Jónatan Magnússon tekur við Skövde

Handbolti
Jónatan Magnússon tekur við Skövde
Spennandi tímar framundan hjá Jonna

Jónatan Magnússon tekur við sem nýr þjálfari IFK Skövde í sænsku úrvalsdeildinni í handbolta á næsta tímabili en Jonni sem hefur stýrt liði KA frá árinu 2019 gaf það út í vetur að hann myndi róa á önnur mið að núverandi tímabili loknu.

Þetta er afar spennandi skref fyrir Jonna en Skövde er afar sterkt lið sem stendur í 5. sæti úrvalsdeildarinnar í Svíþjóð um þessar mundir. Undanfarin tvö tímabil hefur liðið endað í 2. sæti deildarinnar en Jonni tekur við liðinu af Henrik Signell en hann hefur stýrt liði Skövde frá árinu 2020.

Eins og áður segir hefur Jonni stýrt liði KA frá árinu 2019 en hann hefur á sama tíma verið yfirþjálfari yngriflokka KA og KA/Þórs frá árinu 2016 og verið lykilmaður í gríðarlegri uppbyggingu á yngriflokkastarfi félagsins en fjölmargir titlar hafa unnist á undanförnum árum á sama tíma og fjöldi iðkenda hefur vaxið mikið.

Undir stjórn Jonna hefur lið KA fest sig í sessi sem öflugt lið í deild þeirra bestu auk þess sem að KA liðið fór í úrslitaleik bikarkeppninnar á síðasta ári og hefur undanfarin tvö tímabil keppt í úrslitakeppninni í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn.

Jonni stýrði kvennaliði KA/Þórs á árunum 2016-2019 þar sem hann vann afar gott og mikilvægt starf í þeirri uppbyggingu sem hefur átt sér stað hjá KA/Þór en undir stjórn Jonna fóru stelpurnar upp í efstu deild og fóru auk þess í undanúrslit bikarkeppninnar.

Þar áður var Jonni í Kristiansund í Noregi frá árinu 2010 þar sem hann bæði stýrði og lék með liði Kristiansund. Hann vakti mikla athygli í Noregi fyrir framgöngu sína og sagði Manchester United goðsögnin Ole Gunnar Solskjær meðal annars að Jónatan væri besti handboltaþjálfari í heimi og að hann væri með stórkostlegt viðhorf bæði til íþróttarinnar sem og til sinna leikmanna.


Jonni á sínu fyrsta tímabili með meistaraflokk 1997-1998

Jonni sem er uppalinn í KA tók ungur sín fyrstu skref í meistaraflokki félagsins og varð strax lykilmaður í öflugu liði KA tímabilið 1997-1998 aðeins 17 ára gamall. Á vellinum sýndi hann mikla leiðtogahæfileika og tók fljótlega við sem fyrirliði liðsins. Með KA varð Jonni Íslandsmeistari árið 2002, Bikarmeistari 2004 og Deildarmeistari 1998 og 2001.

Kominn í Akureyri Handboltafélag og baráttan alltaf sú sama

Árið 2006 gekk hann í raðir franska liðsins St. Raphael en eftir erfið meiðsli og komu fyrsta barns hans og eiginkonu hans, Sigurborgar Bjarnadóttur, sneri hann aftur heim og gekk í raðir sameinaðs liðs Akureyrar Handboltafélags. Með Akureyri fór Jonni fyrir liðinu sem fyrirliði en Jonni á félagsmet Akureyrar yfir flest mörk í einum leik er hann gerði 15 mörk í sigri Akureyrar á Víking árið 2009.


Jonni tryggir framlengingu á Hlíðarenda með flautumarki

Það verður skrýtin sjón að sjá handboltastarfið næsta vetur hjá okkur KA mönnum án Jonna en við erum á sama tíma afar stolt af þessu frábæra skrefi sem hann er að taka og ljóst að Skövde menn eru að detta í lukkupottinn. Jonni er án nokkurs vafa einn allra efnilegasti þjálfarinn í handboltaheiminum í dag og óskum við honum alls hins besta og þökkum honum fyrir hans ómetanlega framlag til félagsins.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband