Flýtilyklar
KA sótti mikilvægan sigur í Mosó
KA sótti Aftureldingu heim í Olís deild karla í handboltanum í dag en leikurinn var gríðarlega mikilvægur fyrir bæði lið. KA liðið er bæði að berjast fyrir lífi sínu í deildinni en á sama tíma er liðið í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppninni. Fyrir leikinn voru aðeins 4 umferðir eftir af deildinni og fá stig eftir í pottinum.
Það sást strax að okkar lið var klárt í slaginn og voru strákarnir gríðarlega vel studdir af fjölmörgum KA mönnum sem höfðu lagt leið sína suður. Áður en upphafsflautið gall var ljóst að sigur var unninn í stúkunni og gaf það okkar liði mikinn kraft.
KA komst snemma í 1-5 og var hrein unun að fylgjast með varnarleik liðsins auk þess sem Jovan Kukobat stóð vel fyrir sínu í markinu. Mosfellingar komust betur í takt við leikinn en áfram leiddu strákarnir með fjórum mörkum og virtust hafa ansi gott tak á leiknum.
Staðan var 7-11 er um sex mínútur voru til hálfleiks en þá kom slæmur kafli og heimamenn jöfnuðu metin. Tarik Kasumovic sá hinsvegar til þess að KA leiddi 11-12 í hléinu en það hefði verið hrikalegt að leiða ekki í hálfleik eftir frábæra frammistöðu lengst af.
Síðari hálfleikur var svo næstum því fullkominn en Mosfellingum tókst aldrei að jafna metin. Staðan var 13-14 er tæpar 20 mínútur lifðu leiks og eftir það var aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi enda.
KA liðið komst í 13-19 og vann á endanum 22-26 sigur. Gríðarlega mikilvæg tvö stig í hús sem kemur liðinu lengra frá fallsæti og upp í úrslitakeppnissæti. Varnarleikur strákanna í dag var gjörsamlega stórkostlegur en Mosfellingar léku ansi oft með aukamann í sókninni en þrátt fyrir það gekk þeim illa að finna glufur á varnarleik okkar liðs.
Svo góður var varnarleikurinn að Jovan Kukobat markvörður var þriðji markahæstur í okkar liði þar sem hann skaut yfir allan völlinn í autt markið. Áki Egilsnes var hinsvegar markahæstur með 11 mörk og næstur kom Tarik Kasumovic með 9 en þeir félagar virtust vera nær óstöðvandi í dag. Jón Heiðar Sigurðsson, Andri Snær Stefánsson, Daníel Matthíasson og Dagur Gautason gerðu allir eitt mark.
Næsti leikur er heimaleikur gegn ÍBV í KA-Heimilinu laugardaginn 30. mars og ljóst að strákarnir eru nú í hörkubaráttu á að koma sér í úrslitakeppnina og klárt að við þurfum að fjölmenna á leikinn!