Flýtilyklar
Sigur á Eyjamönnum
KA vann í dag 2-0 sigur á ÍBV þar sem Daníel Hafsteinsson og Nökkvi Þeyr Þórisson skoruðu mörk KA á síðasta stundarfjórðungi leiksins.
KA 2 - 0 ÍBV
1 - 0 Daníel Hafsteinsson (’76) Stoðsending: Hallgrímur Mar
2 - 0 Nökkvi Þeyr Þórisson (’80) Stoðsending: Daníel Hafsteins
2 - 0 Hallgrímur Mar Steingrímsson - Brenndi af vítaspyrnu (’83)
Áhorfendatölur:
746 áhorfendur
Lið KA:
Aron Dagur, Haukur Heiðar, Hallgrímur Jónasar, Callum, Hrannar Björn, Alexander Groven, Almarr Ormars, Daníel Hafsteins, Ýmir Már, Hallgrímur Mar og Sæþór Olgeirs.
Bekkur:
Kristijan Jajalo, Ólafur Aron, Brynjar Ingi, Birgir Baldvins, Nökkvi Þeyr, Steinþór Freyr og Þorri Mar.
Skiptingar:
Steinþór Freyr inn – Alexander Groven út (’62)
Ólafur Aron inn – Almarr út (’71)
Nökkvi Þeyr inn - Sæþór Olgeirs út (’77)
KA og ÍBV öttu kappi í dag í 6.umferð Pepsi Max deildarinnar. Leikið var í blíðskapar veðri á Greifavellinum og var léttur andvari sem blés. Það bætti þó heldur í vind í síðari hálfleik. KA liðið gerði þrjár breytingar á byrjunarliðinu frá sigrinum á Stjörnunni í síðustu umferð. Inn í liðið komu Callum Williams, Alexander Groven og Sæþór Olgeirs. Andri Fannar, Ásgeir, Elfar Árni og Torfi Tímoteus voru allir fjarri góðu gamni vegna meiðsla og einnig var Almarr tæpur á að taka þátt í leiknum en hann var veikur í aðdraganda leiksins.
Leikurinn var afar rólegur til að byrja með en KA var þó töluvert meira með boltann og eftir einungis sjö mínútur varð einkennilegt atvik þegar Vilhjálmu Alvar dómari leiksins meiddist og varð að stöðva leikinn og varð að gera um það bil 8 mínútna hlé á leiknum. Gylfi Már Sigurðsson aðstoðardómari tók við flautunni fram að hálfleik og Eðvarð Eðvarðsson varadómari fór á línuna.
Daníel Hafsteins átti besta tækifæri KA í fyrri hálfleiknum en þá átti hann langskot með vinstri sem fór stutt framhjá.
Eyjamenn fengu síðan algjört dauðafæri á 39.mínútu þegar að Guðmundur Magnússon átti gott veggspil við Jonathen Glenn sem lauk með því að Glenn komst í dauðafæri en fór afar illa að ráði sínu og skaut langt framhjá úr teignum.
Fyrri hálfleiknum lauk síðan þegar Gylfi flautaði til hálfleiks eftir að hafa aðeins bætt við fjórum mínútum við fyrri hálfleikinn sem vakti athygli þar sem meiðsli Vilhjálms stöðvuðu leikinn um helmingi lengur en uppgefinn uppbótartíma.
Hvorugt liðanna gerði breytingar í hálfleik en í síðari hálfleikinn kom þriðji dómari leiksins inn á en þá tók Sigurður Hjörtur Þrastarsson við flautunni af Gylfa Má sem fór aftur á línuna.
Síðari hálfleikur var líkt og sá fyrri frekar bragðdaufur til að byrja með. En Jonathan Glenn átti skot rétt framhjá marki KA þegar að rúmar fimm mínútur voru búnar af seinni hálfleiknum eftir langt innkast Eyjamanna.
Á 74. mínútu kom besta færi leiksins til þessa en þá fór Steinþór Freyr afar illa af ráði sínu í algjöru dauðafæri þegar að Sæþór lagði hann á Steinþór sem var einn á móti markmanni en skaut langt framhjá markinu.
Örstuttu seinna setti Steinþór boltann á Hallgrím Mar sem gaf frábæra sendingu á Daníel Hafsteinsson sem kláraði færið frábærlega og braut ísinn fyrir KA sem var komið með 1-0 forystu. Mjög fallegt spil hjá KA og ekki í fyrsta skipti í sumar sem KA leikur fallegan fótbolta með fáum snertingum.
Aðeins fjórum mínútum seinna skoraði KA aftur. En þá átti Daníel Hafsteins magnaðan sprett upp vinstri vænginn og lék illa á varnarmenn ÍBV og gaf út í teiginn á Nökkva Þey Þórisson sem var nýkominn inn á sem varamaður og skoraði hann af stuttu færi með snyrtilegri afgreiðslu. Fyrsta mark Nökkva fyrir KA í mótsleik.
Aðeins örfáum sekúndum eftir að KA skoraði mark númer tvö fékk liðið vítaspyrnu þegar að Nökkvi Þeyr var felldur innan teigs. Hallgrímur Mar lét hins vegar Halldór Pál markmann Eyjamanna verja spyrnuna frá sér og staðan enþá 2-0. Lítið markvert gerðist síðustu mínútur leiksins og fór KA því með góðan 2-0 sigur af hólmi.
Leikurinn var heldur rólegur meiri hluta leiksins en magnaður kafli KA þegar að stundarfjórðungur var eftir skilur liðin að. Frábær innkoma hjá Nökkva breytti miklu og var hann mjög líflegur á þessum kafla. Einnig verður að gefa varnarvinnu KA liðsins hrós fyrir sinn þátt í sigrinum en Eyjamenn máttu síns lítið gegn varnarleik KA og liðið búið spila frábæran varnarleik að undanförnu með Aron Dag öryggið uppmálað fyrir aftan.
Nivea KA-maður leiksins: Daníel Hafsteinsson (Var magnaður á miðjunni í dag. Skoraði gott mark og bjó til seinna markið með frábærum spretti. Sýndi ótrúleg gæði í öllum sínum aðgerðum í dag.)
Það er stutt í næsta leik KA og er hann á þriðjudaginn þegar að KA sækir Víking Reykjavík heim í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarsins. Leikurinn fer fram Eimskipsvellinum í Laugardalnum, heimavelli Þróttar Reykjavíkur vegna þess að heimavöllur Víkinga er ekki klár en verið er að leggja á hann gervigras. Hefst leikurinn kl. 18.00 og hvetjum við alla KA menn á höfuðborgarsvæðinu að fjölmenna á völlinn og styðja við bakið á KA svo liðinu takist að komast áfram í næstu umferð.
Áfram KA!