Samantekt frá félagsfundi KA - 2. hluti

Almennt
Samantekt frá félagsfundi KA - 2. hluti
Iðkendum í KA hefur fjölgað gríðarlega undandarið

KA beðið í 10 ár

Aðalstjórn KA stóð fyrir opnum fundi í KA-heimilinu síðastliðinn miðvikudag. Þar fluttu Ingvar Már Gíslason, formaður og Eiríkur S. Jóhannsson varaformaður framsögu um rekstrarumhverfi félagsins og framtíðar hugmyndir um uppbyggingu á félagssvæði KA.

KA menn létu sig ekki vanta, enda um mikilvæg málefni að ræða, og mættu rúmlega 300 manns á fundinn.

Fram kom í máli Eiríks að árið 2007 gerðu KA og Þór samninga við Akureyrarbæ varðandi uppbyggingu mannvirkja á þeirra svæðum. Það er skemmst frá því að segja að samningurinn við Þór var efndur og er þar nú m.a. glæsilegur keppnisvöllur fyrir knattspyrnu með stúku ásamt flottri frjálsíþróttaaðstöðu sem uppfyllir öll skilyrði þar um.


Við undirritun Akureyrabæjar við KA og Þór árið 2007

Samningurinn við KA var hinsvegar geymdur þar sem Akureyrarbær fór þess á leit við KA að fresta framkvæmdunum vegna efnahagsástandsins sem þá hafði skapast. KA varð eðlilega við þessari beiðni og fékk í staðinn tímabundin afnot af Akureyrarvelli þar til að farið yrði í uppbyggingu á KA-svæðinu.

Nú eru liðin 10 ár og hefur KA verið í biðstöðu á þeim tíma. Vissulega fór bærinn í framkvæmd á gervigrasvelli á KA-svæðinu og erum við þakklát fyrir það en það er ljóst að Akureyrarbær hefur fengið mikið til baka fyrir þá fjárfestingu enda er völlurinn í stöðugri notkun fyrir KA sem og önnur félög á Akureyri, nánast á hverjum degi ársins!

Fram kom hjá Eiríki að Akureyrarbær hefði á árunum 2000-2016 fjárfest fyrir 7.700 milljónir í íþróttamannvirkjum í bæjarfélaginu á verðlagi ársins 2016.  Þar af væru fjárfestingar á félagssvæði KA 650 milljónir á meðan um 3.000 milljónir hefðu farið í uppbyggingu á félagssvæði Þórs, 1.400 milljónir í íþróttahús við Giljaskóla, 730 milljónir í sundlaug Akureyrar, án rennibrauta, og 680 milljónir í íþróttamannvirki í Hrísey. Sagði Eiríkur að allt væru þetta góðar fjárfestingar sem væru bænum til mikils sóma.

Í ljósi framkvæmdasögunnar, í ljósi þeirrar gríðarlegu fjölgunar sem hefur verið í þeim hverfum sem KA þjónustar, í ljósi fjölgunar iðkenda á vegum félagsins teljum við að nú sé svo sannarlega röðin komin að uppbyggingu á KA-svæðinu“ sagði Eiríkur.

Smelltu hér til að lesa fyrsta hluta yfirferðarinnar

Smelltu hér til að lesa þriðja hluta yfirferðarinnar


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband