KA sótti stig á Selfossi á lokasekúndunum!

Handbolti
KA sótti stig á Selfossi á lokasekúndunum!
Aftur tryggir Tarik stig! (mynd: Þórir Tryggva)

Það var ansi krefjandi verkefnið sem beið handknattleiksliðs KA í Olís deildinni í dag þegar liðið sótti Selfyssinga. Selfoss hefur leikið frábærlega á tímabilinu og var án taps á toppi deildarinnar auk þess sem liðið hefur komist tvívegis áfram í Evrópukeppni. KA liðið hefur hinsvegar ekki verið nægilega öflugt á útivelli og því ekki margir sem reiknuðu með öðru en heimasigri í dag.

Það var þó ljóst strax frá fyrstu mínútu að KA liðið ætlaði að selja sig dýrt og strákarnir hófu leikinn af miklum krafti. Fyrstu þrjú mörk leiksins voru gul og blá og í kjölfarið stýrði KA liðið leiknum. Mestur varð munurinn fjögur mörk í stöðunni 5-9 og spilamennska okkar liðs algjörlega til fyrirmyndar.

Selfyssingar minnkuðu muninn í kjölfarið í eitt mark en góður lokakafli okkar liðs tryggði að hálfleikstölur voru 10-13. Það var þó vitað að hið geysisterka lið heimamanna myndi koma með áhlaup eftir hlé.

Munurinn hélst í 2-3 mörkum fyrstu mínútur síðari hálfleiksins en í stöðunni 14-16 kom slæmur kafli og heimamenn gengu á lagið. Er 20 mínútur lifðu leiks voru Selfyssingar komnir yfir í 17-16 og í kjölfarið komust þeir í 25-22 og um 8 mínútur til leiksloka.

En KA liðið brást vel við, breytti um varnarafbrigði og kom Tarik Kasumovic betur inn í leikinn en eftir flotta byrjun á leiknum hafði gengið erfiðlega að opna fyrir Tarik í þeim síðari. Strákarnir skoruðu næstu fjögur mörk og leiddu skyndilega 25-26. Heimamenn jöfnuðu metin skömmu síðar og spennan í algleymingi.

Allan Norðberg skoraði sirkusmark sem var dæmt af þar sem dómarar leiksins mátu það sem svo að hann væri lentur. Haukur Þrastarson skoraði svo fyrir Selfoss sem leiddi því 27-26 og aðeins um 20 sekúndur til leiksloka.

En rétt eins og í síðasta leik þá var það Tarik Kasumovic sem skoraði á lokasekúndunum og jafnaði metin í 27-27. Selfyssingar geystust í átt að miðjunni og þrumuðu að marki en Jón Heiðar Sigurðsson var búinn að taka sér stöðu við miðjuhringinn og varð fyrir skotinu. Í kjölfarið varð smá rekistefna en á endanum ákváðu dómarar leiksins að athafast ekkert og 27-27 því lokatölur og KA liðið sótti því gríðarlega mikilvægt stig á erfiðum útivelli.

Það var hreinlega frábært að fylgjast með okkar liði í dag, baráttan skein úr augum manna og liðið var að leika fantagóðan handbolta. Þetta var líklega næstbesti leikur liðsins í vetur og ennþá jákvæðara að hann komi á útivelli þar sem frammistaðan hefur ekki verið nægilega góð til þessa og að það gefi stig gegn líklega besta liði landsins.

Allir leikmenn stóðu fyrir sínu í dag en sérstaklega þarf þó að nefna skytturnar okkar þá Áka Egilsnes og Tarik Kasumovic sem skoruðu 9 og 8 mörk í leiknum. Það er allavega ljóst að ef við náum fleiri svona leikjum á útivelli í vetur þá getum við farið að búast við að það detti inn fleiri stig í hús hjá okkur.

Mörk KA: Áki Egilsnes 9 (3 úr vítum), Tarik Kasumovic 8, Dagur Gautason 4, Allan Nordberg 2, Daníel Matthíasson 2, Andri Snær Stefánsson 1 (úr víti) og Sigþór Gunnar Jónsson 1 mark.
Jovan Kukobat stóð í markinu og varði 11 skot. Svavar Ingi Sigmundsson kom inná og reyndi við eitt vítakast.

Mörk Selfoss: Árni Steinn Steinþórsson 7 (3 úr vítum), Haukur Þrastarson 6, Alexander Már Egan 4, Atli Ævar Ingólfsson 4, Elvar Örn Jónsson 3 og Hergeir Grímsson 3 mörk.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband