Allt leit út fyrir að KA væri að gulltryggja sæti í úrvalsdeildinni gegn ÍR í Breiðholtinu en liðið leiddi 0-2 eftir hálftímaleik með mörkum Hreins og Dean Martins. En ÍR-ingar minnkuðu muninn fyrir hálfleik og með ótrúlegum lokasprett sneru þeir leiknum við og unnu að lokum 3-2.

KA og Þór mættust í næstsíðustu umferðinni sem var því algjör úrslitaleikur milli liðanna, alls mættu um 2.000 manns á Akureyrarvöll. KA var líklegri aðilinn til að byrja með en tvö mörk Þórsara stuttu fyrir hálfleik gerðu útum leikinn og tryggðu þeir sig upp í efstu deild með 0-2 sigrinum. Okkar menn voru hinsvegar allt í einu komnir í erfiða stöðu þar sem Þróttarar höfðu minnkað forskot KA niður í 2 stig og mættust liðin einmitt á heimavelli Þróttara í lokaumferðinni.


Spennan var í algleymingi í lokaumferðinni er KA sótti Þróttara heim

KA tryggði sér hinsvegar sæti í úrvalsdeildinni með því að ná jafntefli 2-2 í hreinum úrslitaleik liðsins gegn Þrótti í Laugardalnum. Þróttarar þurftu að sigra og sóttu þeir stíft, en það voru KA-menn sem náði forystunni tvívegis. Eftir harðfylgi Hreins Hringssonar skoruðu Þróttarar tvö sjálfsmörk og KA-menn fögnuðu úrvalsdeildarsætinu sem stóð tæpt í lokin þrátt fyrir góða stöðu þegar lítið var eftir af sumrinu.

En sumrinu lauk ekki í Laugardalnum að þessu sinni, KA mætti í Kaplakrika og mætti þar sterku liði FH í undanúrslitum bikarkeppninnar. Fyrirfram var búist við sigri þeirra hvítklæddu en annað kom á daginn, KA-menn léku mjög sterkan varnarleik og voru stórhættulegir í skyndisóknum, sérstaklega hægra megin þar sem Dean Martin lék varnarmenn FH grátt og lagði upp eina mark fyrri hálfleiks sem Hreinn Hringsson gerði. Dean Martin var svo aftur á ferðinni snemma í síðari hálfleik þegar hann fann Ívar Bjarklind í teignum sem tvöfaldaði forskotið með viðstöðulausu skoti. Þorvaldur Makan kláraði leikinn svo endanlega með laglegu marki og öruggur 0-3 sigur KA staðreynd. KA varð þar með fyrsta neðradeildarliðið til að komast í úrslitaleikinn í 7 ár.


KA fór illa með FH í Hafnarfirðinum þegar liðið tryggði sér sæti í bikarúrslitunum

Bikarúrslitaleikurinn

Í bikarúrslitaleiknum mætti KA liði Fylkis sem hafði átt góðu gengi að fagna í efstu deild. Árbæingar byrjuðu leikinn af krafti og sóttu stóft en KA varðist vel og skynsamlega. Finnur Kolbeinsson átti þrumuskot af 25 metra færi í stöngina á marki KA eftir 5 mínútna leik en Fylkir náði ekki að skapa sér hættuleg færi þrátt fyrir pressuna. KA komst smám saman inn í leikinn og náði forystunni með dæmigerðu marki; Dean Martin sendi boltann fyrir frá hægri og Hreinn Hringsson skoraði með skalla af markteig, 1-0 fyrir KA.


Það var mikil eftirvænting fyrir bikarúrslitaleik KA og Fylkis

Fylkismenn voru fljótir að jafna eftir hlé. Sverrir var þar á ferð þegar hann skallaði boltann aftur fyrir sig, rétt utan markteigs, eftir aukaspyrnu Ólafs Stígssonar á miðjum vallarhelmingi KA, 1-1. En markið sló KA-menn ekki útaf laginu og þeir komust yfir á ný. Kjartan Sturluson markvörður Fylkis felldi Þorvald Makan Sigbjörnsson og Hreinn skoraði sitt annað mark af miklu öryggi, 2-1.

KA-menn vörðust áfram vel og Fylkismenn ógnuðu fyrst og fremst í uppstilltum atriðum. Annað slíkt færði þeim annað jöfnunarmark, nú skoraði Ólafur Stígsson með skalla eftir hornspyrnu Finns Kolbeinssonar frá vinstri, 2-2. Bæði lið gátu tryggt sér sigur í venjulegum leiktíma. Alexander Högnason skoraði fyrir Fylki á 77. mínútu en markið var réttilega dæmt af vegna hrindingar. Fimm mínútum fyrir leikslok fékk Hreinn dauðafæri á markteig Fylkis en skaut framhjá og í lokin var Finnur í upplögðu færi rétt utan markteigs KA en Árni Skaftason markvörður varði vel frá honum.


KA leiddi tvívegis í úrslitaleiknum sem fór á endanum í vítaspyrnukeppni

Framlengingin var daufasti hluti leiksins, liðin tóku litla áhættu og lítið var um marktækifæri. Þar með þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni. Fylkismenn skutu á undan og bæði lið skoruðu í fjórum fyrstu spyrnum sínum. Markverðirnir vörðu reyndar sína spyrnuna hvor en þær voru endurteknar þar sem þeir stigu framfyrir marklínuna. Sverrir, Pétur, Hreiðar og Gunnar skoruðu fyrir Fylki en Hreinn, Hlynur, Kristján og Þorvaldur Örlygsson fyrir KA.

Sævar Þór Gíslason skoraði úr fimmtu spyrnu Fylkis en þá var komið að Kjartani markverði Árbæinga. Hann varði fimmtu og síðustu spyrnu KA, frá besta leikmanni Akureyrarliðsins, Dean Martin, og þar með stóð Fylkir uppi sem bikarmeistari ársins 2001.

Vonbrigðin mikil að sjá á eftir bikartitlinum í vítaspyrnukeppni en stóra markmiðinu var náð, KA var komið á nýjan leik í hóp þeirra bestu.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband