Pepsi-deildar sætið tryggt

Almennt | Fótbolti
Pepsi-deildar sætið tryggt
Fögnuðurinn í leikslok var mikill.

KA lagði Selfoss að velli í 19. umferð Inkasso-deildarinnar í gær. Eina mark leiksins skoraði Ásgeir Sigurgeirsson. Sigurinn þýðir það að KA leikur í Pepsi-deildinni á næstu leiktíð.

KA 1 – 0 Selfoss

1 – 0 Ásgeir Sigurgeirsson (’78) Stoðsending: Grímsi

Lið KA:

Rajko, Hrannar Björn, Guðmann, Davíð Rúnar, Baldvin, Aleksandar, Almarr, Hallgrímur Mar, Ásgeir, Juraj og Elfar Árni

Bekkur:

Aron Dagur, Callum, Halldór Hermann, Ólafur Aron, Pétur Heiðar, Orri og Archange.

Skiptingar:

Baldvin út – Archange inn (’75)
Juraj út – Callum inn (’75)
Ásgeir út – Halldór inn (’88)

Það var greinilegt frá fyrstu mínútu að leikurinn var gríðarlega þýðingarmikill fyrir KA. Fyrri hálfleikur var ekki mikið fyrir augað og var baráttan ógurlega mikil og var hálfleikurinn frekar grófur af hálfu beggja liða.

Besta færi fyrri hálfleiks áttu hins vegar gestirnir í Selfoss þegar að Ingi Rafn Ingibergsson slapp einn í gegn á þriðju mínútu uppbótartíma en honum brást bogalistin og endaði skot hans framhjá. Sannkallað dauðafæri og KA heppnir að lenda ekki undir. Staðan í hálfleik því 0-0 í nokkuð jöfnum fyrri hálfleik.

Í síðari hálfleik jókst pressa KA meira líkt og oft áður í sumar. Um miðbik hálfleiksins átti Almarr hörku skot úr teignum sem markvörður Selfyssinga þurfti að hafa sig allann við til að verja í horn. Skömmu seinna komst Elfar Árni nálægt því að setja mark sitt á leikinn þegar að boltinn fór í gegnum þvöguna eftir í hornspyrnu en Elfar náði ekki að hitta boltann á fjærstönginni. Svo virtist sem gestirnir frá Selfossi ætluðu að ná að halda markinu hreinu en annað kom á daginn.

Á 78. mínútu átti Hallgrímur Mar sendingu upp völlinn þar sem Ásgeir tók gott hlaup og snéri laglega á varnarmenn Selfoss sem fylgdu honum fast á eftir og náði lystilegu skoti með vinstri fæti í bláhornið og kom KA yfir. Fögnuðurinn við markið var gífurlegur og ætlaði allt um koll að keyra. Eftir markið gerðist fátt markvert fyrr en í uppbótartíma þegar að Grímsi var klárlega felldur innan teigs af markverði gestanna en á einhvern óskiljanlegan hátt var ekkert dæmt.

Stuttu seinna flautaði dómari leiksins til leiksloka og orðið ljóst að KA leikur í deild þeirra bestu á næstu leiktíð. Hreint út sagt frábært og féllust margir KA-menn í faðma við lokaflautið og skáluðu í Pepsi.

KA-maður leiksins: Ásgeir Sigurgeirsson (Skoraði markið sem skildi liðin að. Átti eftir að gera mikið þegar að hann fékk boltann í vítateignum í markinu en sýndi mikil gæði og yfirvegun og kláraði færið með vinstri.)

Íslandsmótinu er hins vegar hvergi nærri lokið og eru þrír mikilvægir leikir upp á það hvaða lið sigrar Inkasso-deildina. Næsti leikur KA er laugardaginn 10. september fyrir austan. Þegar að við sækjum Fjarðabyggð byggð heim. Sá leikur fer fram á Eskjuvellinum og hefst kl. 15.00. Við hvetjum alla KA menn sem hafa tök á að renna austur og styðja liðið. Áfram KA!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband