Flýtilyklar
Risastórir heimaleikir á döfinni!
Það eru stórir hlutir að gerast hjá okkar liðum þessa dagana og leika karlalið KA í handbolta og fótbolta mikilvæga heimaleiki í deildarkeppninni á fimmtudag og föstudag auk þess sem KA/Þór hefur leik í úrslitakeppninni um Íslandsmeistaratitilinn á sunnudag.
Þær jákvæðu fréttir hafa borist að við getum loksins tekið við fleiri áhorfendum á okkar leiki og það er okkar von að við seljum alla þá miða sem í boði eru og fáum stórkostlegan stuðning á þessa mikilvægu leiki sem framundan eru.
KA - FH 20. maí kl. 18:00
Á fimmtudaginn klukkan 18:00 tekur KA á móti FH í Olísdeild karla í handboltanum. Með sigri tryggja strákarnir sér sæti í úrslitakeppninni auk þess sem þeir myndu stökkva upp í 3.-4. sæti deildarinnar fyrir lokaumferðirnar tvær. Það er því ansi mikið undir og strákarnir eru staðráðnir í að fylgja á eftir frábærum heimasigri í síðustu umferð.
Miðasala á leikinn er hafin í Stubbsappinu en áhorfendum verður skipt upp í tvö svæði, A og B svæði. Ársmiðahafar mæta á A-svæði en stakir miðar eru til sölu í bæði svæðin í Stubbsappinu. Gengið er inn á svæði A um aðalinngang KA-Heimilisins en inn á svæði B í gegnum Rampinn við íþróttasalinn. Sjá útskýringarmynd hér fyrir neðan.
Almenn miðasala í KA-Heimilinu hefst svo klukkan 16:30 á fimmtudeginum.
KA - Víkingur 21. maí kl. 18:00
Á föstudaginn er svo toppslagur í fótboltanum þegar KA tekur á móti Víking á Dalvíkurvelli klukkan 18:00. Liðin eru jöfn á toppi deildarinnar með 10 stig og klárt að við þurfum á öllum þeim stuðning að halda sem í boði er. Rétt eins og á síðasta heimaleik verður svæði áhorfenda þrískipt, eitt stúkusvæði og tvö grassvæði.
Miðasala á leikinn er hafin í Stubbsappinu og athugið að ársmiðahafar þurfa að tryggja sér miða á leikinn í gegnum ársmiðann sinn í Stubb. Almenn miðasala á vellinum hefst klukkan 17:00.
KA/Þór - ÍBV 23. maí kl. 13:30
Deildarmeistarar KA/Þórs hefja leik í úrslitakeppninni á sunnudaginn þegar sterkt lið ÍBV mætir norður í fyrstu viðureign liðanna í undanúrslitum Íslandsmótsins. Vinna þarf tvo leiki til að komast áfram í úrslitaeinvígið og ljóst að við þurfum á sigri að halda í fyrsta leik til að viðhalda heimaleikjaréttinum í einvíginu.
Athugið að ársmiðar gilda ekki í úrslitakeppninni en miðasalan er hafin í Stubb og því um að gera að tryggja sér miða strax. Sama skipulag verður á salnum eins og á karlaleiknum á fimmtudeginum og mikilvægt að við fáum góðan stuðning í þessum mikilvæga leik.
Almenn miðasala í KA-Heimilinu hefst klukkan 12:00.