KA/Þór lenti á vegg gegn Valskonum

Handbolti
KA/Þór lenti á vegg gegn Valskonum
Erfitt í gær hjá stelpunum (mynd: Þórir Tryggva)

Það var ansi erfitt verkefni sem beið KA/Þórs í Olís deild kvenna í gær er liðið sótti topplið Vals heim. Valskonur sem nýverið hömpuðu Bikarmeistaratitlinum hafa spilað gríðarlega vel að undanförnu og hafa sýnt það að þær eru besta lið landsins um þessar mundir og þá sérstaklega er varðar varnarleik.

Jónatan Magnússon þjálfari KA/Þórs ákvað að bregða á það ráð að leika með aukamann í sókninni til að opna betur firnasterka vörn heimastúlkna en til að það gangi upp má liðið ekki missa boltann klaufalega og að klára sóknirnar skynsamlega.

Hinsvegar gekk það ekki upp að þessu sinni og lið Vals refsaði grimmilega, staðan var fljótt orðin 4-0 og þegar um 20 mínútur voru búnar af leiknum leiddu heimastúlkur 11-4. Hálfleikstölur voru 16-6 og leikurinn í raun búinn.

Aðalsmerki okkar liðs er þó að stelpurnar gefast aldrei upp og halda alltaf áfram og því var gaman að sjá að stelpurnar gerðu sitt besta í þeim síðari til að laga stöðuna og úr varð allt annar leikur. Lokatölur urðu 30-18 og jákvætt að sjá stelpurnar ná að stilla leik sinn betur auk þess sem flestir leikmenn liðsins fengu að spreyta sig.

Stelpurnar hafa sýnt frábæra frammistöðu í vetur og staðið í öllum leikjum vetrarins fyrir utan að það virðist sem að liðið eigi lítið í leik Vals. Liðin hafa mæst þrisvar í vetur og alltaf hefur sigur Vals verið mjög sannfærandi.

Nú eru þrjár umferðir eftir af deildinni og lítur út fyrir að stelpurnar endi í 5. sæti deildarinnar sem er frábær árangur enda var liðinu spáð neðsta sætinu af flestum sérfræðingum fyrir veturinn. Það þarf hreinlega allt að ganga upp til að komast í úrslitakeppnina en stelpurnar eru fjórum stigum á eftir ÍBV og þurfa að enda með fleiri stig en ÍBV til að komast í 4. sætið.

Næsti leikur er heimaleikur gegn ógnarsterku liði Fram og er hann klukkan 18:00 á föstudaginn í KA-Heimilinu. Stelpurnar unnu fyrri heimaleik sinn gegn Fram í vetur og þurfa á þínum stuðning til að endurtaka þann magnaða leik!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband