Flýtilyklar
Ótrúlegt tap KA/Þórs gegn HK
Það var nýliðaslagur í Digranesi í Olís deild kvenna í dag þegar HK tók á móti KA/Þór. Bæði lið höfðu farið vel af stað þrátt fyrir hrakspár sérfræðinga og spennandi leikur framundan. Fyrir leikinn var okkar lið í 3. sæti deildarinnar og hefði með sigri getað komið sér í enn betri stöðu.
KA/Þór hóf leikinn betur og skoraði fyrstu þrjú mörk leiksins, vörnin var feykiöflug og gekk heimastúlkum ansi erfiðlega að finna opnanir á vörninni. Munurinn jókst á næstu mínútum og var staðan 4-9 eftir um tuttugu mínútna leik.
Hálfleikstölur voru 8-12 og útlitið ansi gott fyrir utan þó að Katrín Vilhjálmsdóttir hafði fengið útilokun frá leiknum eftir þrjár brottvísanir.
Munurinn hélst í fjórum mörkum lengst af í síðari hálfleik og virtist sem stelpurnar ætluðu að innbyrða sterkan útisigur. En í stöðunni 14-19 og enn 17 mínútur eftir af leiknum lenti liðið á vegg og lið HK gekk á lagið.
Á sama tíma og okkar lið náði ekki að skora mark á þeim 17 mínútum sem eftir voru skoruðu heimastúlkur sex mörk og fóru því á endanum með ótrúlegan 20-19 sigur af hólmi.
Ótrúlega svekkjandi niðurstaða eftir flottan leik í um 45 mínútur en handboltaleikur er 60 mínútur og það er ansi erfitt að vinna leiki þegar þú skorar ekki mark í jafn langan tíma og gerðist á lokakaflanum.
KA/Þór hefur því unnið þrjá leiki til þessa og tapað þremur en í öllum tapleikjunum hefur komið langur kafli sem hefur farið með leikinn. Vissulega eru stelpurnar nýliðar í deildinni og það tekur tíma að venjast harðari bolta en það svíður að sjá í hvaða stöðu liðið gæti verið ef meiri stöðugleiki væri í spilamennsku liðsins.