Óðinn Þór lánaður til Gummersbach

Handbolti

KA hefur náð samkomulagi við VfL Gummersbach um að Óðinn Þór Ríkharðsson verði á láni hjá þýska liðinu út desember mánuð. Mikil meiðsli hafa herjað á lið Gummersbach sem er í efsta sæti næstefstu deildar en framundan eru þrír mikilvægir leikir sem Óðinn mun leika með liðinu.

Óðinn Þór hefur komið af miklum krafti inn í lið KA í vetur en hann hefur skorað 96 mörk í 13 leikjum liðsins í vetur og er einn af markahæstu mönnum Olísdeildarinnar. Þá er Óðinn í 35 manna landsliðshópi Íslands sem undirbýr sig fyrir EM í Ungverjalandi og Slóvakíu í janúar.

Þetta er virkilega spennandi tækifæri og óskum við Óðni góðs gengis í Þýskalandi en Gummersbach er eitt af sigursælustu liðum Þýskalands og er í mikilli endurbyggingu um þessar mundir og stefnir á sæti í efstu deild að tímabilinu loknu.

Hjá Gummersbach hittir Óðinn fyrir Guðjón Val Sigurðsson sem stýrir liðinu auk þess sem að þeir Hákon Daði Styrmisson og Elliði Snær Viðarsson leika með liðinu. Guðjón Valur gerði eins og frægt er orðið frábæra hluti með KA á árunum 1998-2001 en í kjölfarið fór hann út í atvinnumennsku og lék þar með nokkrum af bestu handboltaliðum heimsins. Sjálfur lék Guðjón með liði Gummersbach á árunum 2005-2008 og varð markakóngur í þýsku Bundesligunni tímabilið 2005-2006.

Það er sterk KA tenging við lið VfL Gummersbach en Alfreð Gíslason stýrði liðinu á árunum 2006-2008 en auk Guðjóns Vals lék Sverre Andreas Jakobsson með liðinu auk þess sem að Guðlaugur Arnarson lék á tímabili með liðinu en Sverre er í dag aðstoðarþjálfari KA og Guðlaugur stýrir ungmennaliði KA með Stefáni Árnasyni.

Alls voru fimm íslendingar hjá Gummersbach á þessum tíma en Róbert Gunnarsson lék einnig með liðinu. Á þessum árum lék lið Gummersbach í stærstu handboltahöll í heimi, Köln Arena, sem tekur yfir 19.000 áhorfendur í sæti og var það mikil upplifun að upplifa stemninguna sem myndaðist á stærstu leikjum liðsins.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband