Midtjylland knattspyrnuskólinn á KA-svæðinu

Fótbolti
Midtjylland knattspyrnuskólinn á KA-svæðinu
Ekki missa af þessu frábæra tækifæri!

FC Midtjylland knattspyrnuskólinn verður 14.-17. júlí á KA-svæðinu

KA og danska stórliðið FC Midtjylland hafa undirritað samning þess efnis að haldinn verði knattspyrnuskóli fyrir stráka og stelpur í 3.-6. flokki alls staðar að af landinu. Aðalþjálfarar úr akademíu FC Midtjylland munu þjálfa í skólanum og þeim til halds og trausts verða færir íslenskir þjálfarar.

Skólinn verður frá 10:00-14:30 alla fjóra dagana og inniheldur hann samtals átta fótboltaæfingar í þeim stíl sem dönsku þjálfararnir þjálfa í sínu heimalandi. Skólinn kostar 24.900 kr. en fyrir utan æfingarnar fá iðkendurnir heitan mat í hádeginu, létt millimál og flottan æfingabol merktum FCM. Einnig verða tveir flottir fyrirlestrar á vegum KA sem verða sérsniðnir að aldri iðkenda. Fyrirlestrarnir verða haldnir í litla fundarsalnum nyrst í KA heimilinu.

Allir iðkendur æfa tvisvar á dag, 75 mínútur í senn á gervigrasinu og grassvæðinu fyrir utan KA-Heimilið. Hádegismatur fer svo fram klukkan 12:00 í matsal Lundarskóla.

Í knattspyrnuskólanum verður lögð áhersla á tækni, sendingar og skot. Iðkendurnir fá mjög góðar og fjölbreyttar æfingar undir góðri leiðsögn hæfra þjálfara.

FCM urðu danskir meistarar á síðasta tímabili og kepptu því í Meistaradeild Evrópu á þessari leiktíð þar sem þeir léku meðal annars við Liverpool. Félagið er þekkt fyrir að vera með eitt öflugasta yngriflokkastarf í Skandinavíu og eru margfaldir danskir meistarar í yngri flokkum.

Þessi knattpyrnuskóli er tilkominn vegna samstarfs KA og FCM sem komst á laggirnar árið 2019. Sama ár sendu KA átta efnilega stráka til æfinga hjá félaginu í Danmörku og heppnaðist sú ferð einstaklega vel. Bæði félögin eru ánægð með samstarfið og er stefnan að KA fái að senda leikmenn reglulega til reynslu til Danmerkur ásamt því að FCM haldi hér knattspyrnuskóla næstu árin. Hver veit nema að þeir sjái hér duglega og efnilega iðkendur sem eiga sér framtíð í þessu firnasterka danska liði.

Skráning í knattspyrnuskólann er þegar hafin og er opin fram til 1. júlí. Hún fer fram á www.sportabler.com/shop/KA/.

Frekari upplýsingar veitir Aðalbjörn Hannesson yfirþjálfari yngri flokka KA og sendast fyrirspurnir á netfangið alli@ka.is.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband