KA vann 6-0 stórsigur á KF (myndband)

Fótbolti

KA lék sinn fyrsta leik í Kjarnfæðismótinu í gær er liðið mætti KF í Boganum. KF hafði leikið einn leik þar sem liðið vann 2-1 sigur á Þór 2 en það varð fljótt ljóst að gestirnir ættu lítið í sterkt lið KA sem mætti af krafti inn í leikinn.

Staðan var strax orðin 1-0 eftir um fimm mínútna leik þegar Steinþór Freyr Þorsteinsson kom KA yfir eftir laglega sókn. Ásgeir Sigurgeirsson tvöfaldaði svo forystuna eftir um kortérs leik og ekki leið á löngu uns staðan var orðin 3-0 er Steinþór Freyr gerði sitt annað mark í leiknum.


Leikurinn var í beinni útsendingu á KA-TV og er hægt að sjá mörkin hér

Yfirburðir KA voru miklir í leiknum en fleiri urðu mörkin ekki í fyrri hálfleik þrátt fyrir nokkrar ágætis tilraunir. Ásgeir bætti við fjórða markinu á 50. mínútu og strax í kjölfarið fullkomnaði hann þrennu sína og úrslitin heldur betur ráðin.

Nökkvi Þeyr Þórisson gerði svo lokamark leiksins á 70. mínútu eftir frábært spil og afar sannfærandi sigur KA staðreynd. KA var alls 73% með boltann í leiknum og átti 18 marktilraunir en gestirnir náðu tveimur skotum að marki okkar liðs.

Næsti leikur KA er á föstudaginn er strákarnir mæta Þór 2. Þar á eftir leikur liðið gegn Dalvík/Reyni sem er lokaleikur KA í riðlakeppninni. Sigri liðið riðilinn fer það í úrslitaleik mótsins sem áætlað er að fari fram í apríl en í millitíðinni verður leikið í Lengjubikarnum.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband