Seiglusigur KA í fjögurra stiga leiknum

Handbolti
Seiglusigur KA í fjögurra stiga leiknum
Frábær stemning í mögnuðum sigri (mynd: EBF)

Það var ansi mikið undir þegar KA tók á móti Fram í fyrsta leiknum í Olís deild karla eftir jólafrí. Gestirnir í Fram voru í fallsæti fyrir leikinn en KA aðeins þremur stigum fyrir ofan í 9. sætinu. Leikurinn var því skólabókardæmi um fjögurra stiga leik og klárt mál að okkar lið var búið að einblína mikið á þennan leik í undirbúning sínum fyrir síðari hluta deildarinnar.

Leikurinn fór jafnt af stað þar sem bæði lið vörðust vel og greinilegt á spilamennsku beggja liða að mikið væri undir. Jafnt var á fyrstu tölum leiksins en í stöðunni 2-3 fyrir gestunum kom frábær kafli hjá okkar liði þar sem framliggjandi 3-2-1 vörn lokaði algjörlega á Framliðið og í kjölfarið gerðu strákarnir fjögur mörk í röð.

Framarar lögðu ekki árar í bát og þeir minnkuðu muninn tvívegis í eitt mark en tilfinningin var þó þannig að okkar lið væri með gott tak á leiknum og strákarnir juku muninn aftur og leiddu mest með fjórum mörkum en hálfleikstölur voru 14-11 KA í vil.

Tímalína fyrri hálfleiks

Liðunum gekk erfiðlega að skora í upphafi síðari hálfleiks og litu aðeins þrjú mörk dagsins ljós á fyrsta kortéri síðari hálfleiks, KA gerði tvö en gestirnir aðeins eitt og staðan því 16-12 og útlitið ansi gott. En eins og svo oft áður þá þurfti KA liðið að hafa ansi mikið fyrir því að gera útum leikinn og Framararnir minnkuðu muninn í tvö mörk.

Staðan var 20-18 þegar rétt rúmar fjórar mínútur voru eftir þegar Framarar stálu boltanum og geystust fram í hraðaupphlaup. Sem betur fer sýndi Jovan Kukobat meistaratakta og varði glæsilega og hinir fjölmörgu áhorfendur í KA-Heimilinu önduðu léttar. Hvort þessi varsla hafi slökkt í liði gestanna skal ég ekki segja en lokamínúturnar voru algjörlega eign okkar liðs.

KA gerði síðustu fjögur mörk leiksins og uppskar að lokum afar sanngjarnan sigur, 24-18. Tvö gríðarlega mikilvæg stig í hús sem gerir það að verkum að liðið er nú 5 stigum frá fallsæti en ekki nóg með það að með því að vinna sex marka sigur er KA með betri innbyrðisviðureign á Fram liðið sem tryggir það að ef liðin enda jöfn í deildinni verður KA fyrir ofan.

Tímalína seinni hálfleiks

Leikur kvöldsins vannst klárlega á stórkostlegum varnarleik og þá tók Jovan Kukobat stóra bolta inn á milli þegar á þurfti að halda auk þess sem Svavar Ingi Sigmundsson varði vítakast með glæsibrag. Tarik Kasumovic var markahæstur með 7 mörk og sýndi hann flottan karakter að halda áfram að þruma á markið þrátt fyrir að hávörn Framara reyndist oft ansi erfiður veggur að kljúfa.

Daníel Matthíasson átti algjöran stórleik en hann var geggjaður í vörninni eins og reyndar flestir leikmenn okkar liðs en hann átti einnig skínandi dag í sókninni þar sem hann gerði 5 mörk og lét Framvörnina hafa mikið fyrir sér. Gríðarlega jákvætt ef Danni nær að sýna fleiri leiki í þessum ham enda ákaflega mikilvægir leikir framundan.

Dagur Gautason gerði 4 mörk, Jón Heiðar Sigurðsson 3, Áki Egilsnes 2, Allan Norðberg 2 og Jóhann Einarsson gerði 1 mark. Afar gaman var að sjá innkomu Jóhanns í leiknum en hann hefur leikið afar vel með ungmennaliði KA og var óhræddur við að stökkva inn í jafn mikilvægan leik og í kvöld og sótti vítakast í viðbót við markið sem hann gerði.

Þá langar mig einnig að minnast á þátt stuðningsmanna KA en leikurinn var gríðarlega vel sóttur þrátt fyrir erfiðan leiktíma og var stemningin töfrum líkust. Við erum ótrúlega þakklát fyrir ykkur öll sem hafið myndað yfirburðarbestu stemninguna í deildinni í vetur og klárt að þetta er svo miklu meira en bara handbolti hér fyrir norðan!

Næsti leikur liðsins er einnig gríðarlega mikilvægur og dæmi um fjögurra stiga leik en hann er útileikur gegn Gróttu en Grótta situr á botni deildarinnar með 6 stig og með sigri geta strákarnir að miklu leiti sagt bless við fallbaráttuna, allavega í bili. Leikurinn á Seltjarnarnesi fer fram á sunnudaginn klukkan 17:00 og hvetjum við að sjálfsögðu alla sem geta til að mæta og styðja okkar frábæra lið til sigurs.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband