Nökkvi markakóngur og bestur í Bestu deildinni

Fótbolti

Nökkvi Þeyr Þórisson er markakóngur Bestu deildarinnar en það varð ljóst eftir lokaumferð deildarinnar í gær. Nökkvi sem átti stórbrotið sumar með KA gekk til liðs við Belgíska liðið Beerschot þegar enn voru sjö umferðir eftir af tímabilinu, þrátt fyrir það tókst engum að skáka Nökkva og er hann því markakóngur.

Þetta er í fyrsta skiptið í sögunni sem að leikmaður KA endar sem markakóngur efstu deildar í knattspyrnu. Auk þess var það kunngjört í gær að Nökkvi hefði verið valinn besti leikmaður Bestu deildarinnar en það var valið af leikmönnum deildarinnar og er hann ansi vel að heiðrinum kominn.

Þetta er í annað skiptið sem leikmaður KA er valinn besti leikmaður efstu deildar en Þorvaldur Örlygsson var kjörinn besti leikmaðurinn sumarið 1989 þegar KA varð Íslandsmeistari í Hörpudeild.

Þess má til gamans geta að þetta er í þriðja skiptið sem Akureyri á markakóng í efstu deild en árið 1970 varð Hermann Gunnarsson markakóngur með liði ÍBA með 14 mörk og árið 1968 varð Kári Árnason úr ÍBA markahæstur með 8 mörk ásamt þremur öðrum leikmönnum.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband