Flýtilyklar
Stefnumót KA tókst ákaflega vel
Um síðustu helgi fór fram frábært Stefnumót KA fyrir 6. flokk karla á KA-svæðinu. Alls tóku 250 keppendur þátt í mótinu en mótið var það fyrsta sem var haldið eftir að Covid-19 kom upp og stöðvaði Stefnumót vetrarins.
Til að bregðast við breyttum aðstæðum var mótinu skipt upp í þrjú holl og var allt sprittað vel og vandlega á milli hópa. Það má með sanni segja að strákarnir hafi verið gríðarlega ánægðir með mótið enda heldur betur komin spenna hjá liðunum að komast loksins í alvöru keppni.
Hvöt og Fjarðabyggð komu lengst að allra en allir sem tóku þátt í mótinu fengu verðlaunapening og pizzu frá Sprettinum.
Framundan eru fleiri Stefnumót og um helgina munu strákar og stelpur í 6.-8. flokki leika listir sínar. Áætlað er að keppendur um helgina verði um 750 þannig að það má svo sannarlega búast við miklu lífi og fjöri á KA-svæðinu.
Samstarf KA og Stefnu með yngriflokkamót í fótboltanum hefur gengið gríðarlega vel undanfarin ár og erum við í KA ákaflega þakklát Stefnu fyrir hve virkan þátt þau hafa tekið í að lyfta yngriflokkamótunum okkar upp á hærra plan.