KA lagði Þór í vítakeppni (myndir)

Fótbolti
KA lagði Þór í vítakeppni (myndir)
Ívar hampar bikarnum góða (mynd: Egill Bjarni)

KA tók á móti nágrönnum sínum í Þór í úrslitaleik Kjarnafæðismótsins á KA-vellinum í gær. Liðin höfðu bæði unnið sannfærandi sigra í sínum riðli en riðlakeppninni lauk í upphafi febrúar og Akureyringar því búnir að bíða í þó nokkurn tíma eftir leiknum.

Bæði lið fóru varfærnislega inn í leikinn og var fyrri hálfleikur markalaus. Svo markalaus var hann að KA átti aðeins eitt skot á mark Þórsara en Þórsarar áttu ekki eina marktilraun í öllum hálfleiknum. Brynjar Ingi Bjarnason fór meiddur af velli eftir einungis 12 mínútna leik. Meiðslin eru þó ekki talin alvarleg en aðeins níu dagar eru í fyrsta leik sumarsins er KA sækir HK heim.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Egils Bjarna frá leiknum

Arnar Grétarsson þjálfari KA gerði alls sex breytingar í hálfleiknum og hafði hann því alls gert sjö breytingar frá byrjunarliðinu. Það var töluvert líf í upphafi síðari hálfleiks og voru það Þórsarar sem gerðu fyrsta mark leiksins á 49. mínútu þegar Jakob Snær Árnason skoraði með skoti fyrir utan teiginn.

Markið kveikti heldur betur í KA liðinu sem svaraði aðeins rétt rúmri mínútu síðar þegar Steinþór Freyr Þorsteinsson skoraði laglegt mark eftir gott spil KA liðsins og staðan því orðin 1-1. En aftur datt tempó leiksins niður og var afskaplega lítið um færi hjá báðum liðum. KA liðið stjórnaði ferðinni og var 74% með boltann en Þórsarar vörðust vel og gáfu fá færi á sér. Þórsarar hinsvegar sköpuðu sér ansi lítið og áttu að lokum aðeins eitt skot að marki sem dugði þó til 1-1 jafnteflis.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Sævars Geirs frá leiknum

Leikurinn fór því á endanum í vítaspyrnukeppni þar sem KA vann 4-2 sigur eftir fjórar umferðir. Andri Fannar Stefánsson, Sveinn Margeir Hauksson, Gunnar Örvar Stefánsson og Steinþór Már Auðunsson skoruðu úr sínum spyrnum en Þórsurum brást bogalistin tvívegis og KA því Kjarnafæðismótsmeistari í ár. KA hefur nú unnið mótið fjögur ár í röð.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband