KA áfram í deild þeirra bestu!

Handbolti

KA mun leika áfram í Olís deild karla í handboltanum en þetta varð ljóst eftir leiki kvöldsins í næstsíðustu umferð deildarinnar. KA sótti stórlið Vals heim en fyrir leikinn var enn möguleiki á sæti í úrslitakeppninni og ljóst að strákarnir myndu gefa allt í leikinn.

Byrjunin á leiknum var góð og strákarnir leiddu með góðum varnarleik og Jovan Kukobat var öflugur í markinu. En um miðbik hálfleiksins fóru Valsarar að finna lausnir á varnarleiknum okkar og þeir gengu á lagið. Þeir breyttu stöðunni úr 6-6 yfir í 10-6 en strákarnir lögðu ekki árar í bát og minnkuðu muninn í tvö mörk.

Jafnvægi var með liðunum út hálfleikinn og Valur leiddi 16-13 er flautað var til hlés. Byrjunin á síðari hálfleik var frábær og ekki leið á löngu uns staðan var orðin jöfn í 16-16 og aftur í 17-17. Mikil spenna var í leiknum og mátti vart sjá hvort liðið myndi taka leikinn.

En er tæpar 20 mínútur lifðu leiks skildi á milli og sóknarleikur okkar fór að ganga ansi illa. Heimamenn náðu öruggu forskoti og unnu að lokum 30-25 sigur. Margt jákvætt í leik kvöldsins en því miður var frammistaðan ekki nægilega stöðug en þó gaman að sjá hve vel við náðum að standa í öflugu liði Vals lengi vel.

Á sama tíma gerðu ÍR-ingar jafntefli við Stjörnuna og því ljóst að við munum ekki ná úrslitakeppnissæti í lokaumferðinni en hinsvegar með tapi Akureyrar gegn FH er klárt að áframhaldandi sæti okkar liðs í deild þeirra bestu er öruggt og því markmiði vetrarins í höfn.

Tarik Kasumovic var markahæstur í dag með 9 mörk, Áki Egilsnes gerði 6, Jón Heiðar Sigurðsson 2, Dagur Gautason 2, Andri Snær Stefánsson 2, Allan Norðberg 2, Jóhann Einarsson 1 og Sigþór Árni Heimisson 1 mark.

Jovan Kukobat byrjaði leikinn mjög vel í markinu og varði 11 skot. Svavar Ingi Sigmundsson kom í rammann í síðari hálfleik og varði 6 skot þar á meðal tvö vítaköst, ekki amalegt það!

Síðasti leikur vetrarins fer svo fram á laugardaginn þegar KA tekur á móti FH í KA-Heimilinu. Strákunum var spáð neðsta sæti deildarinnar fyrir veturinn en munu enda í 9. sætinu og klárt mál að þessi vetur hefur verið stórkostlegur. Það er því eina vitið að fylla KA-Heimilið á laugardaginn og hylla strákana okkar og hefja strax undirbúninginn fyrir næsta vetur, áfram KA!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband