Flýtilyklar
Jafntefli gegn Fjölni
KA og Fjölnir gerðu í kvöld 1-1 jafntefli í 6. umferð Pepsi Max deildarinnar á Greifavellinum á Akureyri í kvöld. Mark KA skoraði Brynjar Ingi Bjarnason á fyrstu mínútu leiksins. Gestirnir jöfnuðu tuttugu mínútum síðar og þar við sat.
KA 1 – 1 Fjölnir
1 - 0 Brynjar Ingi Bjarnason (’1) Stoðsending: Hallgrímur Mar
1 - 1 Orri Þórhallsson (’22)
Áhorfendatölur:
640 áhorfendur
Lið KA:
Kristijan Jajalo, Hrannar Björn, Brynjar Ingi, Rodrigo, Mikkel Qvist, Ívar Örn, Andri Fannar, Almarr, Hallgrímur Mar, Ásgeir og Guðmundur Steinn.
Bekkur:
Aron Dagur, Ýmir Már, Gunnar Örvar, Jibril Abubakar, Adam Örn, Sveinn Margeir og Bjarni Aðalsteins.
Skiptingar:
Bjarni inn – Almarr út (’65)
Gunnar Örvar inn – Guðmundur Steinn út (’65)
Sveinn Margeir inn – Andri Fannar út (’86)
Það var heldur betur ástæða til að vera mættur tímanlega á leik kvöldsins enda skoraði KA liðið fyrsta markið eftir aðeins 50 sekúndur. Þá skallaði Brynjar Ingi hornspyrnu frá Hallgrími Mar í netið og KA komið í 1-0.
Eftir markið sóttu gestirnir í Fjölni hins vegar í sig veðri og sóttu hart að marki KA. Engu mátti muna að þeir næðu að jafna þegar að misskilningur milli Jajalo og Mikkel olli því að Ingibergur Kort var í séns á að skora í autt markið en skot hans fór í hliðarnetið úr þröngu færi.
Stuttu seinna jöfnuðu gestirnir metin. Þá átti Arnór Breki hörkuskot að marki úr teignum sem Jajalo varði út í teig, Ingibergur Kort skaut svo að marki og náði Rodri að koma sér fyrir það skot en Orri Þórhallsson var fljótur að átta sig og tók frákastið af því skoti og jafnaði verðskuldað fyrir gestina úr Grafarvogi.
KA liðið var hvað líklegast í sóknaraðgerðum síunum þegar að liðið fékk föst leikatriði og voru Fjölnismenn í töluverðum vandræðum en það vantaði þó herslumuninn að KA næði að koma boltanum í netið. Staðan þegar að liðin gengu til búningsherbergja var því 1-1.
Leikmenn KA komu vel stemmdir inn í seinni hálfleikinn og voru sterkari aðilinn á flestum sviðum leiksins í seinni hálfleik. Það vantaði hins vegar aðeins meiri gæði á síðasta fjórðungnum til að koma boltanum í netið og var liðið ekki að koma sér í nægilega góðar stöður.
Engu mátti muna að varamaðurinn Sveinn Margeir Hauksson næði að tryggja KA stigin þrjú þegar að hann færði boltann yfir á vinstri löppina og skaut honum í stöngina fyrir utan teig á síðustu mínútu uppbótartíma. Skömmu seinna flautaði dómari leiksins Ívar Orri til leiksloka og þriðja jafnteflið í röð á heimavelli niðurstaðan.
Nivea KA-maður leiksins: Rodrigo Gomes Mateo (Skilaði fínni framistöðu í vörn KA og stoppaði margar sóknir gestanna.)
Næsti leikur KA er einnig heimaleikur en þá koma nýliðar Gróttu í heimsókn og fer sá leikur fram laugardaginn 18. júlí kl. 16:00. Mætum á völlinn og styðjum liðið í baráttunni. Áfram KA!