Flýtilyklar
Martha í goðsagnarhöll handboltans
Martha Hermannsdóttir var í gær tekin inn í goðsagnarhöll handknattleiksdeildar KA og er hún fyrst í sögu kvennaliðs KA/Þórs til að vera tekin inn í höllina góðu. Martha var vígð inn fyrir leik KA/Þórs og Víkings í gær en stelpurnar hömpuðu sjálfum Deildarmeistaratitlinum að leik loknum.
Martha er gríðarlega vel að þessum heiðri komin en Martha er leikjahæsti leikmaðurinn í sögu KA/Þórs með 313 keppnisleiki í deildarkeppni, bikar og evrópu. Megnið af þeim leikjum lék hún sem fyrirliði liðsins en Martha er skilgreiningin á leiðtoga bæði innan sem utan vallar.
Ekki nóg með að gefa allt af sér innan vallar þá hefur Martha einnig gefið gríðarlega af sér í starfinu í kringum kvennahandboltann. Meiri jaxl er erfitt að finna og dró hún ítrekað fram skóna á ný til að aðstoða lið KA/Þórs.
Hún fór fyrir liði KA/Þór sem fyrirliði er liðið skrifaði söguna upp á nýtt er stelpurnar urðu Meistarar Meistaranna, Deildarmeistarar, Íslandsmeistarar og að lokum Bikarmeistarar tímabilið 2020-2021. Martha var kjörin mikilvægasti leikmaðurinn í úrslitakeppninni.
Martha ásamt Guðrúnu og Klöru sem léku saman upp alla yngriflokka (mynd: Egill Bjarni)
Martha hefur verið brautryðjandi í kvennastarfi KA/Þórs og heldur því áfram með því að vera sú fyrsta sem er tekin inn í goðsagnarhöllina. Það var vel við hæfi að þær Guðrún Linda Guðmundsdóttir og Klara Fanney Stefánsdóttir stjórnarmenn KA/Þórs hafi veitt henni þessa heiðursviðurkenningu en saman léku þær upp alla yngriflokka sem og í meistaraflokk.
Samherji hafði veg og vanda að inngöngu Mörthu í goðsagnarhöllina en jafnframt mun fyrirtækið styrkja starf KA/Þórs og styðja við áframhaldandi uppbyggingu handboltans á Akureyri.
"Við erum afar stolt af því að heiðra Mörthu fyrir hennar framúrskarandi framlag til handboltans og samfélagsins á Akureyri," segir Dagný Linda Kristjánsdóttir stjórnarmaður Samherja. "Jafnframt viljum við styðja áframhaldandi starf KA/Þór og leggja okkar af mörkum til að veita yngri flokkum félagsins góðar fyrirmyndir."
Styrkur Samherja mun nýtast til að styrkja liðið í komandi baráttu þeirra í deild þeirra bestu á næsta ári. "Við erum mjög þakklát Samherja fyrir þennan stuðning," segir Stefán Guðnason, formaður kvennaráðs KA/Þórs. "Það skiptir miklu máli að fyrirtæki í heimabyggð styðji við íþróttastarf sem auðvitað hefur jákvæð áhrif á samfélagið. Það er vel við hæfi að tilkynna þetta góða samstarf á sama tíma og við heiðrum Mörthu sem er algjörlega ómetanleg í sögu KA/Þórs."
Martha er tíundi aðilinn sem er tekinn inn í goðsagnarhöllina en fyrir eru þar þeir Alfreð Gíslason, Arnór Atlason, Erlingur Kristjánsson, Guðjón Valur Sigurðsson, Jóhannes Gunnar Bjarnason, Patrekur Jóhannesson, Róbert Julian Duranona, Sverre Andreas Jakobsson og Valdimar Grímsson.