KA og Selfoss skildu jöfn eftir ótrúlegan leik

Almennt | Fótbolti
KA og Selfoss skildu jöfn eftir ótrúlegan leik
Mönnum var heitt í hamsi

Það var gríðarlega vel mætt í blíðvirði á KA-völlinn í gær þegar að KA og Selfoss gerðu 2-2 jafntefli í 1. deild karla. KA menn geta ekki unað vel við aðeins eitt stig úr þessum leik, enda voru þeir mun betri í leiknum ásamt því að skora tvö mörk sem dómari leiksins dæmdi af.

KA 2-2 Selfoss
1-0 Elfar Árni Aðalsteinsson 4. mín
1-1 Einar Ottó Antonsson 58. mín
2-1 Archange Nkumu 66. mín
2-2 Ingþór Björgvinsson 85. mín


Hér má sjá mörkin úr leiknum

Leikurinn var aðeins fjögurra mínútna gamall þegar að Húsvíkingurinn knái, Elfar Árni Aðalsteinsson, skoraði fyrsta mark KA. Þung pressa KA-manna í upphafi leiks skilaði boltanum í mark eftir klafs í teig gestanna. Pressa KA-manna minnkaði ekki við markið og fengu þeir gulklæddu nokkur dauðafæri til þess að tvöfalda forystuna áður en Ívar Orri Kristjánsson, slakur dómari leiksins, flautaði til hálfleiks.

Selfyssingar komu grimmir til leiks í síðari hálfleik án þess þó að skapa sér nein færi. KA-menn áttu sínar rispur en á 58. mínútu jafnaði fyrirliði Selfyssinga, Einar Ottó Aðalsteinsson metin eftir klaufagang í hreinsun úr teig KA. Við þetta mark settu KA-menn mikinn þunga á Selfyssinga og uppskáru mark 8 mínútum síðar þegar að Archange Nkumu kom KA í 2-1 eftir hornspyrnu. Ekkert benti til þess að Selfyssingar myndu ná að jafna á nýjan leik en aftur eftir klafs í teig KA náði Ingþór Björnsson að koma boltanum í markið og jafna metin, 2-2, á 85. mínútu. Rétt áður hafði Ívar Orri, dómari, dæmt mark af KA sem kom eftir fyrirgjöf og taldi Ívar að brotið hefði verið á markverði Selfyssinga.

KA menn sóttu án afláts síðustu mínúturnar og uppskáru mark í uppbótartíma. Ívar Orri dæmdi markið gott og gilt til að byrja með en breytti síðan ákvörðun sinni á óskiljanlegan hátt og dæmdi aukaspyrnu á KA. KA menn voru ekkert svakalega ánægðir með þessa ákvörðun og uppskáru tvö gul spjöld í mótmælum. Ívar flautaði svo leikinn af í kjölfarið. Lokatölur 2-2 og KA með 11 stig eftir 5 umferðir. KA er enn í öðru sæti en Þórsarar geta tekið það af okkur með sigri á HK í dag. 

Það sem er hægt að taka jákvætt út úr þessum leik er að gríðarlega var vel mætt af áhorfendum og að KA er enn ósigrað. Það er hinsvegar áhyggjuefni að hafa aðeins unnið einn af þremur heimaleikjum í deildinni það sem af er og fengið á sig 6 mörk á heimavelli.

Næsti leikur KA er gegn Þrótti og verður hann að öllum líkindum á sunnudaginn 14. júní í Reykjavík.

Sævar Geir Sigurjónsson tók meðfylgjandi myndir

 


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband