Flýtilyklar
Örfréttir KA - 19. mars 2018
Síðasta vika var svo sannarlega glæsileg í KA starfinu. KA/Þór varð deildarmeistari í handboltanum og karlalið KA vann HK og í blakinu standa karla og kvennalið okkar í ströngu. Þá er KA komið í undanúrslit Lengjubikarsins og Þór/KA er komið í gang kvennamegin.
Handbolti
Kvennalið KA/Þórs tryggði sér sigur í Grill 66 deildinni með öruggum 30-21 sigri á HK í hreinum úrslitaleik um sæti í efstu deild að ári. Stelpurnar hreinlega keyrðu yfir deildina en þær töpuðu ekki leik og hafa sýnt það og sannað að þær eiga svo sannarlega erindi í deild þeirra bestu. Til hamingju með frábæran vetur og við hlökkum til að sjá liðið á komandi tímabili.
Það var öllu meiri spenna hjá körlunum en KA vann HK 23-22 eftir svakalegan leik. HK leiddi með þremur mörkum er lítið var eftir en strákarnir sýndu mikinn karakter og sigldu inn tveimur stigum. Einn leikur er eftir í deildinni og á liðið enn tölfræðilega möguleika á sigri í deildinni en er öruggt um heimaleikjarétt í umspili um laust sæti í efstu deild að ári hið minnsta.
Blak
Kvennalið KA í blaki gerði sér lítið fyrir og lagði Þrótt Reykjavík tvívegis í einvígi liðanna í úrslitakeppni Mizunodeildarinnar og er því komið áfram í næstu umferð. Stelpunum gekk ekki vel í sjálfri deildarkeppninni í vetur en úrslitakeppnin er allt önnur keppni og aldrei að vita hvað gerist gegn Stjörnunni í næstu umferð.
Karlamegin leika Deildar- og Bikarmeistarar KA gegn Aftureldingu í undanúrslitum Íslandsmótsins. KA byrjaði mjög vel og vann 3-0 sigur í fyrsta leik liðanna en Afturelding svaraði hinsvegar 3-1 í næsta leik og er staðan því jöfn 1-1. Þrjá sigra þarf til að komast í úrslitaeinvígið.
Fótbolti
Í fótboltanum vann KA 1-5 sigur á Þrótti í lokaleik liðanna í Lengjubikarnum. KA vann þar með riðilinn með fullu húsi stiga og er komið áfram í undanúrslitin. Elfar Árni Aðalsteinsson og Archie Nkumu skoruðu tvö mörk hvor og Hallgrímur Mar Steingrímsson gerði fyrsta mark leiksins. Í undanúrslitunum mætir liðið Grindavík.
Íslandsmeistarar Þór/KA lögðu Bikarmeistara ÍBV að velli 1-2 í Lengjubikarnum á föstudaginn. Lára Einarsdóttir og Arna Sif Ásgrímsdóttir gerðu mörk okkar liðs eftir að ÍBV hafði leitt 1-0 í hálfleik. Þetta var fyrsti sigur liðsins í keppninni og er góður möguleiki á sæti í undanúrslitum náist sigur í lokaumferðinni.
Aðrar fréttir
Herrakvöld KA fer fram á laugardaginn og verða Guðjón Þórðarson og Valdimar Grímsson ræðumenn. Veislustjóri verður Höddi Magg. Miðaverð er 7.000 krónur og er hægt að kaupa miða í netfanginu siguroli@ka.is
Þá er Handknattleiksdeildin með spilastokka til sölu með leikmönnum KA og KA/Þórs. Forsalan stendur til 25. Mars og hvetjum við alla til að styrkja handboltann um leið og þú eignast skemmtilegan spilastokk.
Næstu leikir
Úrslitakeppnin heldur áfram í blakinu og tekur karlalið KA á móti Aftureldingu í kvöld klukkan 20:00. Gríðarlega mikilvægur leikur enda jafnt í einvígi liðanna.
Kvennamegin þá hefst einvígi KA og Stjörnunnar í Garðabænum á miðvikudaginn og liðin leika svo í KA-Heimilinu á föstudaginn. Endilega kíkið á toppblak hjá okkar flottu liðum.
Lokaleikur KA í deildarkeppninni í handboltanum er gegn Val U á föstudaginn í KA-Heimilinu. Strákarnir þurfa sigur til að eiga enn möguleika á sigri í deildinni.
Í fótboltanum þá eru flottir leikir í Boganum á laugardaginn, KA tekur á móti Grindavík í undanúrslitum Lengjubikarsins og Þór/KA leikur lokaleik sinn í riðlakeppni Lengjubikarsins gegn FH.