Mögnuð staða KA fyrir síðari hluta sumars

Fótbolti
Mögnuð staða KA fyrir síðari hluta sumars
Hrikalega spennandi tímar framundan! (mynd: EBF)

Það er heldur betur stór vika framundan í fótboltanum hjá okkur í KA en á morgun, sunnudag, mætir KA liði FH í Kaplakrika í 16. umferð Bestu deildar karla og viku síðar tekur KA á móti ÍA í 17. umferð deildarinnar. Þar á milli tekur KA á móti Ægi í 8-liða úrslitum Mjólkurbikarsins á miðvikudaginn.

Það er í raun ótrúlegt að hugsa til þess hve gríðarleg uppbygging hefur átt sér stað hjá okkur KA-mönnum undanfarin ár og kannski auðvelt að gleyma því hve stutt er síðan við vorum í allt annarri baráttu en toppbaráttu í efstu deild. Það er því ansi góð ástæða til að staldra aðeins við og rýna í þá stöðu sem félagið er í um þessar mundir.


KA tryggði sér sæti í deild þeirra bestu sumarið 2016 með sigri í Inkassodeildinni

Sumarið 2016 tryggði félagið sér loksins aftur sæti í efstu deild eftir 12 ára baráttu í næstefstu deild. Það reynist nýliðum oft þrautin þyngri að verja sæti sitt í efstu deild en eftir að félagið fór aftur upp í deild þeirra bestu hefur liðið aldrei verið nálægt því að missa sæti sitt í deildinni.

Aðeins sex árum síðar erum við svo sannarlega búin að stimpla okkur inn sem stöðugt efstu deildar lið og gott betur en það. Þetta sumar hefur farið frábærlega af stað hjá okkur KA-mönnum en strákarnir okkar eru í 3. sæti Bestu deildarinnar eftir 15 leiki með 27 stig sem er jöfnun á besta árangri félagsins eftir þennan leikjafjölda í efstu deild.

Íslandsmeistaralið KA 1989
Íslandsmeistarar KA 1989. Fremri röð frá vinstri: Árni Þór Freysteinsson, Gauti Laxdal, Jónas Þór Guðmundson, Erlingur Kristjánsson, Haukur Bragason, Ægir Dagsson, Stefán S. Ólafsson og Þorvaldur Örlygsson. Aftari röð frá vinstri: Guðjón Þórðarson þjálfari, Árni Hermannsson, Halldór Halldórsson, Bjarni Jónsson, Steingrímur Birgisson, Halldór Kristinsson, Jón Kristjánsson, Örn Viðar Arnarson, Anthony Karl Gregory, Jón Grétar Jónsson, Ómar Torfason sjúkraþjálfari og Stefán Gunnlaugsson formaður knattspyrnudeildar. Á myndina vantar þá Ormarr Örlygsson, Arnar Frey Jónsson og Arnar Bjarnason.

Íslandsmeistarasumarið árið 1989 voru leiknar 18 umferðir í deildinni og var KA á toppi deildarinnar með 27 stig fyrir síðustu þrjá leikina. Liðið hafði gert 24 mörk og fengið á sig 13 en í ár hafa strákarnir gert 28 mörk og fengið á sig 18 á leið sinni að þessum 27 stigum.

KA tryggði sér svo titilinn árið 1989 með tveimur sigrum og jafntefli í síðustu þremur leikjum sínum og lauk því keppni með 34 stig í efsta sæti Hörpudeildarinnar.

Keppt er þó með öðru sniði í ár en þegar liðin hafa leikið 22 leiki verður deildinni skipt upp í efri og neðri hluta þar sem efstu sex liðin mætast einu sinni innbyrðis og sama með neðri sex liðin. Það verða því leiknir 27 leikir í Bestu deildinni í sumar og afar spennandi að við KA-menn séum í þeirri baráttu sem við erum í þessa dagana við toppinn.


Strákarnir hafa verið magnaðir í sumar

KA leikur í sumar sitt 21. sumar í efstu deild frá því að KA fór aftur að leika undir eigin merkjum sumarið 1975. Lengst hefur félagið verið samfleitt sex ár í efstu deild en það gerðist á árunum 1987-1992 og aftur nú 2017-2022. Það er því ansi líklegt að KA bæti met sitt yfir lengstu veru í efstu deild með því að halda sæti sínu í deildinni á núverandi sumri.

Þá slógu strákarnir met í sumar er þeir unnu 0-5 útisigur á Leiknismönnum í Breiðholtinu en það er stærsti útisigur KA í efstu deild. Eldra met var fjögurra marka sigur en KA vann 0-4 sigur á Völsung sumarið 1988 og 1-5 sigur á Víking sumarið 1989. Stærsti sigur KA í efstu deild er hinsvegar 6-0 heimasigur á Víði sumarið 1987.


Í sumar keppast þrjú íslensk félög um sæti í Evrópukeppni en efstu tvö lið Bestu deildarinnar fá Evrópusæti auk liðsins sem stendur uppi sem Mjólkurbikarmeistari. Ef lið í fyrsta eða öðru sæti deildarinnar hampar Bikarmeistaratitlinum fær liðið í 3. sæti deildarinnar síðasta Evrópusætið.

Efstu þrjú lið deildarinnar, Breiðablik, Víkingur og KA eru öll enn í pottinum í bikarnum og því gæti vel farið að þriðja sæti deildarinnar gefi Evrópusæti. Það er því heldur betur spennandi barátta framundan hjá okkur KA-mönnum bæði í deild og bikar.


KA lagði stórlið CSKA Sofia í fyrsta Evrópuleik sínum sumarið 1990

KA hefur tvívegis tryggt sér þátttökurétt í Evrópukeppni í fótboltanum en fyrst gerðist það með Íslandsmeistaratitlinum sumarið 1989. Sumarið 1990 lék KA því í Evrópukeppni meistaraliða og mætti þar stórliði CSKA Sofia frá Búlgaríu. KA liðið gerði sér lítið fyrir og vann 1-0 sigur í fyrri leik liðanna á Akureyrarvelli með marki Hafsteins Jakobssonar. Það dugði því miður ekki en CSKA vann síðari leikinn 3-0 og fór því áfram á kostnað KA.

Þorvaldur Makan fagnar gegn Tuzla
Þorvaldur Makan fagnar marki sínu gegn Sloboda Tuzla á Akureyrarvelli

Nýliðar KA áttu frábært sumar í efstu deild sumarið 2002 þar sem liðið endaði í 4. sæti og tryggði sér þar með þátttöku í Intertoto keppninni sumarið 2003. Þar mætti KA liði FK Sloboda Tuzla frá Bosníu. Liðin gerðu 1-1 jafntefli í báðum leikjum þar sem Hreinn Hringsson og Þorvaldur Makan Sigbjörnsson gerðu mörk KA og fór einvígið því í vítaspyrnukeppni þar sem Tuzla fór með sigur af hólmi.

Hvort að KA nái að tryggja sér sæti í Evrópukeppni í sumar verður að koma í ljós. Það er ekki langt síðan að við vorum í næstefstu deild og gátum ekki dreymt um að vera í þeirri stöðu sem við erum í dag. Ekki nóg með að það séu gríðarlega spennandi tímar í gangi innan vallar að þá eru draumar okkar um glæsilega keppnis- og æfingaaðstöðu á okkar svæði komnir vel á veg og nú þegar allt önnur ásýnd á KA-svæðinu en við höfum þekkt undanfarna áratugi.


Það er svo sannarlega gaman að vera í KA!

Það er oft auðvelt að gleyma sér í velgengni en ég hvet ykkur KA-menn til að njóta þess til fulls að við séum með lið í allra fremstu röð. Það er langt í frá sjálfsagður hlutur og það sem gerir okkar stöðu svo skemmtilega er hve gríðarlega margir einstaklingar eiga hlut í því hjá okkur í KA. Fjöldi sjálfboðaliða sem koma að okkar starfi er í raun ótrúlegur og að ég tel algjörlega einstakt.

Ég hvet ykkur því eindregið til að mæta á alla þá leiki sem eftir eru í sumar og að þið látið vel í ykkur heyra. Stuðningsmenn KA eru þeir allra bestu á landinu og okkar einkenni er jákvæður og uppbyggjandi stuðningur og er ég handviss að með áframhaldandi jákvæðni höldum við áfram að stíga stór skref fram á við.

Með KA-kveðju
Ágúst Stefánsson


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband