Patti framlengir við KA um tvö ár

Handbolti
Patti framlengir við KA um tvö ár
Haddur og Patti handsala samninginn góða

Patrekur Stefánsson hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við handknattleiksdeild KA og er nú samningsbundinn félaginu út tímabilið 2024-2025. Eru þetta afar góðar fregnir enda Patti lykilmaður í KA-liðinu og verið það undanfarin ár.

Patti sem er 27 ára gamall leikstjórandi er uppalinn hjá KA og hefur leikið 92 leiki fyrir félagið í deild, bikar og evrópu en auk þess lék hann 30 leiki með sameiginlegu liði Akureyrar Handboltafélags á árunum 2013-2017. Patti lék 20 leiki á síðustu leiktíð og gerði í þeim 36 mörk, þar af 13 í stórbrotinni frammistöðu gegn ÍBV í Vestmannaeyjum.

Eins og áður segir eru það afar jákvæðar fregnir að Patti hafi skrifað undir nýjan samning við félagið en auk þess að taka vel á því innan vallar er hann duglegur að taka þátt í starfinu í kringum liðið. KA liðið teflir fram mörgum ungum og efnilegum uppöldum leikmönnum í vetur og afar gott að þeir njóti áfram leiðsagnar frá reyndari leikmönnum liðsins.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband