Stórt skref stigið með sigri á ÍBV (myndaveisla)

Handbolti
Stórt skref stigið með sigri á ÍBV (myndaveisla)
Risa tvö stig í hús! (mynd: Egill Bjarni)

KA tók á móti ÍBV í Olísdeild karla í handbolta í gær en deildin er gríðarlega jöfn og spennandi fyrir lokaumferðirnar og þurfti KA liðið á sigri að halda gegn sterku Eyjaliði til að koma sér í kjörstöðu í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni.

Það fór ekki milli mála að bæði leikmenn og stuðningsmenn gerðu sér fulla grein fyrir mikilvægi leiksins og úr varð algjör handboltaveisla í KA-Heimilinu. Jafnt var á öllum tölum til að byrja með og spennustigið var ansi hátt. Leikmenn beggja liða fuku útaf í brottvísunum og var hart barist.

KA hafði yfirhöndina uns gestunum tókst að komast yfir í 7-8 eftir um tólf mínútna leik en þá kom frábær kafli hjá strákunum sem keyrðu yfir ÍBV liðið með fimm mörkum í röð. Mest leiddu strákarnir með fimm mörkum í stöðunni 14-9 en Eyjamenn komu til baka og löguðu stöðuna fyrir hlé. KA leiddi 17-15 í hálfleik en þurftu að klára leikinn án Daða Jónssonar sem fékk beint rautt spjald snemma leiks.

Tímalína fyrri hálfleiks

Sóknarleikurinn hikstaði í upphafi síðari hálfleiks og gestirnir jöfnuðu í kjölfarið metin. Áfram tókst KA liðinu þó að leiða en það virtist þó bara vera tímaspursmál hvenær gestunum tækist að ná forystunni. Þeir höfðu minna fyrir sínum mörkum en flott barátta okkar liðs náði að kreista fram mikilvæg mörk. Á tímabili spiluðu strákarnir með aukamann í sókninni sem virkaði til að byrja með en kostaði á endanum ódýr mörk og því bökkuðu menn aftur í sex á sex.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Egils Bjarna frá leiknum

Það kom hinsvegar að því er rétt rúmar þrjár mínútur lifðu leiks að ÍBV tók forystuna í stöðunni 26-27. Jonni tók leikhlé og það virkaði heldur betur. Eftir mikinn darraðardans náði Jón Heiðar að þröngva boltanum á Einar Birgi Stefánsson á línunni og hann jafnaði metin. Í kjölfarið fékk Kári Kristján dauðafæri á línunni en Nicholas Satchwell sá við honum og aftur mataði Jón Heiðar hann Einar Birgi á línunni hinum megin og KA skyndilega komið yfir í 28-27.

Eyjamenn áttu eftir leikhlé en biðu með það og fengu algjört dauðafæri er Sigtryggur Daði komst í gegn en aftur varði Nicholas Satchwell stórkostlega í markinu. Það var svo skrifað í skýin að Jón Heiðar myndi finna Einar Birgi sem gerði lokamark leiksins og tryggði 29-27 baráttusigur.

Tímalína seinni hálfleiks

Það ætlaði allt um koll að keyra í KA-Heimilinu í leikslok en stemningin á leiknum var stórkostleg og alveg ljóst að við eigum bestu stuðningsmenn landsins. Sigurgleðin var allsráðandi enda þýðir sigurinn það að KA er nær öruggt um sæti í úrslitakeppninni og á enn leik til góða á liðin í kring. Deildin er svo jöfn og spennandi að með sigri á FH á fimmtudaginn myndi KA liðið jafna við Selfoss sem er í 3. sæti deildarinnar en fyrir þann leik er KA með 22 stig í 8. sætinu.

Nicholas Satchwell steig heldur betur upp í markinu í síðari hálfleik og endaði með 16 varin skot en hann varði 5 skot í fyrri hálfleik. Árni Bragi Eyjólfsson var markahæstur með 9 mörk og sýndi enn einn stórleikinn. Jón Heiðar Sigurðsson, Jóhann Geir Sævarsson, Einar Birgir Stefánsson og Áki Egilsnes gerðu allir fjögur mörk, Patrekur Stefánsson 2 og þeir Allan Norðberg og Sigþór Gunnar Jónsson gerðu báðir eitt mark.

Það má með sanni segja að sigurinn í gær hafi verið liðsheildarsigur og ekki spurning að ef strákunum tekst að halda áfram að bæta sinn leik eru ansi skemmtilegir tímar framundan. Við höfum beðið í nokkur ár eftir úrslitakeppnisleikjum í KA-Heimilinu en nú virðist það ævintýri vera framundan. Fyrst er þó að gulltryggja það og að sjálfsögðu að enda eins ofarlega og hægt er í deildarkeppninni.

KA liðið á þrjá leiki eftir í deildinni og tekur á móti FH á fimmtudaginn. FH er í 2. sæti deildarinnar með 26 stig og því myndi sigur færa strákana aðeins tveimur stigum á eftir FH fyrir lokaumferðirnar tvær.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband