Stórkostleg endurkoma tryggði KA stig

Handbolti
Stórkostleg endurkoma tryggði KA stig
Þvílíkur karakter!!! (mynd: Egill Bjarni)

KA tók á móti Val í Olísdeild karla í handboltanum í kvöld en aðeins munaði einu stigi á liðunum fyrir leikinn og bjuggust flestir við hörkuleik. Það varð heldur betur raunin og ljóst að þessi leikur mun seint renna okkur KA mönnum úr minni.

Bæði lið spiluðu öfluga 6-0 vörn og var jafnt á með liðunum fyrsta kortérið. KA komst í 0-1 en eftir það voru það gestirnir sem fóru með frumkvæðið. Í stöðunni 5-5 kom hinsvegar slæmur kafli þar sem strákarnir okkar skoruðu ekki í rúmar átta og hálfa mínútu og gestirnir gengu á lagið.

Strákarnir gerðu sig seka um alltof marga tapaða bolta og Valsmenn refsuðu bæði með mörkum úr hraðaupphlaupum en einnig með mörkum yfir allan völlinn í autt netið. Skömmu fyrir hlé var staðan 8-13 fyrir gestina en strákunum tókst að laga stöðuna í 10-13 er liðin gengu til búningsherbergja sinna.

Tímalína fyrri hálfleiks

Munurinn hélst í 2-4 mörkum nær allan síðari hálfleikinn og benti fátt til þess að KA næði að brjóta Valsmenn á bak aftur og fá eitthvað útúr leiknum. Er kortér lifði leiks var staðan 18-20 en þá kom aftur slæmur kafli hjá strákunum sem töpuðu boltanum og Valsmenn refsuðu grimmilega.

Er fimm og hálf mínúta lifði leiks var staðan orðin 20-26 og í raun bara spurning hve stór sigur gestanna yrði. En KA liðið hefur heldur betur sýnt það og sannað að það býr ótrúlegur karakter í liðinu en á dögunum tryggðu strákarnir sér jafntefli á útivelli gegn FH með því að vinna upp fjögurra marka forskot á innan við þremur mínútum.

KA liðinu tókst í kjölfarið að skora þrjú mörk í röð og enn þrjár og hálf mínúta eftir. Þá tókst Arnóri Snæ að skora fyrir Val og tæpar þrjár mínútur til leiksloka. Í raun sama staða og gegn FH á dögunum. Allan Norðberg sótti þá vítakast og uppskar Magnús Óli leikmaður Vals brottvísun. Árni Bragi Eyjólfsson skoraði úr vítinu og tvær og hálf mínúta eftir.

Skömmu seinna tók Snorri Steinn Guðjónsson þjálfari Vals leikhlé en pirraði sig á því að það tók smá tíma að fá leikhléið í gegn og barði því í ritaraborðið. Hann uppskar því brottvísun og Valsmenn tveimur færri. Eftir leikhléið geigaði skot Valsmanna og Jóhann Geir Sævarsson minnkaði muninn í 25-27 og enn mínúta og 35 sekúndur eftir.

Dæmdur var ruðningur á Valsmenn og aftur sótti Allan Norðberg vítakast þó það hafi tekið smá tíma fyrir dómara leiksins að komast að þeirri niðurstöðu, sem reyndist þó hárrétt. Aftur skoraði Árni Bragi og skyndilega aðeins eitt mark sem skildi liðin að. Eftir bras á lokasókn gestanna var dæmd leiktöf og fékk KA því möguleika á að stela stigi.

Og það varð heldur betur raunin þar sem Sigþór Gunnar Jónsson smeygði sér í gegn og skoraði jöfnunarmarkið mikilvæga og leikurinn úti. Ótrúleg endurkoma þar með staðreynd og KA búið að sækja risastig á lokaandartökum síðustu deildarleikja. Fyrst gegn FH þar sem Andri Snær skoraði úr vítakasti er leiktíminn var liðinn, svo Patrekur Stefánsson með sigurmark í Vestmannaeyjum og nú Sigþór Gunnar í kvöld.

Tímalína seinni hálfleiks

Það má því heldur betur fullyrða að karakterinn sem býr í okkar liði er hreint út sagt stórkostlegur og alveg klárt að þetta mun koma okkur langt í vetur! Það er þó mikið áhyggjuefni hvað við töpuðum boltanum oft í dag en alls misstu strákarnir boltann 16 sinnum sem er alltof mikið og í raun ótrúlegt að hafa náð stigi gegn sterku liði Vals.

Jóhann Geir Sævarsson var markahæstur í liði KA í dag með 7 mörk, þar af eitt úr vítakasti. Áki Egilsnes gerði 5 mörk rétt eins og Árni Bragi Eyjólfsson en Árni Bragi gerði tvö af vítalínunni. Patrekur Stefánsson gerði 3 mörk, Daði Jónsson 2, Jón Heiðar Sigurðsson 2, Sigþór Gunnar Jónsson 2 og Allan Norðberg eitt mark. Nicholas Satchwell varði 7 skot í markinu.

Það er þó áfram skammt stórra högga á milli en strax á sunnudaginn mæta strákarnir nágrönnum okkar í Þór í Höllinni og verður það þar með þriðji leikurinn á sex dögum. Strákarnir eru nýbúnir að leggja Þórsarana að velli í bikarkeppninni og mikilvægt að ná að endurtaka leikinn enda erum við komnir í hörkubaráttu í efri hluta deildarinnar.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband