Óðinn, Einar og Arnar til liðs við KA

Handbolti
Óðinn, Einar og Arnar til liðs við KA
Velkomnir í KA!

Handknattleiksdeild KA gerði í dag samninga við þá Óðin Þór Ríkharðsson, Einar Rafn Eiðsson og Arnar Frey Ársælsson og munu þeir leika með liðinu á næsta tímabili. Samningarnir eru til tveggja ára og er ljóst að koma þeirra mun styrkja KA liðið enn frekar í baráttunni í Olísdeildinni.

Óðinn Þór sem er 23 ára hægri hornamaður gengur til liðs við KA frá Team Tvis Holstebro í Danmörku en hann hefur undanfarin þrjú ár leikið þar í landi. Í Danmörku hefur Óðinn tvívegis komist í lokaúrslit sem og í bikarúrslit á núverandi tímabili en áður en hann gekk til liðs við Holstebro lék hann með GOG þar sem hann lék meðal annars í Meistaradeild Evrópu. Þá á Óðinn að baki 14 landsleiki og gert í þeim 44 mörk en með landsliðinu hefur hann meðal annars tekið þátt á HM í Þýskalandi. Með yngrilandsliðunum var hann valinn í úrvalslið HM U19 og EM U20.

Einar Rafn er 31 árs hægri skytta sem hefur leikið með FH undanfarin ár. Hann hefur verið einn allra besti leikmaður Olísdeildarinnar undanfarin tímabil en með FH hefur Einar orðið Deildar- og Bikarmeistari. Einar varð markakóngur tímabilið 2015-2016 og hefur iðulega verið meðal markahæstu manna deildarinnar. Þá hefur hann átt fast sæti í liði ársins og var valinn sóknarmaður ársins tímabilið 2017-2018.

Arnar Freyr er 26 ára vinstri hornamaður sem kemur rétt eins og Einar Rafn frá FH. Arnar hefur verið einn besti varnarmaður deildarinnar undanfarin ár auk þess að vera frábær sóknarmaður. Arnar er uppalinn í Fram en gekk til liðs við FH árið 2016 þar sem hann hefur orðið Deildar- og Bikarmeistari.

Við bjóðum þá félaga hjartanlega velkomna norður og hlökkum svo sannarlega til að sjá þá í gula búningnum á komandi tímabili.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband