Mikilvægur sigur KA/Þór í slag nýliðanna

Handbolti
Mikilvægur sigur KA/Þór í slag nýliðanna
Katrín var öflug í kvöld (mynd: Þórir Tryggva)

KA/Þór tók á móti HK í uppgjöri nýliðanna í Olís deild kvenna í kvöld. Leikurinn var skólabókardæmi um fjögurra stiga leik en fyrir leikinn var HK í 7. sætinu með 7 stig en KA/Þór í 5. sæti með 11 stig. Liðið sem endar í 7. sæti þarf að fara í umspil um að halda sæti sínu í deildinni og mikilvægt að sleppa við það.

Bæði lið eru þekkt fyrir öflugar varnir og góða markvörslu og mátti búast við hörkuleik. Gestirnir leiddu í 0-1 og 1-2 en þá kom flottur kafli hjá okkar liði sem breytti stöðunni í 5-2. Eftir það höfðu stelpurnar gott tak á leiknum og munurinn 2-4 mörk út fyrri hálfleikinn.

Staðan í hálfleik var 11-8 og munaði þar miklu að Olgica Andrijasevic átti enn einn stórleikinn í marki KA/Þórs en hún varði 11 skot í fyrri hálfleiknum, þar af tvö vítaköst og eitt víti að auki fór í stöng hjá gestunum.

Tímalína fyrri hálfleiks

HK er þekkt fyrir að leggja ekki árar í bát en liðið vann ótrúlegan sigur í fyrri leik liðanna þar sem KA/Þór skoraði ekki síðustu 17 mínútur leiksins og HK sneri leiknum sér í vil og því nóg eftir þó staðan væri góð í hléinu.

Er um 10 mínútur voru búnar af síðari hálfleik var staðan 14-10 og mikið jafnræði með liðunum. Svo mikið reyndar að þau tóku slæma kaflann á sama tíma og úr varð ótrúlegur kafli. KA/Þór skoraði ekki mark í rúmar 14 mínútur en gestirnir gerðu "betur" og gerðu ekki mark í rúmar 17 mínútur.

Lið HK rankaði betur við sér eftir þennan ótrúlega kafla og minnkuðu muninn niður í tvö mörk og enn sex mínútur eftir af leiknum. Sem betur fer náðu stelpurnar okkar aftur áttum og tókst að halda forskotinu í 2-3 mörkum og 19-17 sigur staðreynd er flautað var til leiksloka.

Tímalína seinni hálfleiks

Gríðarlega mikilvægur sigur í hús og ljóst að KA/Þór getur, í bili að minnsta kosti, hætt að hugsa um að halda sæti sínu í deildinni og farið að einbeita sér að fullu að því að reyna að stela sæti í úrslitakeppninni. Nú þegar 8 umferðir eru eftir af deildinni er liðið með 13 stig í 5. sætinu og er aðeins tveimur stigum frá ÍBV sem situr í 4. sætinu og þremur frá Haukum sem eru í 3. sætinu.

Það verður þó ýmislegt að batna frá leiknum í kvöld ef stelpurnar ætla að taka skrefið fram á við en sóknarleikurinn var alls ekki nægilega góður og gerði liðið alltof mörg mistök. Skráðir eru 22 tapaðir boltar hjá liðinu í leiknum og gegn öflugra sóknarliði þá hefði það kostað ansi mörg ódýr mörk í bakið.

Hinsvegar þarf að hrósa varnarvinnunni og markvörslunni í dag enda ekki oft sem lið fá aðeins 17 mörk á sig í heilum leik. Næsti leikur verður hinsvegar ansi ólíkur leik kvöldsins því næst sækja stelpurnar Íslandsmeistara Fram heim og eftir sigur okkar liðs á Fram fyrr í vetur er ljóst að við fáum ekkert gefið í þeim leik.

Mörk KA/Þórs: Katrín Vilhjálmsdóttir 7 mörk, Sólveig Lára Kristjánsdóttir 4, Ásdís Sigurðardóttir 2, Ásdís Guðmundsdóttir 2, Anna Þyrí Halldórsdóttir 1, Hulda Bryndís Tryggvadóttir 1, Rakel Sara Elvarsdóttir 1 og Martha Hermannsdóttir 1 mark úr vítakasti.

Olgica Andrijasevic varði 19 skot í markinu sem gerir um 53% markvörslu og varði hún þar af 2 vítaköst í leiknum.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband