Nökkvi er íþróttakarl Akureyrar 2022!

Almennt | Fótbolti | Handbolti | Blak

Nökkvi Þeyr Þórisson var í kvöld kjörinn íþróttakarl Akureyrar fyrir árið 2022 og er þetta annað árið í röð sem að íþróttakarl ársins kemur úr röðum knattspyrnudeildar KA en Brynjar Ingi Bjarnason varð efstur í kjörinu fyrir árið 2021.

Nökkvi átti heldur betur ógleymanlegt ár er hann endaði sem markakóngur Bestu deildarinnar og er það í fyrsta skiptið sem KA á markakóng efstudeildar í knattspyrnu. Þá var hann valinn besti leikmaður deildarinnar og var á dögunum valinn íþróttakarl KA fyrir árið 2022.

Hann var markakóngur Bestudeildar eins og áður segir þrátt fyrir að missa af síðustu 7 leikjum tímabilsins eftir að draumur hans um atvinnumensku rættist er hann gékk til liðs við KV Beerschot í Belgíu í byrjun september. Þá lék hann sinn fyrsta A-landsleik á dögunum er hann var í byrjunarliði Íslands gegn Eistlandi.

Nökkvi lagði gríðarlega mikla aukavinnu á sig á keppnistímabilinu sem skilað sér vel inn á vellinum og í lok tímabilsins var hann valinn í lið ársins hjá öllum fjölmiðlum sem deildinni sjálfri. Nökkvi var markahæsti leikmaðurinn, besti sóknarmaðurinn og að endingu var hann líka valinn besti leikmaður deildarinnar bæði af sérfræðingum sem og leikmönnum og þjálfurum deildarinnar. Nökkvi hefur síðan haldið áfram að blómstra á haustmánuðum í Belgiu þar sem hann spilar alla leiki og hefur haldið áfram að standa sig frábærlega. Sannarlega frábært ár hjá þessum öfluga leikmanni.

Alls átti KA 9 fulltrúa í efstu tíu sætunum í kjöri íþróttakarls og íþróttakonu Akureyrar og erum við ákaflega stolt af okkar frábæru fulltrúum.

Jóna Margrét Arnarsdóttir (blak), Rakel Sara Elvarsdóttir (handbolti), Rut Arnfjörð Jónsdóttir (handbolti) og Valdís Kapitola Þorvarðardóttir (blak) voru tilnefndar til íþróttakonu Akureyrar og varð Rut þriðja í kjörinu og Jóna Margrét fjórða.

Alex Cambray Orrason (lyftingar), Ívar Örn Árnason (fótbolti), Miguel Mateo Castrillo (blak), Nökkvi Þeyr Þórisson (fótbolti) og Óðinn Þór Ríkharðsson (handbolti) voru tilnefndir til íþróttakarls Akureyrar. Óðinn varð þriðji í kjörinu og Ívar Örn varð fjórði.

Hjólreiðakonan Hafdís Sigurðardóttir varð hlutskörpust kvennamegin og óskum við henni til hamingju með heiðurinn.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband