Flýtilyklar
Örfréttir KA - 19. feb 2018
Það var nóg um að vera hjá meistaraflokkum KA um helgina en fótboltinn, handboltinn og blakið voru öll í eldlínunni. Hér rennum við yfir gang mála:
Blak
Það voru tveir stórleikir háðir í KA-Heimilinu um helgina en karlalið KA tók á móti HK á laugardag og sunnudag. KA var í góðri stöðu á að hampa Deildarmeistaratitlinum en HK átti einnig möguleika ef liðið myndi vinna báða leikina sannfærandi.
KA liðið sýndi hinsvegar og sannaði að liðið er það besta í dag og vann báða leikina 3-0 og stóð því uppi sem Deildarmeistari. Þetta er í sjötta sinn sem KA verður Deildarmeistari í blaki karla og óskum við liðinu til hamingju með titilinn.
Það er nóg framundan hjá strákunum en þeir taka á móti Aftureldingu á morgun, þriðjudag, í 8-liða úrslitum Kjörísbikarsins. Leikurinn hefst klukkan 8 og hvetjum við alla til að mæta í KA-Heimilið og styðja strákana áfram í næstu umferð.
Kvennalið KA leikur einnig gegn Aftureldingu í 8-liða úrslitum kvennamegin en sá leikur fer fram á miðvikudaginn og það í Mosfellsbæ.
Fótbolti
Keppni í Lengjubikarnum er komin á flug í fótboltanum og vann KA 2-1 sigur á ÍR á laugardaginn þegar liðin mættust í Boganum. Hallgrímur Mar og Hrannar Björn Steingrímssynir skoruðu mörk KA en Aron Skúli Brynjarsson minnkaði muninn fyrir gestina í uppbótartíma.
KA hefur því unnið báða leiki sína í mótinu til þessa en næsti leikur verður á laugardaginn gegn KR og fer fram í Egilshöll. Leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.
Íslandsmeistarar Þór/KA léku sinn fyrsta leik í Lengjubikarnum á sunnudag þegar sterkt lið Vals mætti í Bogann. Um var að ræða hörkuleik en það voru gestirnir sem fóru með sigur á endanum, 1-0 og var það Ásdís Karen Halldórsdóttir sem gerði markið á 61. mínútu.
Handbolti
Í handboltanum vann karlalið KA öruggan 27-21 sigur á Þrótti Reykjavík í KA-Heimilinu á föstudaginn. Eftir jafnar upphafsmínútur náðu strákarnir góðu taki á leiknum og sigldu þægilegum tveimur stigum í hús. Dagur Gautason var markahæstur í liði KA með 8 mörk, Andri Snær Stefánsson gerði 6 og Áki Egilsnes gerði 5 mörk.
KA situr í öðru sæti Grill 66 deildarinnar og er á góðri leið með að tryggja sér heimaleikjarétt í umspili um laust sæti í efstu deild að ári.
Kvennalið KA/Þórs hélt áfram sigurgöngu sinni þegar liðið lagði Aftureldingu að velli í Mosfellsbæ 21-24. Stelpurnar leiddu leikinn frá upphafi og áttu sigurinn fyllilega skilinn. Hulda Bryndís Tryggvadóttir var markahæst með 7 mörk og þær Aldís Ásta Heimisdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir gerðu 5 mörk.
Stelpurnar eru á toppi deildarinnar ásamt HK en eiga leik til góða þannig að KA/Þór er í góðri stöðu um að komast upp í deild þeirra bestu.