Flýtilyklar
Stórkostlegur sigur KA í Eyjum!
Það var mikið undir í leik ÍBV og KA í Vestmannaeyjum í dag en bæði lið voru með 6 stig fyrir leikinn og mikilvæg stig í húfi. Þrefaldir meistarar ÍBV eru gríðarlega erfiðir heim að sækja og ljóst að verkefni dagsins væri gríðarlega krefjandi.
Það var þó ljóst strax á fyrstu sekúndu að okkar lið væri mætt til Eyja til að gefa sig alla í verkefnið og sækja stig. Tarik Kasumovic skoraði fyrsta markið og í kjölfarið tók KA völdin í leiknum. Ekki leið á löngu uns strákarnir voru komnir í 1-4 og síðar 6-10. Varnarleikurinn var virkilega góður og Jovan Kukobat vel á varðbergi í markinu.
Heimamenn sem höfðu byrjað á að spila 6-0 vörn brugðu á það ráð að fara í sína framliggjandi vörn. Það tók okkar lið smá tíma að aðlagast nýju vörninni og næstu þrjú mörk voru Eyjamanna. Staðan því skyndilega orðin 9-10 og einhverjir sem héldu að okkar lið myndi brotna í kjölfarið.
Það gerðist hinsvegar svo sannarlega ekki því aftur náði liðið áttum og hálfleikstölur voru 11-17 KA ívil. Spilamennskan í fyrri hálfleik var algjörlega frábær og átti sterkt lið ÍBV fá svör við leik okkar liðs. Hvort sem var vörn eða sókn þá sást langar leiðir að liðið var gríðarlega vel undirbúið og búið að fara vel yfir styrkleika ÍBV liðsins.
En það má ekki gleyma því að Eyjamenn eru ótrúlega góðir í því að refsa andstæðingum sínum fyrir mistök og eru iðulega fljótir að breyta leikjum. Það var því enn mikið verk fyrir höndum hjá KA liðinu til að sækja sigurinn.
ÍBV skoraði fyrstu tvö mörk síðari hálfleiks en það beit lítið á okkar lið sem gaf aftur í og komst mest sjö mörkum yfir í stöðunni 16-23. Áfram gekk heimamönnum illa að finna lausnir á vörn okkar liðs en það helsta sem gekk hjá þeim voru sirkusmörk og að finna Kára Kristján á línunni.
En það dró af okkar liði þegar það fór að líða undir lok leiks enda mikið álag á strákunum enda var verið að spila á fáum mönnum. Eyjamönnum tókst að losa betur fyrir skytturnar sínar og þeir minnkuðu muninn hægt og bítandi.
Staðan var 25-28 og um sjö mínútur eftir þegar strákarnir fundu auka kraft og juku forskotið aftur í fimm mörk. Þá fékk Tarik Kasumovic glórulaust rautt spjald er hann reyndi skot og í leiðinni fór olnbogi hans í andlit Eyjamanns. Engin ásetningur og lykilmaður hjá KA liðinu úr leik.
Skömmu síðar rekst Andri Snær aftan í Sigurberg Sveinsson sem féll og Andri uppsker tvær mínútur. Heimamenn nýttu sér liðsmuninn og minnkuðu muninn í 28-30 þegar Stefán Árnason tók leikhlé og enn rúmar tvær mínútur eftir.
Þarna var svo sannarlega kviknað í húsinu og það eru fá lið betri í að nýta sér titring andstæðinganna en Eyjamenn. Þeir minnkuðu muninn niður í eitt mark og fengu möguleika á að jafna metin. Sem betur fer komust strákarnir inn í sendingu og Dagur Gautason brunaði í gegn og skoraði gríðarlega mikilvægt mark, forystan tvö mörk og 52 sekúndur eftir á klukkunni.
Ekki voru þeir lengi að svara og pressan aftur á okkar liði. En strákarnir sýndu gríðarlega flotta frammistöðu með því að spila sig í gegn og Daði Jónsson ískaldur á línunni vippaði í netið og 30-32 sigur KA staðreynd.
Algjörlega stórkostleg frammistaða hjá KA liðinu sem er enn og aftur að sýna hvað í því býr. Það bjuggust ekki margir við öðru en sigri ÍBV í dag en sigur KA í dag var sannfærandi og eiga strákarnir allt hrós í heiminum fyrir leikinn.
Einar Birgir Stefánsson átti ótrúlegan leik á línunni en hann rikkti hægri vinstri og bjó til ýmis svæði í vörninni auk þess sem hann var góður í að nýta sín færi. Tarik Kasumovic og Áki Egilsnes voru magnaðir í að nýta sín færi fyrir utan og þá var Jovan Kukobat stórkostlegur í rammanum.
Í raun voru allir leikmenn KA gjörsamlega frábærir og skiluðu sínu. Strákarnir hafa sýnt geggjaðan leik í öllum leikjum vetrarins nema einum og sýna það enn og aftur að þeir eiga fullt erindi í deild þeirra bestu.
Mörk KA: Einar Birgir Stefánsson 7, Tarik Kasumovic 7, Andri Snær Stefánsson 5 (4 úr vítum), Áki Egilsnes 5, Dagur Gautason 3, Jón Heiðar Sigurðsson 2, Allan Nordberg 1, Daði Jónsson 1 og Sigþór Gunnar Jónsson 1 mark.
Jovan Kukobat var traustur í markinu með 16 skot varin, þar af 2 vítaköst.
Mörk ÍBV: Theodór Sigurbjörnsson 7, Kristján Örn Kristjánsson 6, Sigurbergur Sveinsson 5, Dagur Arnarsson 3, Kári Kristján Kristjánsson 3, Fannar Þór Friðgeirsson 2, Daníel Örn Griffin 1, Elliði Snær Viðarsson 1 og Grétar Þór Eyþórsson 1 mark.
Næsti leikur er heimaleikur á mánudaginn gegn Val og er það síðasti heimaleikur liðsins fyrir jólafrí. Það er því eina vitið að fylgja þessum leik eftir með því að fjölmenna í KA-Heimilið og styðja okkar stórkostlega lið, áfram KA!