Madeline Gotta til liðs við Þór/KA

Fótbolti
Madeline Gotta til liðs við Þór/KA
Velkomin norður! (mynd: Haraldur Ingólfsson)

Madeline Gotta samdi í dag við Þór/KA og er unnið að því að klára formsatriðin fyrir félagaskipti hennar norður til Akureyrar. Madeline sem er fædd árið 1997 er frá San Diego í Kaliforníu og hefur spilað í bandaríska háskólaboltanum undanfarin ár.

Á lokaárinu sínu í háskólaboltanum vestra spilaði hún alla 19 leiki liðs síns, Zags frá Gonzaga-háskólanum í Spokane í Washington-ríki. Hún var markahæst í liðinu með sjö mörk og átti að auki fjórar stoðsendingar. Madeline, eða Maddy, er frá San Diego í Kaliforniu.

Vinkonurnar töluðu fallega um deildina og landið

„Ég er mjög spennt að vera á Íslandi í sumar og spila fyrir Þór/KA. Nokkrar af vinkonum mínum hafa spilað á Íslandi og hafa talað svo fallega um deildina og landið,“ segir Maddy þegar hún er spurð um hvernig henni líst á að vera komin til Íslands til að spila í Pepsi Max-deildinni. „Ég vona að ég geti lagt mikið fram til liðsins og hjálpað Þór/KA að vinna eins marga leiki og mögulegt er og vonandi enda á toppnum.“

Hún kveðst hafa byrjað að æfa fótbolta þegar hún var sex ára, fyrir sextán árum. „Ég valdi fótboltann af því að ég finn fyrir mestu sjálfstrausti þegar ég er á vellinum og það gefur mér eitthvað til að vinna að í daglegu lífi. Fótboltinn hefur verið hluti af því hver ég er eins lengi og ég man eftir mér svo það var ekki erfitt þegar ég þurfti að velja mér íþrótt.“

Áfram stefnt á toppbaráttu

Andri Hjörvar Albertsson, þjálfari Þórs/KA, kveðst spenntur að fá Maddy til liðs við sterkan og áhugaverðan leikmannahóp Þórs/KA. „Ég hef sagt það áður að ég er skotinn í þessum leikmannahópi sem við höfum. Við munum tefla fram mörgum ungum leikmönnum sem uppaldar eru hjá félögunum og sumar þeirra að stíga sín fyrstu skref í efstu deild, innan um reyndari leikmenn eins og Örnu Sif og Láru Einars, svo dæmi sé tekið,“ segir Andri. „Með því að bæta Maddy við þennan hóp verðum við vonandi enn beittari fram á við og ég bíð bara spenntur eftir að mótið hefjist. Þrátt fyrir miklar breytingar á leikmannahópnum undanfarin tvö ár hefur metnaðurinn ekkert minnkað hjá okkur. Við viljum og ætlum okkur að vera í toppbaráttu," segir Andri Hjörvar Albertsson, þjálfari Þórs/KA. 


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband