Flýtilyklar
KA lagði Magna 2-0 (myndaveisla)
KA lauk þátt í Lengjubikarnum í gærkvöldi er liðið mætti Magna frá Grenivík. KA liðið hafði átt tvo slaka leiki í röð og átti því ekki lengur möguleika á að fara uppúr riðlinum.
Gestirnir frá Grenivík byrjuðu leikinn á að pressa okkar lið hátt upp á velli og þeir sköpuðu sér tvö fín færi sem þeim tókst ekki að nýta. Eftir það tókst strákunum að ná algjörri stjórn á vellinum og lið Magna féll afar aftarlega á völlinn og við tók þolinmæðisverk að finna leið í gegnum pakkann.
Sveinn Margeir Hauksson braut ísinn fyrir KA á 35. mínútu þegar hann tók laglega við langri sendingu fram frá Brynjari Inga Bjarnason og Sveinn skoraði með hnitmiðuðu skoti út við stöng. Sveinn lék lengst af í leiknum sem fremsti maður KA á vellinum og leysti þá stöðu með prýði.
Smelltu á myndina til að skoða myndaveislu Sævars Geirs frá leiknum
Staðan var 1-0 fyrir KA í leikhléinu og síðari hálfleikur spilaðist svipað og sá fyrri. KA réð algjörlega ferðinni en gekk afar illa að komast í gegnum öflugan varnarpakka Magnamanna. Í kringum 76. mínútu kom hinsvegar öflug pressa frá KA liðinu þar sem Gunnar Örvar Stefánsson náði hörkuskoti á markið sem var varið en boltinn datt svo til Brynjars Inga sem lék laglega með boltann, náði að snúa og kom boltanum í netið.
Staðan því orðin 2-0 og ljóst að KA liðið myndi fara með sigur af hólmi. Fleiri urðu mörkin ekki og strákunum tókst því að ljúka Lengjubikarnum á góðum nótum. KA endaði því með 7 stig úr sínum fimm leikjum í mótinu og verður áhugavert að sjá hvernig liðið nýtir næstu vikur í undirbúningi fyrir Pepsi Max deildina í sumar.