Flýtilyklar
Nýliðar KA komu sterkir inn árið 2017
Sumarið 2017 var loksins komið að því að KA lék aftur í efstu deild eftir fallið árið 2004. Liðið hafði unnið yfirburðarsigur í 1. deildinni og var alveg ljóst að KA ætlaði sér að festa sig í sessi sem efstudeildarlið eftir of mörg mögur ár. Þrátt fyrir að vera nýliði í deildinni var liðinu spáð góðu gengi og endaði liðið í 7. sæti í spá forráðamanna liðanna í deildinni.
Helstu tilþrif KA liðsins sumarið 2017
Liðið styrkti sig fyrir baráttuna í deild þeirra bestu og fékk Steinþór Frey Þorsteinsson frá Sandnes Ulf í Noregi. Auk þess komu öflugir póstar í þeim Emil Lyng frá Silkeborg og Darko Bulatovic frá Cukaricki í Serbíu. Á sama tíma yfirgáfu Juraj Grizelj og Halldór Hermann Jónsson liðið.
Ef frá er talið tap gegn Magna þá vann liðið þægilegan sigur í riðlinum í Kjarnafæðismótinu og endaði með markatöluna 20-4. Framundan var úrslitaleikur gegn Þór sem vann hinn riðilinn. Steinþór Freyr Þorsteinsson fékk beint rautt spjald strax á 28. mínútu og Þórsarar gengu á lagið. Staðan var orðin 0-5 áður en Archie Nkumu kom KA-liðinu loksins á blað á 73. mínútu en tíu mínútum síðar fékk Aleksandar Trninic einnig beint rautt og lokatölur urðu 1-6. Mikill skellur sem vakti liðið heldur betur til lífsins fyrir Lengjubikarinn.
Frábær seinni hálfleikur kláraði Selfyssinga í 8-liða úrslitum Lengjubikarsins
Að vísu tapaðist fyrsti leikurinn þar 0-1 gegn Víkingum en í kjölfarið fór liðið að finna taktinn betur og vann næstu fjóra leiki sína gegn Gróttu, FH, Haukum og Keflavík. KA vann þar með riðilinn og tryggði sér þátttöku í 8-liða úrslitunum. Andstæðingarnir voru Selfyssingar og leikið var í Boganum. Gestirnir leiddu 0-1 í hléinu með marki úr vítaspyrnu en KA kom af miklum krafti inn í síðari hálfleikinn og Almarr Ormarsson jafnaði metin á 47. mínútu. Stuttu síðar var staðan orðin 3-1 eftir mörk frá Elfari Árna Aðalsteinssyni og Hallgrími Mar Steingrímssyni. Daníel Hafsteinsson kláraði svo leikinn endanlega með laglegu marki á 89. mínútu og lokatölur 4-1.
Í undanúrslitunum var um nýliðaslag að ræða er Grindvíkingar mættu í Bogann. Leikurinn var reyndar ansi daufur og lítið sem ekkert um færi. Það kom því ekkert á óvart að leikurinn varð markalaus og endaði í vítaspyrnukeppni. Þar reyndust Grindvíkingar öruggari og þeir fóru með 2-4 sigur af hólmi og fóru því áfram í úrslitaleikinn en okkar lið úr leik.
Draumabyrjun KA-liðsins í efstu deild á Kópavogsvellinum
Eftirvæntingin fyrir fyrsta leik KA í efstu deild í þrettán ár var eðlilega mikil og voru þeir ófáir Akureyringarnir sem mættu á Kópavogsvöll til að styðja liðið gegn Breiðablik. Krafturinn skilaði sér til liðsins sem hóf leikinn frábærlega, Darko Bulatovic kom KA yfir á 17. mínútu eftir sendingu Steinþórs Freys og skömmu fyrir hlé tvöfaldaði Elfar Árni Aðalsteinsson forystuna er hann fylgdi á eftir aukaspyrnu Hallgríms Mar Steingrímssonar. Aftur lagði Hallgrímur upp í síðari hálfleik er hann fann Ásgeir Sigurgeirsson sem kláraði af stakri snilld og staðan orðin 0-3. Blikar löguðu stöðuna fyrir leikslok en 1-3 sigur var draumabyrjun fyrir okkar lið.
KA knúði fram jafntefli á lokaandartökunum gegn Íslandsmeisturum FH í Krikanum
Aftur var krefjandi útileikur framundan því Íslandsmeistarar FH biðu í næstu umferð. Hallgrímur Mar Steingrímsson skoraði stórkostlegt mark beint úr aukaspyrnu og kom KA í 0-1 um miðbik fyrri hálfleiks. FH-ingar sýndu styrk sinn og komust í 2-1 er hálftími lifði leiks en eftir mikinn barning tókst Ásgeiri Sigurgeirssyni að tryggja dýrmætt stig með síðustu snertingu leiksins og fögnuðurinn gríðarlegur meðal stuðningsmanna KA í stúkunni sem voru þó nokkrir.
Sannfærandi sigur í fyrsta heimaleiknum
Loks var komið að fyrsta heimaleiknum og enn hélt draumabyrjunin áfram. Nú vannst öruggur 2-0 sigur á Fjölnismönnum þar sem Elfar Árni Aðalsteinsson skoraði í fyrri hálfleik eftir undirbúning Emil Lyng og Daninn var svo sjálfur á ferðinni í þeim síðari og innsiglaði sigurinn. KA var því með 7 stig eftir fyrstu þrjá leikina og var á toppi deildarinnar ásamt Stjörnunni og Val. Furðulegt atvik átti sér stað í leiknum en Almarr Ormarsson fékk tvisvar gula spjaldið en var samt ekki rekinn af velli. Mistökin uppgötvuðust þó skömmu eftir leik og fór Almarr því í leikbann.
Ekki varð mikið bikarævintýri þetta sumarið því ÍR-ingar gerðu sér lítið fyrir og slógu KA út í fyrsta leik á KA-vellinum. Jón Gísli Ström kom gestunum yfir strax á 7. mínútu en Elfar Árni Aðalsteinsson jafnaði í upphafi síðari hálfleiks. Þar við sat og því þurfti að framlengja, þar reyndust ÍR-ingar sterkari og þeir fóru með 1-3 sigur af hólmi með mörkum frá Andra Jónassyni og Jóni Arnari Barðdal.
Fyrsta deildartap sumarsins var heldur betur grátlegt
Topplið Stjörnunnar og KA mættust í fjórðu umferðinni í Garðabænum og þar kom fyrsta tap sumarsins. Guðjón Baldvinsson kom heimamönnum yfir á 22. mínútu með skalla eftir hornspyrnu en Ásgeir Sigurgeirsson jafnaði þegar hann stýrði boltanum í vinstra hornið niðri af markteig eftir skot frá Emil Lyng. Allt stefndi í jafntefli eftir hörkuleik en Eyjólfur Héðinsson tryggði Stjörnunni sigurinn með marki á sjöundu mínútu uppbótartíma og grátlegt tap staðreynd en bæði mörk Garðbæinga komu eftir hornspyrnu.
Strákunum tókst ekki að klára góða stöðu gegn Víkingi Reykjavík
Aftur missti liðið stig í blálokin nú á heimavelli gegn Víkingi Reykjavík, staðan var markalaus að loknum fyrri hálfleik en Ásgeir Sigurgeirsson hélt áfram að raða inn mörkunum er hann komst inn í sendingu við vítateig gestanna og skoraði einn gegn markverði. Emil Lyng kom KA í 2-0 á 61. mínútu með skoti frá vítateig eftir sendingu frá Elfari Árna. Vendipunktur varð hinsvegar á 77. mínútu þegar Bjarki Þór Viðarson handlék knöttinn og fékk beint rautt spjald og gestirnir vítaspyrnu. Vladimir Tufegdzic skoraði af punktinum og í uppbótartíma jafnaði Alex Freyr Hilmarsson metin fyrir gestina. Gríðarlega svekkjandi úrslit eftir að KA hafði ráðið lögum og lofum í leiknum fram að rauða spjaldinu.
Frábær frammistaða skilaði þremur stigum í Ólafsvík
Það var þó engin hætta á að missa stig í lokin í næsta leik er KA sótti Víking Ólafsvík heim. Spilamennska liðsins var til fyrirmyndar og Emil Lyng tók forystuna strax á 3. mínútu er hann fylgdi á eftir frábæran undirbúning hjá Ásgeiri Sigurgeirssyni. Lyng var aftur á ferðinni á 22. mínútu þegar hann skoraði með skalla og yfirburðir okkar liðs miklir. Elfar Árni gerði þriðja markið í upphafi síðari hálfleiks og sigurinn í höfn. Það var gegn gangi leiksins að heimamenn löguðu stöðuna á 86. mínútu en innan við mínútu síðar kláraði Lyng þrennu sína með marki úr vítaspyrnu og 1-4 sigur KA staðreynd sem hefði hæglega getað orðið stærri. Þrenna Emils var hans fyrsta á ferlinum og fyrsta þrenna leikmanns fyrir KA síðan Ævar Ingi Jóhannesson gerði þrennu í 7-0 sigri á Magna í Borgunarbikarnum 13. maí 2014!
Eftir sex fyrstu leikina var KA aðeins tveimur stigum frá toppsætinu og var til alls líklegt miðað við spilamennsku liðsins. Það voru því ansi mikil vonbrigði að ná ekki að leggja ÍA að velli á Akureyrarvelli í 7. umferðinni en KA sótti mun meira og skoraði Aleksander Trninic gott mark sem af einhverri ástæðu var dæmt af. Ingvar Þór Kale markvörður ÍA viðurkenndi eftir leik að markið hefði átt að standa og tvö stig í súginn. Guðmann Þórisson fyrirliði meiddist í nára á æfingu og var frá keppni fram í september af þeim sökum.
Sjálfsmark felldi liðið að Hlíðarenda gegn toppliði Vals
Önnur vonbrigðarúrslit fylgdu í næsta leik er topplið Vals var sótt heim. Darko Bulatovic varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark strax á 2. mínútu leiksins og reyndist það eina mark leiksins. KA fékk betri færi og staðan vænkaðist þegar Bjarni Ólafur Eiríksson leikmaður Vals fékk sitt annað gula spjald er um hálftími lifði leiks. En ekki tókst að nýta sér liðsmuninn og annað tap sumarsins staðreynd.
Elfar Árni skoraði tvö í tapi á heimavelli gegn KR
Aftur þurfti KA liðið að sætta sig við tap, nú á heimavelli gegn KR eftir bráðfjörugan leik. Arnór Sveinn Aðalsteinsson lagði upp öll þrjú mörk gestanna og allt voru það skallamörk. Tobias Thomsen og Kennie Chopart komu KR-ingum í 0-2 fyrir hlé en Elfar Árni Aðalsteinsson minnkaði muninn með marki úr vítaspyrnu á 54. mínútu. Óskar Örn Hauksson skoraði skömmu síðar fyrir gestina en Elfar Árni var aftur á ferðinni skömmu fyrir leikslok þegar hann skallaði boltann í netið eftir hornspyrnu Hallgríms Mar. KA liðið sótti talsvert undir lokin en tókst ekki að knýja fram jafnteflið.
Glæsimark Hallgríms Mar dugði ekki í Grindavík
Enn þurfti liðið að sætta sig við tap og nú í nýliðaslag í Grindavík. Grindvíkingar höfðu verið á miklu skriði og fóru á topp deildarinnar með 2-1 sigri. Hallgrímur Mar Steingrímsson skoraði stórglæsilegt mark af um 25 metra færi á 19. mínútu en það var ekki nóg því heimamenn sneru leiknum sér ívil í síðari hálfleik. Eftir frábæra byrjun hafði einungis tekist að fá eitt stig úr síðustu fjórum leikjum.
KA vaknaði til lífsins eftir hörmulega byrjun og vann stórsigur á ÍBV
Ekki var útlitið bjart eftir fyrsta kortérið í heimaleiknum gegn ÍBV í 11. umferðinni en Eyjamenn komust fljótlega í 0-2 með tveimur mörkum frá Gunnari Heiðari Þorvaldssyni. Þá loksins kviknaði líf í okkar liði og við tók ótrúleg endurkoma. Hallgrímur Mar minnkaði muninn með föstu skoti úr miðjum vítateignum og Davíð Rúnar Bjarnason jafnaði með skalla eftir hornspyrnu Hallgríms sem kom KA loks yfir í 3-2 með marki úr vítaspyrnu skömmu fyrir hlé. Almarr Ormarsson skoraði svo laglegt mark í upphafi síðari hálfleiks áður en Emil Lyng kom KA í 5-2. Hallgrímur innsiglaði svo þrennu sína með skalla tíu mínútum fyrir leikslok en Eyjamenn náðu inn marki í uppbótartíma og lokatölur því 6-3 stórsigur. Steinþór Freyr Þorsteinsson gerði sér lítið fyrir og lagði upp þrjú mörk í sigrinum kærkomna.
Staðan var góð að loknum fyrri hálfleik er Breiðablik mætti norður, Gísli Eyjólfsson kom Blikum að vísu yfir á 3. mínútu en tvö mörk frá Emil Lyng gaf KA 2-1 forystu í hálfleik. En gestirnir voru sterkari í þeim síðari og þeir komust yfir eftir á 60. mínútu og ráku svo lokahnykkinn á lokamínútunum í 2-4 sigri eftir að KA hafði sótt talsvert og freistað þess að jafna metin. Til að bregðast við meiðslum í hópnum var Vedran Turkalj króatískur miðvörður fenginn til liðsins fyrir lokasprettinn.
Það voru ófáir sem komu að því að gera umgjörðina á heimaleikjum KA sem besta
Nú voru það Íslandsmeistarar FH sem mættu á Akureyrarvöll um Verslunarmannahelgina. KA fékk fleiri færi og Steinþór Freyr Þorsteinsson það besta snemma leiks þegar hann slapp einn í gegnum vörn FH en Gunnar Nielsen markvörður FH sá við honum. Leikurinn var annars frekar daufur og lauk með markalausu jafntefli.
Fyrsta mark Hrannars Björns fyrir KA var af dýrari gerðinni
Ekki tókst að halda hreinu gegn Fjölnismönnum í Grafarvoginum því heimamenn komust í 2-0 í fyrri hálfleik með mörkum Ingimundar Níels Óskarssonar og Þóris Guðjónssonar eftir slæm varnarmistök okkar liðs. Hallgrímur Mar Steingrímsson lagaði stöðuna skömmu fyrir hlé með marki úr aukaspyrnu en fallegasta mark leiksins gerði bróðir hans Hrannar Björn þegar hann þrumaði boltanum utan teigs út við stöng. Jafntefli því niðurstaðan sem varð að teljast jákvætt eftir erfiða byrjun.
Aftur reyndust lokaandartökin okkar liði erfið gegn Stjörnunni en Ásgeir Sigurgeirsson hafði komið KA í 1-0 í fyrri hálfleik eftir sendingu frá Elfari Árna Aðalsteinssyni innfyrir vörnina. Aleksander Trninic fékk hinsvegar rautt spjald á 50. mínútu sem gerði verkefnið erfitt og Jósef Kristinn Jósefsson jafnaði metin skömmu eftir að Emil Lyng hafði skotið framhjá úr dauðafæri. Liðið virtist vera að sökkva niður í fallbaráttu en fimm stig voru niður í fallsæti þegar sjö umferðir voru eftir.
Nýliðar KA komu heldur betur af krafti inn í efstu deild
Hann var því kærkominn sigurinn í Víkinni en Vedran Turkalj skoraði eina mark leiksins á 12. mínútu með skoti rétt utan markteigs eftir langt innkast Darko Bulatovic. Leikurinn var ansi líflegur og fékk Víkingurinn Vladimir Tufegdzic rautt spjald fyrir háskaleik eftir hálftíma leik. Þrátt fyrir að vera einum færri voru heimamenn öflugir en strönduðu á Srdjan Rajkovic í marki KA sem hélt hreinu í 0-1 sigri KA.
Liðið blandaði sér svo allhressilega inn í baráttuna um Evrópusæti með stórsigri á heimavelli gegn Víkingi Ólafsvík og kvaddi allar áhyggjur um fallbaráttu. Almarr Ormarsson kom KA í 2-0 í fyrri hálfleiknum með tveimur laglegum mörkum. Elfar Árni Aðalsteinsson gerði gott betur í þeim síðari og skoraði þrennu og 5-0 stórsigur í höfn. Þetta var þriðja þrenna leikmanns KA um sumarið en ekkert lið hafði gert svo margar þrennur á einu tímabili frá árinu 2005 auk þess sem þetta var í fyrsta skiptið í 54 ár sem að þrír leikmenn sama liðs skoruðu þrennu sama tímabilið.
Rajko varði vítaspyrnu á Akranesi og lagði svo hanskana á hilluna að sumrinu loknu
En sigurgangan var stöðvuð af botnliði ÍA á Akranesi þar sem KA liðið náði sér engan vegin á strik. Srdjan Rajkovic hélt liðinu á floti í fyrri hálfleik þar sem hann varði oft glæsilega og til að mynda vítaspyrnu. En Skagamenn voru grimmari og þeir skoruðu tvívegis í síðari hálfleik þegar þeir fylgdu á eftir vörslum Rajko og unnu langþráðan 2-0 sigur. KA fékk því aðeins eitt stig gegn ÍA sem lauk keppni með aðeins 17 stig á botni deildarinnar.
Þegar fjórar umferðir voru eftir af mótinu var Valur í lykilstöðu á toppi deildarinnar með níu stiga forskot en KA lifði enn í voninni um Evrópusæti. KA liðið sótti því af krafti er liðin mættust á Akureyrarvelli og var sterkari aðilinn en fór illa með góð færi. Í byrjun síðari hálfleiks komst KA loksins yfir er Elfar Árni Aðalsteinsson kastaði sér fram og skallaði fyrirgjöf Hallgríms Mar Steingrímssonar í markið. Elfar átti síðar stangarskot en Guðjón Pétur Lýðsson jafnaði fyrir Valsmenn með marki úr vítaspyrnu og gestirnir sluppu því með stig frá norðurför sinni.
Baráttan um Evrópusæti varð að engu þegar KR-ingar tóku á móti okkar liði í 20. umferð deildarinnar. Bæði lið reyndu að elta FH sem sat í 3. sæti deildarinnar en misstu bæði af lestinni með markalausu jafntefli. Mikil harka var í leiknum og fór gula spjaldið þó nokkrum sinnum á loft. Heimamenn héldu að þeir hefðu tryggt sér sigurinn með marki á 89. mínútu en eftir fundahöld dómaratríósins var það dæmt af vegna rangstæðs sóknarmanns sem truflaði Rajkovic í marki KA.
Elfar Árni skoraði 10 mörk í deild og bikar
Í síðasta heimaleiknum tók liðið á móti Grindvíkingum og uppskar liðið vítaspyrnu strax á 4. mínútu en Kristijan Jajalo sá við Elfari Árna Aðalsteinssyni. En hann gat ekki stöðvað Emil Lyng sem skoraði með föstu skoti af 20 metra færi eftir sendingu frá Steinþóri Frey Þorsteinssyni á 39. mínútu og skömmu síðar lagði Lyng upp fyrir Hallgrím Mar Steingrímsson sem renndi boltanum undir Kristijan í markinu og KA leiddi því 2-0 í hléinu. Gestirnir voru sprækari í þeim síðari, Simon Smidt minnkaði muninn með bylmingsskoti af 25 metra færi en þrátt fyrir nokkur ágætis marktækifæri urðu mörkin ekki fleiri og KA vann 2-1 sigur.
Fyrir lokaumferðina var KA í 5. sæti með 29 stig og gat endað í 4.-8. sæti en framundan var útileikur gegn ÍBV sem var að berjast fyrir lífi sínu. Eitthvað virtist KA-liðið hinsvegar utan við sig því búningataska liðsins varð eftir á Akureyri og þurfti því að fá varabúninga Eyjaliðsins lánaða í leiknum. Hinn ungi markvörður KA, Aron Dagur Birnuson, fékk tækifærið í byrjunarliðinu og lék því sinn fyrsta leik í efstu deild. En þetta átti ekki að vera okkar dagur og Eyjamenn unnu sannfærandi 3-0 sigur en Guðmann Þórisson fyrirliði fékk rautt spjald í stöðunni 1-0.
KA lauk því keppni í 7. sæti deildarinnar en með sigri hefði 4. sætið orðið niðurstaðan. Það var þó ekki hægt annað en að gleðjast yfir sumrinu, liðið sem var nýliði spilaði oft á tíðum frábæra knattspyrnu og hefði með smá heppni getað stolið Evrópusæti. Aldrei var nein hætta á falli og klárt mál að nú væri KA komið til að vera í deild þeirra bestu.
Hefði aðeins verið leikinn fyrri hálfleikur hefði KA orðið Íslandsmeistari en liðið var yfir í tíu af 22 leikjum sínum og var í jafnri stöðu í átta leikjum. Markatalan fyrir hlé var 20-11 en ekkert lið í deildinni skoraði fleiri mörk í fyrri hálfleik. Annar jákvæður punktur var hve margir áhorfendur mættu á heimaleiki KA en að meðaltali mættu 875 á hvern leik sem var fimmta hæsta aðsókn sumarsins.
Ásgeir, Emil, Hallgrímur og Elfar voru verðlaunaðir á lokahófi knattspyrnudeildarinnar
Á lokahófi knattspyrnudeildarinnar var Hallgrímur Mar Steingrímsson valinn besti leikmaður tímabilsins en hann var stoðsendingahæstur í deildinni allri með 9 stoðsendingar auk þess að skora sjálfur 7 mörk. Hallgrímur var einnig valinn bestur af Schiöthurum stuðningsmannasveit KA. Schiötharar stóðu þétt við bakið á liðinu og voru valdir bestu stuðningsmenn deildarinnar bæði í fyrri og seinni umferðinni.
Efnilegasti leikmaður liðsins var valinn Ásgeir Sigurgeirsson en markahæstu leikmenn liðsins í Pepsi deildinni voru Elfar Árni Aðalsteinsson og Emil Sigvardsen Lyng en þeir skoruðu báðir 9 mörk. Elfar Árni skoraði einnig eitt mark í bikarkeppninni og endaði því með 10 mörk yfir sumarið.